Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Það er rússnesk rúlletta að taka inn þessi hormón“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vinsældir svokallaðra vaxtarhormóna (HGH, human growth hormone) hafa aukist jafnt og þétt á Íslandi en efnið hefur verið vinsælt um árabil í Hollywood á meðal fræga fólksins sem notar það til að viðhalda æskuljóma sínum. Sérfræðingar vara við alvarlegum afleiðingum ef vaxtarhormón eru notuð án eftirlits.

 

Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands (Anti-Doping Iceland), staðfestir í samtali við Mannlíf að notkun vaxtarhormóna hafi aukist hér á landi en tekur fram að misnotkun þess sé ekki jafnmikil og á anabólískum sterum. „Maður heyrir að það séu margir að koma með vaxtahormón til landsins; fólk segist vera með 30 daga skammt, sem er leyfilegur skammtur, uppáskrifaðan af læknum úti og að hormónin séu til einkaneyslu. Við nánari athugun er hins vegar að koma í ljós að skammtarnir eru sumir hverjir stærri, sem stangast á við lög,“ segir Birgir.

Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands (Anti-Doping Iceland).

„Ekkert mál að panta þetta á Netinu“

Að sögn Birgis má meðal annars rekja vinsældir vaxtarhormóna til útlitsdýrkunar í samfélaginu og segir hann að notendur séu fyrst og fremst ungt fólk sem vill líta betur út. „Byrjunaraldurinn færist alltaf neðar og neðar. Það er auðvitað viss samfélagslegur þrýstingur á ungt fólk að líta út á ákveðinn hátt, útlitsdýrkunin sem er í gangi í samfélaginu virðist hafa einna mest áhrif á það og ýta undir neyslu ólöglegra frammistöðubætandi efna (performance enhancing drugs) og lyfjamisnotkun, þar á meðal vaxtarhormóna, en það er vel þekkt að fólk tekur vaxtarhormón til að bæta útlitið.“

„Við erum eyja en það er ekkert mál að panta þetta á Netinu og fá sendingu næsta dag.“

Þá segist Birgir vita til þess að fólk sé í auknum mæli að flytja vaxtarhormón ólöglega til landsins, líklega frá Evrópu og að framboðið sé sífellt að aukast. „Við erum eyja en það er ekkert mál að panta þetta á Netinu og fá sendingu næsta dag,“ segir hann og bætir við að eftirlitslaus notkun á vaxtarhormónum geti valdið ýmsum alvarlegum aukaverkunum sem geta komið fram löngu síðar. Í því samhengi má nefna að mögulegar aukaverkanir eru m.a. vöxtur innri líffæra og uppsafnaður vefjavökvi sem getur leitt til hjartabilunar. Þá getur langtímanotkun leitt til aukinnar hættu á krabbameini, sérstaklega í meltingarveginum. Það er rússnesk rúlletta að taka inn þessi hormón.“

Notað sem yngingarlyf

- Auglýsing -

„Fólk er að taka hormónin til að bæta útlitið, til að vera flott og meira fit. Það er að nota þau sem yngingarlyf. Svo er fólk í íþróttum líka að taka þessi hormón, fólk sem er nota þau til flýta fyrir bata eftir meiðsli, til að flýta fyrir endurnýjun frumna.“ Þetta segir viðmælandi Mannlífs sem þekkir til notkunar vaxtarhormóna meðal fólks á miðjum aldri en vill ekki koma fram undir nafni. Viðkomandi segir að fólk geymi efnið í ísskápnum hjá sér og sprauti sig með því daglega og fullyrði að það sjái árangur af notkun þess. „Fólk talar um að notkun þessara hormóna sé að skila árangri, að notkun þeirra hægi til dæmis á öldrun, húðin sé betri fyrir vikið, minnið sé betra og þar fram eftir götum,“ segir hann og bætir við að fólk sé almennt meðvitað um hugsanlegar aukaverkanir en það sé engin hindrun. „Fólk er meðvitað um hættuna en lætur það ekki stoppa sig.“

Keypt á svörtum markaði

Heimildir Mannlífs herma að 30 daga skammtur kosti á bilinu 100–200 þúsund krónur. Það er í samræmi við þær tölur sem hafa áður verið nefndar í fjölmiðlum á Íslandi. Í viðtali við Guðmund Ómarsson á Vísi árið 2015 lýsir Guðmundur til dæmis því hvernig hann keypti vaxtarhormón á svörtum markaði eftir að hafa veikst af myglusveppi. Guðmundur greiddi 150 þúsund fyrir mánaðarskammt og sagði það vera hverrar krónu virði því hann hafi náð talsverðum bata eftir notkun efnisins. Hann reyndi að fá vaxtarhormón uppáskrifuð hjá lækni en án árangurs.

- Auglýsing -

Vegna þess að náttúruleg HGH-gildi líkamans lækka með aldrinum hafa sumir svokallaðir öldrunarsérfræðingar fullyrt að HGH-vörur geti snúið við aldurstengdri líkamlegri hnignun en tekið skal fram að slíkar fullyrðingar eru ósannaðar. Notkun HGH í þeim tilgangi að hægja á öldrun er enda ekki samþykkt af Bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA).

Fullyrðingar um undraefni sem „hægja á öldrun“ varasamar

Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur skrifar á doktor.is að skortur á vaxtarhormónum (HGH) valdi því að börn vaxi ekki eðlilega og að hjá fullorðnum geti lyfið haft jákvæð áhrif á líkamsvöxt ef um skort á hormóninu er að ræða. Óvíst sé hins vegar hvort það hafi afgerandi jákvæð áhrif á heilbrigða einstaklinga. Vaxtarhormón er lyfseðilskylt lyf og mega eingöngu sérfræðingar í efnaskipta- og innkirtlasjúkdómum eða barnaefnaskiptasjúkdómum ávísa því.

Vaxtarhormón er mjög viðkvæmt í lausn og brotnar hratt niður. Það er því alltaf afgreitt sem þurrefni og vökvanum blandað í skömmu fyrir notkun og verður að gefa lyfið inn sem stungulyf þar sem það brotnar niður í meltingarfærum.

„Vörur sem auglýstar eru á erlendum heimasíðum á Netinu og kallað Human Growth Hormone inniheldur mjög líklega ekki neitt eiginlegt vaxtarhormón. Þar fyrir utan held ég að allir ættu að taka varlega fullyrðingum um undraefni sem „hægja á öldrun, minnka hrukkur o.s.frv.“ Undantekningarlítið er þar um að ræða loforð sem ekki er hægt að standa við,“ skrifar Finnbogi.

Þess má geta að notkun vaxtarhormóna í miklu magni getur leitt til aukins hárvaxtar, meiri svitamyndunar og feitari húðar. Beinvöxtur getur aukist og tannlos getur átt sér stað. Eyru, hendur og fætur geta stækkað með tímanum samhliða notkun. Vöxtur innri líffæra og uppsafnaður vefjavökvi getur leitt til hjartabilunar. Langtímanotkun getur einnig leitt til aukinnar hættu á krabbameini, þá einkum í meltingarvegi.

Ýmsar sögusagnir eru á kreiki um að þekkt fólk í skemmanabransanum noti vaxtarhormón til að viðhalda æskuljóma sínum. Sylvester Stallone hefur til að mynda gengist við því að nota slík hormón.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -