Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Takk fyrir að leyfa mér að vera með“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Ágúst Víðisson var í sviðsljósinu og alþekktur meðal þjóðarinnar fyrir nokkrum árum, fyrir tónlistina, þar á meðal sem einn af strákunum í Skítamóral og þátttöku í Eurovision. Einnig fyrir ýmsar uppákomur sem ítrekað komu Einari Ágústi á forsíður fjölmiðla. Hann hefur verið utan sviðsljóssins um hríð en steig á svið fyrr á árinu á Aldamótatónleikunum sem slógu í gegn og á nýju ári heldur Skítamórall afmælistónleika í Hörpu.

 

Nú hefurðu verið utan sviðsljóssins í nokkurn tíma, hvað hefurðu verið að gera undanfarið? „Það er svolítið það þægilega við bransann þegar maður eldist að það má hafa nóg að gera án þess einmitt að vera í sviðsljósinu. Gargandi á hverju götuhorni, eins og í gamla daga. Ég trúi ekki að ég hafi sagt þetta, GAMLA DAGA,“ segir Einar Ágúst og hlær. „En nú er hægt bæði að koma sér vel á framfæri á svo margan hátt og auðveldara að ná í mann, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla.“

Einar Ágúst á Aldamótatónleikum í Háskólabíó Mynd / Hafsteinn Snær

Heill hellingur af auðmýkt og þakklæti

Hvernig komu Aldamótatónleikarnir til, hvernig fannst þér að taka þátt í þessu verkefni og persónulega að fá þessi viðbrögð sem tónleikarnir hafa fengið?

„Það er nú eitthvað next level-rugl þessar móttökur. Þvílíka dúndrið! Hann Atli hjá ARG-viðburðum setti þetta af stað í vor,“ segir Einar Ágúst. Upphaflega átti aðeins að halda eina tónleika, en þeir urðu mun fleiri: þrennir í Háskólabíói í vor, Þjóðhátíð, Ljósanótt í Reykjanesbæ, Akureyri og síðan aftur þrennir í haust í Háskólabíói, slíkar voru viðtökurnar.

„Samkvæmt nýjustu tölum eru tvennir Aldamótatónleikar uppseldir í apríl 2020 þannig þetta rúllar aðeins. Við erum, held ég, sú kynslóð poppara sem höfum fengið mesta mótbyrinn, niðurtalið og minnstu viðurkenninguna í gegnum tíðina en þetta sýnir að hér erum við og lögin okkar munu lifa,“ segir Einar Ágúst og bætir við að meiri heiður og viðurkenningu sé ekki hægt að fá.

„Við erum, held ég, sú kynslóð poppara sem höfum fengið mesta mótbyrinn…“

- Auglýsing -

„Þessar móttökur hafa hent í mann heilum helling af auðmýkt og þakklæti. Maður finnur svo sterkt að þetta snýst mest um hlustandann og lögin sjálf, við hin erum í aukahlutverki. Við erum ekkert án fólksins. Það er einmitt svo merkilegt að þegar tónlistarmenn upplifa sig jafnstóra og lög þeirra eða eigið nafn verða þeir kjánalegir egóistar. Hann er fallvaltur raunveruleikinn og þegar maður fetar þennan þrönga veg getur maður fallið beggja megin. Ég þekki það.“

Skítamórall Mynd / Golli

Skítamórall óútskýranlegt bræðralag

Hljómsveitin Skítamórall var stofnuð árið 1989 og fagnar 30 ára afmæli á næsta ári með afmælistónleikum í Hörpu. Einar Ágúst kom inn í hljómsveitina árið 1997, hætti árið 2004 og kom síðan aftur tíu árum síðar og verður að sjálfsögðu með í Hörpu.

- Auglýsing -

„Ég byrjaði aftur í hljómsveitinni árið 2014 og þetta var svaka rússíbani fyrstu misserin og svo hægðum við á. Um þessar mundir eru 30 ár síðan Addi, Hanni, Hebbi og Gunni stofnuðu hljómsveitina á Selfossi og bæði er verið að fagna því sem og þakka fyrir okkur með alvörutónleikum. Við erum vanari að spila fyrir dansi og því allt öðruvísi að halda tónleika, ég er kominn nett á kvíðalestina. Farinn að stressast talsvert upp,“ segir Einar Ágúst aðspurður um hvernig sé að koma aftur fram með strákunum og það á risatónleikum.

„Eldborg í Hörpu er geggjaður salur og verður gaman að fá tónlistina okkar leikna þar. Það er ekki sjálfgefið að lenda í svona góðum hóp. Það sem við eigum saman er nákvæmlega það sem alla krakka sem vilja stofna hljómsveit langar í, samheldni og eitthvað óútskýranlegt „bræðralag.“

Skítaleðjan Mynd / Jökull Bergsveinsson

Í Skítaleðju með Heiðari

Annað nýlegt verkefni er dúettinn Skítaleðja sem er samstarf Einars Ágústs og Heiðars í Botnleðju, en þeir halda sína aðra tónleika nú um helgina á Gamla Enska í Hafnarfirði. En hvernig kom það samstarf til?

„Við höfum rekist hvor á annan á Gamla Enska yfir kaffibolla við barborðið og þá þegar barfaðirinn Bjarni er til borðs. Við höfum verið að spila þar sitt í hvoru lagi. Bjarni gaukaði þessari hugmynd að okkur og þá höfðum við báðir verið að gæla við þetta víst en ekki þorað að ryðjast út úr skápnum með hugmyndina. Það má segja að þetta sé sá dúett sem síst var búist við að yrði til. Við komum hvor úr sinni senunni þarna rétt fyrir síðustu aldamót og þegar við vorum yngri var mikið reynt að stilla okkur upp gegn hvor öðrum, poppinu annars vegar og rokksenunni hins vegar. Það voru oft illir andar á sveimi á pressunni á þeim tíma. Þessi dúett er friðarboði ákveðins tímabils í íslenskri tónlist. Við erum hinn samhæfði tónn, hið algilda nú,“ segir Einar Ágúst og bætir við að það væri gaman að henda í smáband einn daginn. „Við höfum opnað fyrir þessa orkustöð gagnvart alheiminum og þá getur allt gerst.  Kannski dettur inn lag eða lög, hver veit. Við erum menn nú-sins og leyfum þessu að flæða frjálst bara.“

„Hafa skilið eftir auð, verðmætari en allar krónur“

„Einhvern tímann kemur jú út alveg ný músík, ég er alltaf að gæla við eitthvað en lítið í því að klára hugmyndirnar. Ég hef svo sem enga þörf fyrir að vera færibandalistamaður, að fólk verði bara að heyra eða sjá allt sem mér dettur í hug,“ segir Einar Ágúst aðspurður um hvað hann er að gera einn og sér. Ætlar hann jafnvel aftur í Eurovision? „En Júró já, ég veit það ekki. Þetta er orðin svo agaleg vinna! Svakalegur plöggsirkus sem þarf að ræsa, allt öðruvísi enn í denn. Ha ha ha, en auðvitað neitar maður ekki ef einhver höfundur biður mann um að syngja lag sem manni finnst gott og vill standa með. Ég er kannski ekki besti kandídatinn í svona keppni. Það vantar allt keppnisskap í mig. Ég vil bara að hafa gaman, njóta, en auðvitað vandar maður sig. Ég hef sungið inn eitt og eitt lag sem sent hefur verið í keppnina en ekki komist í gegn. Þannig það er alltaf einhver taug tengd þarna inn, auðvitað.

En þar fyrir utan hef ég verið að glíma við krankleika, veikindi sem sér ekki alveg fyrir endann á og það hefur sett strik í reikninginn, heilsufarslega að sjálfsögðu, og fjárhagslega. Það að veikjast er góður skóli en kvalafullur. Ég þakka fyrir hvert gigg, hvert sjóv. Segi TAKK. Takk fyrir að leyfa mér að vera með, nenna að hlusta á mig og þola vitleysuna. Ég er hér fyrir ykkur, til þjónustu reiðubúinn, allt fram á síðustu stund. Ég elska þessi forréttindi. Þau hafa skilið eftir auð, verðmætari en allar krónur.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -