Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Þá riðu skúrkar um héruð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

HM í knattspyrnu hefur getið af sér ógrynni hetja í gegnum tíðina. Skúrkar eru þó einnig mikilvægir til að halda jafnvægi í þessari risavöxnu íþróttaveislu og gildir þá einu hvort leikmenn skapi sér óvinsældir með ofbeldisverkum, svindli, leikaraskap eða einfaldlega með því að bregðast liðsfélögum sínum þegar mest ríður á. Mannlíf rifjaði upp nokkra fræga skúrka í sögu HM.

1. Óvinsælli en Hitler

Þýski markmaðurinn Harald Schumacher, Vestur-Þýskalandi, framdi fólskulegasta brot HM-sögunnar þegar Þjóðverjar og Frakkar léku í undanúrslitum á HM á Spáni 1982. Þegar franski varnarmaðurinn Battiston elti glæsilega sendingu hetjunnar Michels Platini inn fyrir þýsku vörnina tók Schumacher á rás út úr marki sínu í átt að þeim franska, sem varð fyrri til að ná til boltans og skaut naumlega fram hjá. Markverðinum virtist hins vegar vera hjartanlega sama um boltann og stökk beint á Battiston, sem fékk mjöðmina og lærið á Schumacher í höfuðið af ógnarafli og féll meðvitundarlaus til jarðar.

Platini sagðist síðar hafa haldið að Battiston væri dáinn því hann fann engan púls þegar liðsfélagar og sjúkralið stumraði yfir honum hrímhvítum í framan. Á meðan rölti Schumacher í hægðum sínum um vítateiginn, sýndi fórnarlambi sínu engan áhuga og virtist óþreyjufullur að taka útsparkið og hefja leik að nýju, því dómari leiksins dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu fyrir brotið augljósa og hvað þá verðskuldað rautt spjald á Schumacher. Knattspyrnukarma virðist ekki hafa virkað sérlega vel þennan ákveðna dag því leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir framlengingu og í vítakeppninni, þeirri fyrstu í sögu HM, varði Schumacher tvær vítaspyrnur.

Að leik loknum, þegar Schumacher var tjáð af fréttamönnum að Battiston hefði misst tvær tennur í árásinni, brákað þrjú rifbein og skemmt hryggjarlið, grínaðist markvörðurinn með að hann skyldi með glöðu geði borga fyrir tannaðgerð fyrir varnarmanninn úr því hann væri ekki meira slasaður en svo. Allt hleypti þetta skiljanlega illu blóði í þorra knattspyrnuáhugafólks og sér í lagi Frakka. Málið vakti svo mikla athygli að þjóðarleiðtogar landanna tveggja, þeir Helmut Kohl og François Mitterand, ræddu það á blaðamannafundi til að freista þess að lægja öldurnar. Í skoðanakönnun fransks dagblaðs skömmu síðar var Schumacher kosinn óvinsælasti maður Frakklands með talsverðum yfirburðum. Adolf Hitler, landi markvarðarins, varð í öðru sæti í þessari sömu könnun.

Battiston náði sér að fullu um síðir en þetta ógeðfellda atvik litaði þó feril beggja leikmanna upp frá því og það er kannski það sorglegasta við það, því báðir voru þeir frábærir knattspyrnumenn. Þá er einnig leiðinlegt að leiksins sjálfs sé fyrst og fremst minnst fyrir fólskulegt brot en ekki þá stórkostlegu knattspyrnu og gríðarlegu spennu sem fram fór á sjálfum vellinum.

2. Mannætan snýr aftur

Luis Suárez, Uruguay, hefur tekið þátt í tveimur heimsmeistarakeppnum til þessa. Á lokamínútu framlengingar í 8-liða úrslitum HM 2010 í Suður-Afríku varði hann skot Ghana-mannsins Asamoah Gyan viljandi með hendi á marklínunni og kom þannig í veg fyrir þann sögulega atburð að afrískt landslið kæmist í fyrsta sinn í undanúrslit HM. Þetta upptæki Uruguay-mannsins vakti takmarkaða lukku og enn síður gríðarlegur fögnuður hans á hliðarlínunni þegar Uruguay vann vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið.

- Auglýsing -

Einhverjir hafa reynt að halda uppi vörnum fyrir Suárez og bent á að vitanlega sé gáfulegra að stöðva bolta með hendi en að horfa á eftir honum í netið á síðustu mínútunni en sú skoðun hefur einhverra hluta vegna orðið undir í umræðunni enda Suárez langt frá því að vera ástsælasti leikmaður heimsfótboltans. Í lokaleik riðilsins á HM í Brasilíu 2014 tók Suárez svo upp á því að bíta Giorgio Chiellini, varnarmann Ítala, í öxlina eftir barning í teignum og greip svo klaufalega um tennurnar til að láta líta út fyrir að hann hefði óvart dottið á hann. Suárez tókst að blekkja dómarann en ekki sjónvarpsmyndavélarnar og var í kjölfarið dæmdur í langt bann, enda var þetta í þriðja sinn sem hann smjattaði á líkama andstæðings í miðjum leik.

Hverju skyldi Luis Suárez taka upp á í Rússlandi í sumar?

3. Gallaður snillingur

Það má færa rök fyrir því að goðsögnin Diego Armando Maradona hafi leikið skúrkinn á einn eða annan hátt í öllum fjórum heimsmeistaramótunum sem hann tók þátt í, en sumum þó meira en öðrum. Í fyrstu keppninni á Spáni árið 1982 varð nýstirnið pirrað á sífelldum spörkum andstæðinga sinna og lét að endingu reka sig út af fyrir hefndarbrot í lokaleik Argentínumanna, þar sem liðið féll úr leik gegn Brasilíu. Í Mexíkó árið 1986 spilaði hann eins og engill og tryggði þjóð sinni heimsmeistaratitilinn nánast einn síns liðs, en tókst þó að slá fölva á fegurðina með því að skora mark með hendi gegn Englendingum í 8-liða úrslitum. „Markið var skorað með örlitlu af höfði Maradona og örlitlu af hendi guðs,“ sagði Maradona og viðhélt þeirri söguskoðun langt fram á næstu öld.

- Auglýsing -

Hann þótti langt frá sínu besta á Ítalíu árið 1990 og klúðraði meðal annars víti í 8-liða úrslitum en Argentínumenn komust þó alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir biðu lægri hlut gegn Vestur-Þjóðverjum. Í síðasta mótinu sínu í Bandaríkjunum árið 1994 féll Maradona svo á lyfjaprófi og var sendur heim með skít og skömm eftir aðeins tvo leiki og argentínska liðið beið þess ekki bætur.

4. Skelkur í bringu

Sjaldan eða aldrei hefur leikmanni tekist að skaða orðspor sitt eins harkalega og Zinedine Zidane (Frakklandi) í úrslitaleik HM 2006 í Þýskalandi gegn Ítölum. Þetta var síðasti leikur goðsins á ferlinum og allt stefndi í sannkallaðan ævintýraendi fram á síðustu mínútu framlengingar, þegar Zidane brást skyndilega ókvæða við móðgunaryrðum varnarmannsins Marcos Materazzi um systur hins fyrrnefnda og keyrði stífbónaðan skallann af miklu afli í bringu hans. Ítalinn datt niður sem dauður væri, Zidane fékk rautt spjald og Ítalir unnu vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið. Þessi frábæri leikmaður hefði getað lokið ferlinum með því að lyfta stærsta bikarnum af þeim öllum en er þess í stað frekar minnst vegna einhvers sem hann gerði með höfðinu en fótunum.

5. Hætta ber leik þá hæst hann stendur

Rivaldo Vítor Borba Ferreira, frá Brasilíu, ​var talsvert betri fótboltamaður en leikari. Það kom bersýnilega í ljós undir lok leik Brasilíu og Tyrklands í riðlakeppninni á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002, þegar hann bjó sig undir að taka hornspyrnu og Tyrkinn Hakan Ünsal sparkaði til hans boltanum, nokkuð fast en ekki svo fast að nokkrum fullfrískum manni í feiknaformi yrði meint af að fá hann í sig. Rivaldo fékk boltann í lærið en greip umsvifalaust um andlitið, henti sér niður og rúllaði sér um völlinn með kómískan angistarsvip á andlitinu. Dómarinn lét blekkjast á einhvern ótrúlegan hátt og rak Ünsal af velli, en Rivaldo hefur æ síðan verið minnst sem svindlara.

Fleiri tilkallaðir:

Patrice Evra.

Patrice Evra, Frakklandi
Fyrirliðinn leiddi uppreisn leikmanna gegn þjálfara franska landsliðsins á HM í Suður-Afríku árið 2010 sem gerði alla viðkomandi að fíflum.

Antonio Rattín, Argentínu
Fyrirliði Argentínumanna lét reka sig út af fyrir kjaftbrúk í leik gegn gestgjöfum Englendinga á HM 1966, neitaði að yfirgefa völlinn þar til í lengstu lög, stóð á rauða teppinu sem var einungis ætlað drottningunni og þurrkaði sér loks um hendurnar með breska fánanum á leiðinni út af.

Frank Rijkaard, Hollandi
Hrækti í hárið á þýska framherjanum Rudi Völler á HM á Ítalíu 1990 og aftur þegar hann var rekinn út af fyrir vikið. Var uppnefndur „Lamadýrið“ af þýskum fjölmiðlum.

Roy Keane.

Roy Keane, Írlandi
Var svo pirraður vegna slæmra æfingaaðstæðna írska landsliðsins á HM í Japan og Suður-Kóreu 2002 að hann gagnrýndi þjálfarann stanslaust þar til hann var rekinn úr hópnum og sendur heim áður en liðið hafði spilað sinn fyrsta leik.

Juan Camilo Zúñiga, Kólumbíu
Dúndraði með hnénu í bakið á hetju heimamanna, Neymar, í 8-liða úrslitum á HM í Brasilíu 2014 með þeim afleiðingum að gulldrengurinn lék ekki meira á mótinu. Í næsta leik biðu Neymar-lausir gestgjafarnir afhroð, 7-1, gegn verðandi heimsmeisturum Þjóðverja.

Kristjana.

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, nefnir Diego Simeone, Argentínu:

„Maðurinn sem gerði David Beckham að hataðasta manni Englands á HM í Frakklandi sumarið 1998. Beckham, sem var algjört átrúnaðargoð hjá mér (já, ég fékk mér tölvupóstfangið [email protected]) fékk rautt spjald í leiknum gegn Argentínu í 16-liða úrslitum þegar hann sparkaði, lauflétt, aftan í Simeone. Þeim argentínska tókst að ýkja viðbrögðin svo mikið og láta þar með reka helstu vonarstjörnu Englendinga af velli. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og þar tapaði England fyrir Argentínu.“

Örn Úlfar.

Örn Úlfar Sævarsson, hugmyndasmiður á ENNEMM, nefnir Roberto Baggio, Ítalíu:

„Árið 1994 byrjaði ég aftur að hafa áhuga fótbolta og HM í Bandaríkjunum var eiginlega fyrsta mótið sem ég fylgdist með af athygli. Roberto Baggio var allt í öllu fyrir Ítalíu og kom þeim í úrslitaleikinn en fyrir kaldhæðni örlaganna er hans einkum minnst fyrir vítaspyrnuklúðrið sem færði Brasilíumönnum titilinn. Og fyrir glæpsamlega hárgreiðslu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -