„Allir á Spáni hafið augun opin fyrir stelpunni okkar, hún hefur engan síma eða skilríki, hún gæti verið í losti,“ skrifar Guðbjörg Gunnlaugsdóttir, móðir Telmu Líf Ingadóttur, sem er týnd á Spáni. Ekkert sést til hennar síðan klukkan hálf sex í gærmorgun. Samkvæmt foreldrum Telmu gekk hún út af Villjosa- sjúkrahúsinu í Alicante í gærmorgun en skildi þar allar eigur sínar eftir, þar á meðal skilríki og síma.
Óttast foreldrar Telmu að hún sé hætt komin og hafa þegar gert spænsku lögreglunni viðvart. Fjölskyldan er búsett í Callosa de Ensarri á Spáni.
Guðbjörg Gunnlaugsdóttir er móðir Telmu og greindi frá þessu í færslu á Facebook í gær. Þá hefur faðir Telmu, Ingi Karl Sigríðarson beðið fólk að hafa samband við spænsku lögregluna sjái það stúlku sem líkist dóttur sinni. Telma er hávaxin, með blá augu og fjólublátt hár sem er snöggklippt í hliðum.
Færslu Guðbjargar á Facebook hefur verið deilt víða, meðal annars í hóp sem ber nafnið Íslendingar á Spáni.
„Hún Telma Líf er týnd. Sást sídast Ganga út af Villajosa spítala á Spáni kl 5:30 um morguninn 26. Okt. Hún er líklega klædd í svartan skokk, svört lág leðurstígvél og bleikan leðurjakka. Hún er 170 cm á hæð, ca 65-70 kg með blá augu og fjólublátt/plómulitað hár rakað á hliðunum. Deilid sem vídast!! Lögreglan er med mynd og er ad leita!“