Næstum öllum takmörkunum sem settar voru á vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið aflétt í Nýja-Sjálandi. Ekkert staðfest virkt smit er í landinu og telja yfirvöld þar í landi að þau séu laus við veiruna.
Ekkert nýtt smit hefur greinst í Nýja-Sjálandi í tvær vikur. Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands segist hafa stigið lítinn dans þegar hún frétti að landið væri laust við veiruna.
Hún segir að það verði þó ekki auðvelt að koma lífinu aftur í fyrra horf en núna verði fókusinn settur á að byggja upp efnahagslífið. Áfram verður eftirlit við landamærin og þurfa allir sem koma inn í landið að fara í 14 daga sóttkví.
1.154 kórónuveirusmit hafa greinst í Nýja-Sjálandi frá upphafi faraldursins. 22 létust þar í landi vegna veirunnar.