Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Það er líf eftir Hrúta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Héraðið, ný íslensk kvikmynd Gríms Hákonarsonar verður frumsýnd næsta miðvikudag í bíóhúsum um allt land. Mannlífi náði tali af leikstjóranum sem viðurkennir að það sé pressa að fylgja eftir hinni margrómuðu mynd Hrútum. Auk þess hafi hann farið langt út fyrir þægindarammann við gerð þessarar nýjustu myndar sinnar sem er hans stærsta verkefni til þessa.

„Ég verð nú að játa að þótt maður hafi gert þetta oftar en einu sinni og alveg verið stressaðri en núna, þá fær maður samt alltaf smáfiðring í magann fyrir frumsýningu. Sérstaklega þegar maður er að fara að frumsýna á Íslandi. Það er bara öðruvísi tilfinning sem fylgir því að sýna myndirnar sínum nánustu en einhverjum blaðamönnum og gagnrýnendum úti í heimi. Álit vina og vandamanna og bara Íslendinga yfirhöfuð vegur einhvern veginn þyngra,“ segir Grímur, þegar hann er spurður að því hvort frumsýningarskjálftinn sé eitthvað farinn að gera vart við sig.

Hann bætir við að það sé auðvitað líka ákveðin pressa að fylgja eftir kvikmynd eins og Hrútum, enda hafi hún notið velgengni þegar hún kom út árið 2015, bæði hlotið góða dóma og rakað til sín verðlaunum um allan heim. Eðlilega séu ákveðnar væntingar í gangi og hann sé meðvitaður um það. „Já já, fólk á klárlega eftir að bera Héraðið saman við Hrúta þrátt fyrir að þessar tvær myndir eigi nú eiginlega fátt sameiginlegt fyrir utan það að þær skuli báðar gerast í sveit og bera mín höfundareinkenni. Hrútar var til dæmis fjölskyldusaga með flókið bræðrasamband í forgrunni, á meðan Héraðið snýst um Ingu, miðaldra kúabónda sem gerir uppreisn gegn kaupfélagi og er því hrein og bein samfélagsádeila. Þetta eru bara mjög ólíkar myndir.“

„Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir.“

Fékk innblástur við lestur Heiðu fjalldalabónda

Héraðið segir Grímur enn fremur vera hetjusögu konu sem rís upp gegn karllægu samfélagi en innblásturinn að persónunni hafi meðal annars verið fengin úr Heiðu – fjalldalabónda, sögu Steinunnar Sigurðardóttur um Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur sem valdi að gerast sauðfjárbóndi í stað þess að verða fyrirsæta í New York. „Sú bók sýnir nefnilega svo vel þær breytingar sem hafa orðið á ímynd íslenskra bænda undanfarin ár. Þegar talað var um bændur hér áður fyrr sá maður strax fyrir sér karla en það hefur breyst eftir að konur fóru að ganga í öll störf í sveitinni og halda úti búum. Þar eru karlleg viðhorf og íhaldssöm gildi því ekki lengur allsráðandi. Eiginlega má segja að viss kvennabylting hafi átt sér stað. Mér fannst áhugavert að skoða það þegar ég skrifaði handritið að myndinni.“

Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.

Alls ekki barnanna bestur

Grímur segir þó fleira hafa ráðið valinu á viðfangsefni. Aukin umræða um rýrt hlutskipti kvenpersóna í íslenskum kvikmyndum hafi til dæmis haft áhrif. „Ég skal alveg vera fyrstur manna til að viðurkenna að mínar eigin myndir hafa verið frekar karllægar hingað til. Ég er því langt frá því að vera barnanna bestur. Ástæðan er bara sú að það er auðveldara að skrifa um það sem maður þekkir. Ég hugsa að það sé til dæmis ein helsta ástæðan fyrir því að við sjáum svona fáar kvikmyndir um konur á Íslandi. Bransinn hérna er bara svo karllægur. Mikill meirihluti félagsmanna í Samtökum kvikmyndaleikstjóra eru karlar og þeir skrifa frekar út frá eigin reynsluheimi, því sem þeir þekkja vel. Það segir sig einfaldlega sjálft að það er auðveldara.“

- Auglýsing -

Áskorun að gera mynd um konu

Hann segir að sjálfum hafi sér fundist það vera áskorun að bregða út af vananum og gera mynd út frá sjónarhóli konu. Hann hafi þurft að fara ansi langt út fyrir þægindarammann. „Maður verður náttúrlega hræddur um að gera þetta eitthvað vitlaust og útkoman verði eintóm klisja. En sem betur fer held ég að við sem komum að myndinni getum verið sátt við hvernig til tókst með persónuna og hennar sögu, þótt ég segi sjálfur frá. Þær konur sem hafa séð hana eru að minnsta kosti nokkuð ánægðar,“ segir hann og þakkar það ekki síst leikkonunni Arndísi Hrönn Egilsdóttur sem fer með hlutverk bóndans Ingu í myndinni. „Já, það er óhætt að segja að Arndís hafi búið sig gríðarlega vel undir hlutverkið. Dvaldi meðal annars á sveitabæjum í tvær vikur til að læra réttu handtökin svo hún liti ekki út fyrir að vera „leikkona að moka flór“, eins og hún orðaði það sjálf. Hún lagði sig alla fram um að gera persónu Ingu sem trúverðugasta og á hrós skilið.“

Arndís Hrönn Egilsdóttir, sem hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu og Föngum og í kvikmyndinni Þröstum, leikur Ingu í myndinni. Sigurður Sigurjónsson fer einnig með stórt hlutverk, en hann lék einmitt í síðustu mynd Gríms, Hrútum.

Vissi ekki hvort hann myndi gera aðra leikna mynd

- Auglýsing -

Héraðið er stærsta og dýrasta verkefni Gríms til þessa, helmingi dýrari í framleiðslu en Hrútar sem hann segist hafa gert á sínum tíma fyrir lítinn pening, nánast eingöngu fyrir styrk frá Kvikmyndasjóði. Í þetta sinn hafi fengist meira fjármagn, líka erlendis frá sem varð til þess að meiri tími gafst til að gera myndina og það hafi eðlilega kostað sitt. „Já, það er gaman að segja frá því að velgengni Hrúta hjálpaði til við að fá peningana sem er frábært þar sem ég vissi hreinlega ekki hvort ég myndi gera fleiri leiknar myndir. Fyrstu leiknu myndinni minni, Sumarlandinu, var nefnilega ekkert allt of vel tekið og ég vissi að Hrútum þyrfti því að ganga vel svo ég fengi fjármagn til að gera þá næstu. Gott gengi Hrúta breytti því miklu fyrir mig sem kvikmyndagerðarmann og í raun alla sem komu að þeirri mynd. Án hennar hefði Héraðið hugsanlega aldrei orðið að veruleika.“

Þegar seld til yfir 30 landa
Ljóst er að heilmikil eftirvænting er fyrir Héraðinu því myndin hefur þegar verið seld til yfir 30 landa og kemur til með að verða sýnd í kvikmyndahúsum víðsvegar um Evrópu með haustinu. Að mati Gríms segir það ýmislegt um myndina að fyrirtæki um alla Evrópu skuli vilja kaupa hana. „Já, það sýnir einfaldlega að fólk hefur trú á henni,“ segir hann. „Hins vegar á alveg eftir að koma í ljós hvernig áhorfendur og gagnrýnendur taka henni. Það er ekkert sjálfgefið að þeir muni fíla hana þótt fyrirtækin geri það. Og þótt mynd fá til dæmis góða umfjöllun hér heima er ekki þar með sagt að hún fái góða dóma erlendis og öfugt. Hrútum var vel tekið bæði hér heima og erlendis, sem er nokkuð sjaldgæft. Það er í raun alltaf ákveðin óvissa og spenna í kringum myndirnar manns. Maður verður eiginlega bara að krossa fingur og vona það besta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -