Eftir vonbrigðin á HM hefur umræða um þjálfaramál íslenska karlalandsliðsins í handbolta farið á flug.
Svo fór að íslenska landsliðið endaði í 12. sæti á HM; vilja margir meina að Guðmundur Guðmundsson núverandi landsliðsþjálfari komist ekki lengra með liðið.
Ýmis nöfn hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir þjálfarar íslenska liðsins; þá helst Dagur Sigurðsson, sem var ekki mjög hrifinn af spilamennsku liðsins á HM og vill meina að árangurinn hefði átt að verða miklu betri:
„Hann er búinn að vera að segja að liðið sé að spila stórkostlega. Það er bara ekki alveg rétt. Ég er ekki tilbúinn að kvitta upp á að þetta séu bara einhverjar 15 mínútur á móti Ungverjum, en að annars hafi mótið bara heilt yfir verið gott. Ég held að allir þjálfarar sem eru látnir fara, séu látnir fara af því að liðið klikkaði á of mörgum dauðafærum og markvörðurinn hjá mótherjunum varði of marga bolta. Það eru engar aðrar ástæður í handbolta til að láta þjálfara fara heldur en þessa.“
Dagur er þjálfari japanska karlalandsliðsins; er með samning í eitt ár til viðbótar.
Kristjana Arnarsdóttir, umsjónarkona HM stofunnar á RÚV spurði Dag eftir síðasta leik Íslands á HM, hvort hann gæti hugsað sér að taka við íslenska landsliðinu:
„Ég er held ég bara í sömu stöðu og Guðmundur. Ég hef ekki verið að ná þeim árangri sem ætlast er til af mér og feginn að halda mínu djobbi ef ég get það fram yfir Ólympíuleika.“