Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

„Það er ekki prívat og persónulegt þegar gengið er í skrokk á manneskju“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það hafði mikil áhrif á mig að vinna þar og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þeim hryllingi sem sum börn og konur búa við varðandi líkamlegt og andlegt heimilisofbeldi. Við þurfum öll að taka höndum saman og vinna gegn þessu. Og við megum aldrei líta undan. Við verðum að sjá og við verðum að hlusta. Það er ekki prívat og persónulegt þegar gengið er í skrokk á manneskju og fólki ber alltaf að sinna svona málefnum. Ég tók eftir að sumar mæður héldu að börn þeirra hefðu ekki orðið vör við neitt en blessuð börnin vita alltaf af ofbeldinu. Það fer aldrei fram hjá þeim og þau bera þess mörg merki,“ segir Guðrún Ágústsdóttir, einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, um vinnu sína sem fræðslu- og kynningarfulltrúi hjá Kvennaathvarfinu á árunum 1991-1994.

Guðrún var í Helgarviðtali Mannlífs.

Barðist fyrir réttlæti

Guðrún er mikil baráttukona, en hún segir markmið Rauðsokkahreyfingunnar, sem stofnuð var árið 1970, hafa verið að breyta samfélaginu.

„Það var svo mikið óréttlæti og svo er náttúrlega ennþá. Helstu baráttumál okkar voru meðal annars að íslenskar konur gætu ráðið yfir líkama sínum sjálfar, sem sé frjálsar fóstureyðingar.

Þetta var mikil barátta en þær konur  sem vildu binda enda á meðgönguna og sem höfðu efni á því fóru til útlanda í fóstureyðingu.

Hinar þurftu að leita til lækna hér á landi en þá var fóstureyðing ólögleg og fengu þær þá ekki þann aðbúnað og aðstoð sem þær þurftu. Svo eignuðust sumar börnin og gáfu þau kannski. Við börðumst líka fyrir því að vel yrði hugsað um öll börn samfélagsins, að börn ættu að fá að fara á dagheimili, sem kallast leikskóli í dag, en þá var í besta falli bara boðið upp á leikskólapláss í hálfan dag. Við börðumst einnig fyrir því að konur gætu menntað sig sem var ekki sjálfsagt. Það voru í raun og veru ekki allir skólar á landinu opnir konum þótt þeir ættu að vera það samkvæmt lögum. Svo var náttúrlega gífurlegur launamismunur milli karla og kvenna og í rauninni fáar konur í fullri vinnu og fáar konur sem höfðu til dæmis lokið háskólaprófi. Svo vorum við konur ekkert í sögubókunum. Saga okkar var óskráð. Það var í rauninni eins og við værum ekki til. Það breytti lífi mínu að fara út í þessa baráttu með þessum öflugu konum og reyndar nokkrum körlum. Þetta var besti skóli ævi minnar.“

- Auglýsing -

Kjarnakona

Guðrún á að baki langan feril sem borgarfulltrúi og síðar forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, hún var sendiherrafrú um árabil í Svíþjóð og síðar Kaupmannahöfn og á síðustu árum hefur hún meðal annars unnið sem ráðgjafi hjá Landssambandi eldri borgara þar sem hún flutti meðal annars fyrirlestra um einmanaleika. Guðrún missti eiginmann sinn, Svavar Gestsson, fyrr á þessu ári og skrifaði eftir fráfall hans bækling: „Við andlát maka. Ætlaðan eldra fólki aðallega.“

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -