Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Tanja Björk: „Ég sat á baðherbergisgólfinu í algjöru þroti og ófær um að rísa á fætur “

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

„Ég held að það sé ómögulegt að segja fyrir fram hvernig áhrif þetta mun hafa en ég upplifi allavega meiri utanaðkomandi áhuga en áður og vona að ég fái fullt af verkefnum í framhaldinu. Ég sé tækifæri til að taka pláss sem listakona í sviðslistum og ætla mér að nýta það eins vel og hægt er,“ segir Tanja Björk Ólafsdóttir leikkona sem er tilnefnd til Kanadísku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna, Canadian Screen Awards, sem leikkona í aukahlutverki í kanadísku kvikmyndinni Le Bruit des Moteurs sem kallast Vélarhljóð á íslensku. Leikstjórinn, Philippe Grégoire, er tilnefndur fyrir bestu leikstjórn.

Tanja Björk stundaði leiklistarnám við The American Academy of Dramatic Arts í Los Angeles og útskrifaðist árið 2018.

Rétt fyrir lok seinni annar var pabbi minn bráðkvaddur.

„Ég fór út með börnin mín tvö sem voru þá tveggja og sjö ára. Námið var mjög krefjandi en líka skemmtilegt; ég held mér hafi aldrei liðið jafn vel og fyrstu önnina þarna úti. Ég elskaði sólina og að vera upptekin frá morgni til kvölds við að læra á því sviði sem ég hef mestan áhuga á. Börnunum mínum gekk líka mjög vel að aðlagast en þetta var samt strembið. Rétt fyrir lok seinni annar var pabbi minn bráðkvaddur og það rétt svo hófst að klára önnina áður en ég flaug heim en þetta sumar var mjög þungt og þokukennt. Önnin eftir það var mjög erfið og ég var næstum búin að gefast upp en ég svaf að meðaltali fjóra tíma á nóttu til þess að geta haldið í við öll skólaverkefni og sinnt börnunum mínum jafnframt af alúð, enda vildi ég ekki að námið myndi bitna á þeim á nein hátt.“

Útskriftin var svo haldin í sama húsnæði og Óskarsverðlaunin eru haldin. „Það var svolítið skemmtilegt að sjá þetta og var í raun allt öðruvísi en ég bjóst við. Aðkoman er miklu hversdagslegri en ég hélt, en það var samt sem áður spennandi að fá að upplifa þetta umhverfi sem hefur hýst svo marga virta, skapandi einstaklinga og heiðrað afrek þeirra. “

Þegar við vorum aftur komin út fór sonur minn í skólaferðalag og þar var „shooter alarm”.

Einstæð móðir með tvö börn í borg englanna. „Ég var bundnari en flestir samnemendur mínir þar sem ég var eini nemandinn í skólanum sem átti börn og flestir vinir mínir utan skólans voru þarna til að eltast við ferilinn frekar en að stofna fjölskyldu. Ég kom heim um jólin 2018 og fann þá að mig langaði ekkert aftur út en það var um marga lausa enda að binda og ákvað að vera aðeins lengur. Þegar við vorum aftur komin út fór sonur minn í skólaferðalag og þar var „shooter alarm”, eða „skotárásarviðvörun“, og hann lýsti því fyrir mér að þau hefðu öll falið sig undir rúmunum. Sem betur fer var engin raunveruleg hætta á ferð en ég ákvað samt að þetta væri ekki raunveruleiki sem mig langaði að bjóða börnunum mínum upp á og pakkaði saman og gerði upp allt mitt á tveimur vikum og flutti heim. Þá var ég eiginlega bara alveg brunnin út og þakklát fyrir þá ró sem er að finna hérna á Íslandi. Ég sakna þess samt alveg að fara á listasöfnin, í leikhúsið og út að borða á yndislega veitingastaði en ég myndi ekki flytja þangað aftur núna.“

- Auglýsing -
Tanja Björk Ómarsdóttir
„Ég sé tækifæri til að taka pláss sem listakona í sviðslistum og ætla mér að nýta það eins vel og hægt er.“ (Mynd: Nicol Vizioli.)

Höll sjálfsins

Svo er það ferill þessarar ungu leikkonu.

„Ég hef fengið tækifæri til þess að taka þátt í alls konar verkefnum og er ég mjög þakklát fyrir það. Ég hef leikið í tónlistarmyndböndum svo sem hjá Eivør og Retro Stefson og í sviðsverkum úti í LA svo sem Macbeth, Spring Awakening, Remembrance, Time Stands Still, All My Sons, Cry Havoc!, Dinner with Friends og Heaven Can Wait. Ég dýrka að vera á sviði og mér finnst ótrúlega skemmtileg vinnan í kringum það að skapa karakter. Hún lifir svo lengi í manni og mér þykir lengi vænt um hana eftir á. Ég geri alltaf mikla rannsóknarvinnu í kringum hlutverkin sem ég tek að mér svo ég geti skilið virkilega bakgrunn manneskjunnar sem ég er að fara að líkamna; ég held að það sé sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða períódu eða þegar leikritið er afmarkað við ákveðinn stað á ákveðnum tíma. Svo fer líka mikil vinna í að finna líkamshreyfingar hennar; að smeygja sér inn í skrokk persónunnar. Það er aðeins öðruvísi á kvikmyndasetti, allt öðruvísi vinnuflæði. Ég er alltaf þakklát þegar ég vinn með leikstjórum sem vilja æfa fyrir fram með leikurunum sínum en raunin er að það er ekki alltaf tilfellið, oftast vegna þess að það passar ekki inn í dagatalið. Það er öðruvísi uppgötvun og skil á túlkun karakters þegar það er fyrir hreyfimyndaformið en ég hef líka mjög gaman af að geta sett mikinn kraft í styttri tíma og eftir situr verk sem endist og lifir áfram. Þetta er tvennt ólíkt og ég fíla bæði. Ég hef hins vegar ekki verið að vinna mikið í leiklistinni síðan ég flutti heim, enda blússandi Covid á þeim tíma, en er byrjuð að láta vita af mér núna auk þess að vera að skapa mín eigin verkefni.“

Ég elska að fá að segja sögur.

- Auglýsing -

Tanja Björk er spurð hvað leiklistin gefi henni. „Leiklistin býður upp á að opna margar hurðir í höll sjálfsins. Ég held að það búi mjög margt innra með okkur og það er virkilega spennandi fyrir mig að fá að máta allt sem það þýðir að vera mannvera og leika mér með gefnar forsendur hverju sinni eins og að upplifa hluta af sjálfri sér utan frá en samt innan frá samtímis því. Ég hef kynnst sjálfri mér hundrað sinnum betur en ég hefði gert í öðru fagi. Ég hef líka lært mikið um heiminn, mannkynssögu og mannfræðileg fyrirbæri í gegnum þá rannsóknarvinnu sem á sér stað í undirbúningsferli hlutverks. Ég elska að fá að segja sögur og deila reynslu minni á lífinu á þennan hátt. Svo er það líka þannig að ég á oft erfitt með að vera í núinu; ég er algjör draumóramanneskja sem er með hugann við eitthvað annað en þegar maður er að leika þarf maður að vera á staðnum og gefa allan fókusinn í senuna. Það er eitthvað jarðtengjandi við það og ég finn hvernig það breytir líðan og viðmóti inn í daginn bæði fyrir og eftir starfsdag.“

Tanja Björk Ómarsdóttir
„Leiklistin býður upp á að opna margar hurðir í höll sjálfsins.“ (Mynd: Ólöf Kristín Helgadóttir.)

Álfar, hafmeyjur, nornir og guðir

Hún talaði um höll sjálfsins og að hafa kynnst sjálfri sér. Hvað einkennir hana sem leikkonu?

„Ég legg mig mikið fram við að setja mig djúpt inn í hugarheim karaktersins sem ég er að túlka. Ég er viss um að flestir leikarar geri það en hver og einn hefur sínar aðferðir við að ná því takmarki. Ég hugsa að það sem ég hef heyrt hvað mest sé að ég er algjört kameljón en ég get breytt viðmóti og útliti alveg gríðarlega þrátt fyrir það að vera með frekar sérkennilegt lúkk. Ég er með sterkan bakgrunn í dansi og hefur það gríðarlega mikið að segja fyrir mig hvernig ég vinn að því að skapa karakter. Ég er með mikla líkamsmeðvitund og ég held að það spili inn í mína nærveru á sviði eða fyrir framan kameru. Ég á líka auðvelt með að sækja tilfinningar inn í sjálfa mig og tengja þær við þær aðstæður sem er búið að skapa fyrir karakterinn og myndi ég elska að fá hlutverk sem reynir virkilega á það.“

Myndi eiginlega enn frekar vilja setja mig í spor illmennis sögunnar.

Hvert er draumahlutverkið? „Þau eru svo mörg. Ég hef lengi viljað leika hlutverk Alice í Closer ef sú sýning yrði sett upp hérlendis en ég tók eina senu úr því leikriti í senuvinnu í náminu úti. Ég væri líka mikið til í að taka þátt í ævintýrasögum þar sem eru álfar, hafmeyjur, nornir og guðir á ferð. Lord of the Rings, Game of Thrones eða Vikings spinoff væri algjör draumur. Eða fá að vera einhvers konar geimverudrottning. Ég hef alveg gaman af því að vera hetjan en myndi eiginlega enn frekar vilja setja mig í spor illmennis sögunnar. Ég er opin fyrir hverju sem er og ég myndi segja að ég geti fundið neistann í flestum hlutverkum.“

Tanja Björk er að vinna að tveimur stuttmyndum sem fara í tökur á þessu ári. „Svo veit ég ekkert hvað gerist næst. Það verður vonandi eitthvað skemmtilegt og spennandi.“

Hvernig er svo þessi heimur; leiklistarheimurinn sem virkar án efa ævintýralegur fyrir marga? „Hann er ansi fjölbreyttur og mín reynsla af honum er langmest jákvæð. Auðvitað eru vandamál, eins og metoo-bylgjur gefa að kynna, auk þess sem ennþá eru mjög staðlaðar fegurðuarímyndir í fyrirrúmi en mér finnst það samt vera að breytast. Við verðum bara að halda áfram að rýna til gagns og krefjast breytinga í samfélaginu og kvikmyndagerð. Ég verð samt að viðurkenna að ég hef oft upplifað mikla pressu varðandi útlit. Ég er mjög meðvituð um það vegna þess að ég var með átraskanir í mörg ár þegar ég var yngri og þarf að passa mig mjög vel að detta ekki ofan í þá gryfju að velta mér upp úr líkamsþyngd eða sentímetrum. En ég hef alveg tekið eftir því að útlitið hefur oft meira að segja en við viljum viðurkenna.“

Tanja Björk Ómarsdóttir
„Ég verð samt að viðurkenna að ég hef oft upplifað mikla pressu varðandi útlit.“ (Mynd: Tinna Schram.)

Tónlistin og handritin

Leikkonan er að skrifa handrit.

„Ég er akkúrat núna að vinna að tveimur handritum, stuttmynd og þáttaröð. Ég er ennþá mjög ný í framleiðsluhluta þess að koma vinnunni sinni á framfæri en ég er að sjóast hægt og rólega. Ég er einnig að vinna að leikriti og teiknimyndasögu og er með safn af smásögum, örsögum og ljóðum sem ég hef ekki gefið út. Ég elska að skrifa. Ég hef unun af því að leika mér að orðum og þegar ég dett inn í flæðið þá get ég setið einbeitt í marga klukkutíma og bara leyft því að koma sem kemur. Mér finnst oft eins og ég sé að miðla; eins og sagan sé þegar til en hún sé að koma til mín í gegnum einhvers konar æðri mátt. En til þess að gefa sig á vald þessara sköpunarkrafta þarf maður að gefa sér tíma í að setjast niður og byrja; það er oft og tíðum mín stærsta hindrun. Ég sæki mikinn innblástur í mína eigin reynslu en ég er líka algjör fantasíunörd og mér finnst gaman að skapa heima þar sem eru allt önnur lögmál en þau sem gilda í okkar heimi og samfélagi. Það er hægt að rannsaka og skapa ádeilu með því að taka allt annað sjónarhorn á hlutina. Það er auðveldara að spyrja „af hverju er þetta svona?” með því að skapa einhverja aðra lausn og kynna hana í gegnum augu persónu. Það koma oft hugmyndir til mín þegar ég er að keyra þannig að ef einhver spottar mig og ég er að tala upphátt við sjálfa mig á rauðu ljósi þá er það vegna þess að ég er að taka upp hljóðrit á símann svo ég gleymi ekki hugmyndinni. Svo sorterar maður út hvað kveikir frekari áhuga og hvað býður upp á möguleika til að verða eitthvað meira.“

Tanja Björk fæddist og ólst upp í Lúxemborg. Faðir hennar var búinn að búa þar frá því hann var barn og móðir hennar fór þangað sem au pair og þar kynntust þessir tveir ungu Íslendingar. Tanja Björk byrjaði ung að læra á píanó og segir hún að foreldrar sínir hafi báðir verið tónelskir og að pabbi hennar hafi oft dregið fram gítarinn í partíum.

Ég var alltaf hrædd við að vera „ekki nógu góð“.

„Ég var mjög feimin við að syngja og er það í rauninni enn,“ segir Tanja Björk sem hefur verið að semja tónlist. „Þegar ég er að semja koma textarnir mjög auðveldlega til mín og út frá þeim sprettur síðan melodía sem undirstrikar tilfinninguna á bak við orðin. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að framkvæma þær hugmyndir sem koma til mín en ég hef oft verið að semja lög án þess að gefa þau út. Það er fyrst núna sem ég er að stíga inn í það hlutverk og hef virkilega gaman af því. Ég var alltaf hrædd við að vera „ekki nógu góð“ til þess að gefa eitthvað frá mér, enda með svolitla fullkomnunaráráttu. Í dag reyni ég að hugsa með mér að það verði aldrei neitt fullskapað og allt í stöðugri þróun og svo er það bara spurning um að gefa verkinu líf og leyfa því að þróast eins og það vill gera.“

Tanja Björk Ómarsdóttir
„Ég sæki mikinn innblástur í mína eigin reynslu en ég er líka algjör fantasíunörd og mér finnst gaman að skapa heima þar sem eru allt önnur lögmál en þau sem gilda í okkar heimi og samfélagi.“ (Mynd: Aðalheiður Rós Málfríðardóttir.)

Nauðganir

Tanja Björk túlkar alls konar persónur í starfi sínu sem leikkona; persónur sem hafa upplifað hitt og þetta. Hún er spurð hvaða lífsreynsla hafi mótað hana sjálfa: Tönju Björk Ómarsdóttur. Hún, ung móðirin, talar um trauma en þau áföll sem Tanja Björk segist hafa gengið í gegnum eru föðurmissi, nauðganir og ofbeldissamband sem hún var í um tíma.

„Ég hef lært ofboðslega mikið af því að ganga í gegnum erfiðleika og kann mjög mikið að meta hugarró sem ég hef náð að skapa fyrir sjálfa mig. Og vonandi get ég miðlað þeirri reynslu og mögulega hjálpað öðrum sem standa frammi fyrir því stóra verkefni að vinna úr áföllum. Ég hefði alls ekki kynnst þeirri þrautseigju sem ég bý yfir ef ég hefði ekki verið sett í þessi spor og ég held að það gildi það sama fyrir mig og marga aðra og við þá vil ég segja að þið eruð sterkari en þið vitið en það að heila sig eftir trauma er að mínu mati eitthvað sem krefst þess að fá hjálp frá þeim sem maður treystir í kringum sig og oft er erfiðasta skrefið að segja frá og svo biðja um hjálp. Ég var í mjög mörg ár að burðast með skömm, kvíða, og sjálfsásakanir sem drógu úr mér allan mátt en ég hef fengið svo góða hjálp frá fjölskyldu, vinum og fagaðilum eftir að ég þorði að opna mig almennilega um þá reynslu sem ég gekk í gegnum. Lífið er alls konar og við þurfum öll á hvert öðru að halda til þess að geta komist í gegnum það. Fyrir utan allt sem hefur gengið á í persónulegum samskiptum þá hefur það mótað mig mjög mikið að ferðast og kynnast ólíkri menningu og viðhorfum. Ég elska að kynnast fólki hvert sem ég fer og mér finnst það alveg sérstaklega skemmtilegt í stórborgum þar sem fólk alls staðar að úr heiminum kemur saman og býr í tiltölulega miklu sátt og samlyndi. Ég er stolt af því að ná að halda í trú á hinu góða í fólki almennt þótt mér hafi svo sannarlega verið sýnt hvað er mikil grimmd í heiminum og hvað fólk getur verið ljótt við hvert annað. Ég leyfi ekki illskunni að sigra mig með því að gera mig tortryggna þótt ég sé varkárari og með miklu skýrari mörk en áður fyrr.“

Ég er svo þakklát fyrir það hversu margir hafa stigið fram og skilað skömminni

Trauma og áföll. Áfallasagan er löng. Í mörgum köflum. „Mér finnst vera erfitt að stíga fram og tala opinberlega um þetta. Það vita þetta ekki margir og bráðum getur hver sem er flett upp í mínum viðkvæmustu og hræðilegustu minningum,“ segir Tanja Björk sem segist hafa verið þolandi nauðgana oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í gegnum árin. Hún talar um fyrstu nauðgunina og áhrif hennar á sig.

„Það er erfitt að útskýra eftirköstin en þau hafa oft og tíðum ekki einu sinni verið ljós fyrir sjálfri mér fyrr en löngu seinna. Fyrsta skiptið sem mér var nauðgað var þegar ég var fimmtán ára. Ég hafði verið að drekka á sveitaballi í Lúxemborg. Ég var ung og óreynd og vissi ekki betur. Ég man að þegar ég fór í EMDR-meðferð í kjölfar annars áfalls til þess að sigrast á áfallastreitu, en í þeirri meðferð snýst þetta að miklu leyti um að rétta af hugaskekkjur, þá sat ég þarna og talaði um mig sem 15 ára ungling og myndin sem ég var búin að teikna af sjálfri mér var ekki falleg; hvað ég væri heimsk að láta plata mig af þessum gæja og hvað ég var barnaleg að halda að hann vildi bara kíkja í göngutúr. En kannski er það ekkert skrítið, enda var ég í rauninni bara barn. Ég myndi aldrei hugsa svona lagað um einhverja aðra manneskju, sama á hvaða aldri og í hvaða aðstæðum hún varð fyrir kynferðisbroti. En af hverju að hugsa svona um sjálfa mig? Ég er svo þakklát fyrir það hversu margir hafa stigið fram og skilað skömminni en þetta eru ekki bara einhver orð sem eru köstuð fram sem slagorð baráttunnar. Skömmin er mjög raunveruleg. Hjá mér var hún svo mikil að ég var í meira en 15 ár í afneitun varðandi það sem átti sér stað. Það var ekki fyrr en ég fór að vinna úr öðrum brotum sem þetta framkallaðist allt í mjög skýrri mynd og ég horfðist í augu við hvað þetta hafði mikil áhrif á líf mitt. Ég hafði enga tilfinningu fyrir því hvers virði ég var. Mér fannst ég bara vera nógu góð til þess að þóknast öðrum og þegar ég horfi til baka þá var ég mjög týnd í mjög langan tíma vegna þess að með þessu broti var komin forsenda til þess að ýta mörkum mínum enn aftar, fjær því sem er heilbrigt og eðlilegt. Það eru svo margar og lúmskar afleiðingar við þessum glæp og ég hugsa oft hvernig líf mitt hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst. Hvort hin atvikin hefðu átt sér stað. Hvort ég hefði skapað fleiri tækifæri fyrir sjálfa mig. Hvort ég hefði elskað sjálfa mig fyrr. Það tapast svo margt í rofinu sem á sér stað í huga manns þegar maður tekst á við svona áfall og ég syrgi það stundum að hafa glatað sjálfsvirðingunni. Það vita það örugglega ekki allir að ef maður hefur einu sinni orðið fyrir ofbeldi er miklu líklegra að það gerist aftur. Þannig var það hjá mér. Þetta fyrsta skipti opnaði fyrir hálfgert flóð af andlegu og seinna meir líkamlegu ofbeldi en fyrir rest þá var það að vera beitt því af manni sem ég elskaði það sem lét mig ekki vilja lifa lengur. Það var algjört niðurrif. Heilinn kann ekki að vinna úr þessum upplýsingum sem eru svona líka gjörsamlega á skjön. Að elska er sársauki, var niðurstaðan, og ég sætti mig við hana. Ég endaði í algjörri kulnun eftir að því sambandi lauk en ég þekkti mig ekki lengur. Ég var í tvö ár að byggja mig aftur upp í manneskju sem ég kannast við og er sátt að lifa með alla daga. Að endurheimta sjálfsvirðingu er stórkostlegt og ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að gera það og að fá tækifæri til þess til þess að verða aftur heil.

Ég leitaði mér hjálpar hjá sérfræðingum, meðal annars hjá Bjarkarhlíð og Stígamótum.

Bága staðreyndin er sú að margar konur sem eru í sömu stöðu og ég var í fá ekki tækifæri til þess. Ég er ein af þeim ofboðslega heppnu. Og ég er þakklát fyrir að hafa skilning og innsæi inn í aðstæður sem er mjög erfitt að skilja án þess að hafa lifað þær. Það er auðvelt að dæma en erfitt að skilja. En ég er hér og ég stend með öllum þeim sem hafa verið og munu vera í þessari sömu stöðu. Ég leitaði mér hjálpar hjá sérfræðingum, meðal annars hjá Bjarkarhlíð og Stígamótum. Ég finn hvað ég stend eftir svo miklu sterkari en ég hefði getað ímyndað mér þegar mér leið svo brotinni, þegar ég sat á baðherbergisgólfinu í algjöru þroti og ófær um að rísa á fætur því ég var lömuð af sorg og særindum. Ég vona að það nái til einhvers sem þarf að heyra það en það er til von þótt það sé erfitt að trúa því. Það er bara að komast í gegnum einn dag í einu þar til að það hættir að vera spurning um að lifa af og fer að snúast um það að blómstra.“

Tanja Björk Ómarsdóttir
„En ég er hér og ég stend með öllum þeim sem hafa verið og munu vera í þessari sömu stöðu.“ (Mynd: Marinó Flóvent.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -