- Auglýsing -
„Í fréttum og tilkynningum frá Vegagerðinni sl. 2 ár hefur ítrekað komið fram að útboð vegna þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar (síðasta áfanga Þ-H leiðar um Gufudalssveit) sé rétt handan við hornið,“ skrifar Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, um framgöngu Vegagerðarinnar við vegaframkvæmdir á sunnaverðum Vestfjörðum. Nú virðist komið á daginn að tafir verði.
Tilefni skrifa hans er að svo virðist sem það dragist að þvera Djúpafjörð og Gufufjörð nú þegar þverun Þorskafjarðar er að ljúka. Nú hefur Vegagerðin gefið út að hugsanlega fari fram útboð í vetur en áður hafði verið boðað að stutt væri í útboðið.
Virkilega?
„Líklega í vetur? Er það nú virkilega?“ skrifar Teitur á Facebook. Hann hefur af þessu tilefni sent fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra þar sem hann leitar skýringa.
„Til að fyrirbyggja minnsta vafa um hvenær verkið í heild verður klárað lagði ég fram fyrirspurn til innviðarráðherra nú fyrir skömmu á Alþingi um hvenær áætlað er að útboðið fari fram og hvenær eru áætluð verklok. Eftir allt sem á undan er gengið í þessum sagnabálki sem vegaframkvæmd í Gufudalssveit er orðinn hljóta samgönguyfirvöld að reyna flýta allri vinnu eins og hugsast getur. Annað er ekki í boði,“ skrifar Teitur Björn.