Sunnudagur 19. janúar, 2025
0.7 C
Reykjavik

Tafir á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu – Ekki réttur til vaxta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allir vinna átakið var endurvakið í vor, en í því felst 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu manna við hönnun, viðhald og nýbyggingu íbúðarhúsnæðis, frístundastundahúsnæðis og mannvirkja í eigu félagasamtaka, auk vinnu við bílaviðgerðir.  

Mannlíf fékk ábendingu um einstaking sem skilaði inn umsókn um endurgreiðslu í lok júlí og átti samkvæmt skilmálum umsóknarinnar að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan innan 30 daga. Maðurinn hafði samband við Skatinn nú í vikunni þar sem endurgreiðsla hefur enn ekki borist og fékk þau svör að ekki „hafði enn gefist tími“ til að greiða honum til baka samkvæmt umsókn hans. Ætla má að sama eigi við um hundruðir, ef ekki þúsundir annarra einstaklinga sem skilað hafa inn sambærilegri umsókn í Allir vinna.

Mannlíf hafði samband við Skattinn til að leita svara við þessum drætti á greiðslum, og eins hvort umsækjendur ættu rétt á vöxtum á greiðslum sem dragast, sumar jafnvel fram úr hófi.

„Nei það á það ekki,“ segir Elín Alma Arthursdóttir, sviðsstjóri hjá Skattinum. „30 dagarnir eru eitthvað sem við stefnum að að ná,“ segir Elín, og bendir að í umsóknarferlinu komi fram að búast megi við afgreiðslu innan 30 daga, en sá tími sem nefndur er sé ekki lögfestur.

„Ástæðan fyrir því að það næst ekki núna er vegna þess að umsóknarfjöldinn hefur þrefaldast frá því í maí,“ segir Elín og bætir við að umsóknarferlið hafi verið gert rafrænt í vor. Umsóknir hafi safnast upp þá, en síðan þrefaldast eins og áður sagði.

Í frétt RÚV um átakið 30. júní kom fram að sprenging hefði orðið í umsóknum, en hátt í fimm þúsund umsóknir höfðu þá borist og sneru flestar að endurgreiðslu vegna bílaviðgerða. Stóð þá til að opna fyrir möguleika fleiri aðila að sækja um endurgreiðslu.

- Auglýsing -

Umsóknir vegna bílaviðgerða afgreiddar hraðar

„Við erum búin að ná mjög mikilli afgreiðslu í sambandi við bílaviðgerðirnar, en það hefur ekki gengið eins hratt með viðhaldsumsóknirnar, sem er einfaldlega vegna þess að það tekur lengri tíma að fara yfir þær. Umsóknir vegna bílaviðgerða eru einfaldari.

Sé miðað við tölur 11. september hafa borist 6.518 umsóknir vegna bílaviðgerða, og þá búið að afgreiða 5.289 þeirra, og þá 1.229 umsóknir óafgreiddar. „Í bílunum er ekki langur afgreiðslutími,“ segir Elín.

- Auglýsing -

„Við höfum brugðist við með því að ráða inn starfsmenn á Siglufirði og taka inn aðra starfsmenn í þessa afgreiðslu, en fjöldinn er bara svo mikill miðað við mannaflann.“

Umsóknir í heild árið 2020 sé miðað við 11. september eru 22.889 talsins, á sama tíma í fyrra voru þær rúmar 8.000 að sögn Elínar. „Endurbætur á íbúðarhúsnæði frá einstaklingum eru 14.694 talsins, 10.657 þeirra komu inn frá júní til 11. september. Það hefur verið aukning í þeim umsóknum líka, eins og sést.“

Tímamörk umsóknar um endurgreiðslu

Allir vinna átakið og 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti miðast við tímabilið 1. mars til og með 31. desember 2020. Þetta þýðir að svo lengi sem reikningurinn frá fyrirtækinu er dagsettur innan þessara tímamarka þá verður hægt að sækja um endurgreiðslu á honum hvenær sem er á tímabilinu og jafnvel lengur.

Elín Alma bendir á að umsóknarfresturinn miðist þó ekki við þessi tímamörk, heldur einungis dagsetning reiknings/a.

„Það eru ekki mörk á því, við höfum tekið umsóknir alveg mörg ár aftur í tímann,“ segir Elín Alma. „Þær eru ekki margar, en það kemur alveg fyrir að það séu 2-3 ár aftur í tímann, en mest er þetta innan hvers árs.“

Áttu von á að umsóknum fjölgi enn meira?

„Nei ég hugsa að þetta verði bara svipað út árið, en maður veit það ekki. Það gæti verið að einhverjir hafi farið í utanhússviðgerðir, hellulagnir og slíkt, sem fólk fer í á sumrin, en það er ekki hægt að segja til um það. En það gæti verið meiri kúfur á sumrin og mér finnst líklegt að umsóknir eftir sumarið verði fleiri en eftir síðasta sumar,“ segir Elín Alma.

Nánari upplýsingar um Allir vinna má finna á heimasíðu Skattsins

Ert þú með ábendingu um neytendamál? Sendu póst á [email protected].

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -