Mánudagur 18. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Það er enginn sem grípur mann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiginmaður Önnu Ingólfsdóttur, Árni Margeirsson, lést af völdum krabbameins þrjátíu og níu ára gamall. Anna segir tímabært að tala upphátt um stöðu ungs fólks sem missir maka og sérstaklega stöðu barna sem missa foreldri.

„Það eru rúm tuttugu ár síðan maðurinn minn féll frá,“ segir Anna. „Hann hafði kennt sér meins um þremur árum áður og greindist þá með glútenóþol en veikist svo hastarlega og þá kom í ljós að hann var með æxli í smágirni. Það ferli tók nokkra mánuði. Þetta voru erfiðir tímar, við ung hjón með fullt af skuldbindingum og þrjár ungar dætur sem voru fjögurra, sex og tólf ára gamlar.“

Erfiðast að skilja börnin sín eftir
„Á þessum tíma bjuggum við á Egilsstöðum en ættingjarnir í Reykjavík. Árni leitaði lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, þannig að fjölskyldan var oft á þremur stöðum meðan á þessu stóð, yngri stelpurnar hjá ættingjum í Reykjavík, elsta dóttirin hjá vinafólki á Egilsstöðum en ég mikið með honum á Akureyri.

Þegar makinn deyr deyja líka framtíðardraumarnir en skuldbindingarnar standa eftir.

Árni lést svo á Landsspítalanum. Það er afskaplega erfitt að horfa í augun á barninu sínu og segja því að pabbi sé að deyja. Oft geta börn orðið mjög hrædd um að hitt foreldrið deyi líka. Og börn tala hreint út, spyrja beint: „Mamma, munt þú deyja líka?“ Og hvernig getur „dauðhrætt“ foreldri lofað barni að það deyi ekki sjálft? Þetta er mjög viðkvæmt og flókið og oft þurfa foreldrar mikinn stuðning, bæði fyrir sig og börnin. Á ákveðnum tímapunkti var ljóst að hverju stefndi. Árni var sjálfur opinskár með það og virtist á ákveðinn hátt geta horfst í augu við eigin dauða af æðruleysi. Það sem var erfiðast fyrir hann var að skilja okkur allar eftir og geta ekkert að gert.

Þegar makinn deyr deyja líka framtíðardraumarnir en skuldbindingarnar standa eftir. Maður situr með það allt í fanginu og alla þessa yfirþyrmandi sorg. Maður syrgir makann og saknar óendanlega og maður syrgir líka framtíðina sem hefði getað orðið. Svo verður sorgin líka mikil yfir börnunum sem hafa misst foreldri sitt. Manni finnst það svo ósanngjarnt. Þar kemur ekkert í staðinn.“

Anna Ingólfsdóttir myndi vilja sjá málaflokk frá ríkinu sem er helgaður stuðningi við ungt fólk sem missir maka og börn þeirra. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Erfiðustu stundirnar voru sólin og jólin
Anna segir að fjölskyldan hafi flutt þremur árum síðar frá Egilsstöðum í Garðabæinn. Henni þótti of mikið álag fyrir börnin að að flytja strax frá Egilsstöðum þar sem var gott samfélag sem hélt utan um þau. „Það er svo margt sem er erfitt fyrst á eftir. Til dæmis það að alls staðar úti í lífinu erum við minnt á að það vantar pabbann í fjölskylduna. Svo smám saman færist lífið í einhverjar skorður. Erfiðustu stundirnar voru sólin og jólin, þegar allir voru að fara í sumarfrí og jólin þegar fjölskyldan var saman. Það getur verið flókið og erfitt að standa allt í einu einn með börn og þurfa að vera bíll og bílstjóri í öllu. Ég finn mikið til með ungu fólki í dag sem á ekki húsnæði og missir maka. Ég hefði orðið gjaldþrota ef ég hefði þurft að leigja húsnæði á sams konar leiguverði og því sem er í gangi í dag. Ég var heppin, fékk hjálp við að velja íbúð sem ég gat keypt.“

„Erfiðustu stundirnar voru sólin og jólin, þegar allir voru að fara í sumarfrí og jólin þegar fjölskyldan var saman.“

Anna bendir á að hlutskiptið að vera einstætt foreldri hefur aldrei verið hátt skrifað í samfélaginu hér eða hvar sem er í heiminum og því breyti það miklu að vera skyndilega í þeim sporum. „Samfélög eru paramiðuð og fólk sem er ekki hluti af pari veit alveg hvað ég er að tala um.“

- Auglýsing -

Fyrir nokkrum árum birti Anna sögu sína um makamissinn í bókinni Makalaust líf sem hún skrifaði með Guðfinnu Eydal sálfræðingi sem þá var nýbúin að missa eiginmann sinn til áratuga. „Við könnuðumst hvor við aðra. Ég sýndi henni söguna mína og við ákváðum að skrifa bók sem sameinaði reynslu og sálfræði. Við létum svo þýða bókina með breytingum og hún kom svo út hjá Amazon á ensku. Nú erum við, tíu árum síðar, að fara yfir texta og stefnum á að endurgera íslensku bókina með ýmsum breytingum og viðbótum. Nú nálgumst við málefnið á annan hátt, af meiri fjarlægð og yfirsýn. Bókin fékk ágætis athygli á sínum tíma en það er bara þannig að fáir vilja raunverulega tala um dauðann. Fólk vill helst ekki vita af dauðanum. Þessi umræða er viðkvæm og þrúgandi þrátt fyrir að allir viti að dauðinn er óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Við hlaupum svolítið undan þessari umræðu.“

Áfallið fer ekkert frá þótt tíminn líði
Anna segir þurfa fleiri úrræði fyrir börn sem missa foreldri. Talið er að allt að 50 börn missi foreldri sitt á hverju ári á Íslandi. „Það dúkka upp fréttir af því með reglulegu millibili, kannski á fimm ára fresti. En ekkert svo meir. Það eru engin sérstök úrræði til fyrir þessi börn. Væri ekki eðlilegt að foreldrar sem missa maka og börnin þeirra fái fría sálfræðiþjónustu í þrjú ár eða um þriggja ára skeið sem þau geta tekið þegar á þarf að halda, vegna þess að áfallið fer ekkert frá þótt tíminn líði. Það gæti breytt miklu fyrir marga.

„Ég tel að foreldrar séu verðmætasta fólkið á jörðinni. Greiðasti stuðningur við börn er í gegnum foreldra. Þess vegna þarf að hlúa að foreldrum og veita þeim stuðning.“

Bara sú vitneskja að vita að það er til stuðningur þarna úti af hálfu samfélagsins gæti haft góð áhrif. Foreldrar þurfa oft mikinn stuðning. Ég tel að foreldrar séu verðmætasta fólkið á jörðinni. Greiðasti stuðningur við börn er í gegnum foreldra. Þess vegna þarf að hlúa að foreldrum og veita þeim stuðning. Þeir sem missa maka og eru með börn í uppeldi eru berskjaldaðir. Fólk er oft í svo miklum sárum og sorg að það getur ekki staðið í því að leita og berjast. Það stendur oft aleitt og það er enginn sem grípur.

- Auglýsing -

Ég mundi vilja sjá málaflokk frá ríkinu sem er helgaður stuðningi við ungt fólk sem missir maka og börn þeirra. Íslenskt samfélag getur gert betur. Við þurfum stefnu í þessum málum sem greiðir fyrir aðgangi þessara foreldra og barna þeirra að stuðningi. Við eigum fullt af góðu fólki og fagaðilum sem geta gert mikið ef fjármagn og meðvituð stefna er til staðar. Er þetta ekki bara áskorun til þeirra sem völdin hafa?“

Sjá: „Eina svarið sem ég fékk ekki var: Hvar er mamma núna?“

Sjá líka: „ Þetta er ólæknandi sjúkdómur og ég vill að mínir nánustu geti rætt þetta“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -