Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Það er svo mikil seigla í Íslendingum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er svo mikilvægt þegar maður er minntur á hverfulleika efnahagslífsins að muna hvað við eigum. Þá sér maður þessa seiglu í samfélaginu, samheldnina og fólkið sem stendur í ströngu, til dæmis í heilbrigðisþjónustunni, hjá almannavörnum, í skólunum og verslunum þar sem starfsmenn standa í framlínunni og þurfa að takast á við það að mæta fólki allan daginn. Fólk í atvinnulífinu horfir fram á mjög erfiðar aðstæður en ætlar sér að komast í gegnum þetta. Ég segi stundum að eftir svona vetur eins og þessi vetur hefur verið þá sé ekki tilviljun að við búum hérna. Það er svo mikil seigla í Íslendingum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Í viðtali við Mannlíf ræðir hún hinn skæða Covid-19 faraldur sem herjar á þjóðina, stjórnmálin og einkalífið.

Katrín segir að skammtímamarkmiðið sé að Íslendingar komi standandi út úr skaflinum. „Síðan er langtímamarkmiðið að byggja hér upp efnahagslífið aftur og þá skiptir máli að við byggjum betur upp okkar nýsköpunarumhverfi og rannsóknar- og þróunarumhverfi. Það skiptir síðan máli að byggja ferðaþjónustuna upp aftur.“
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Við erum að berjast við heilbrigðisvá en sóttvarnaraðgerðirnar sem ætlað er að hægja á útbreiðslu veirunnar gera það að verkum að það er að hægja á efnahagslífinu þannig að fólk hefur í raun tvöfaldar áhyggjur,“ segir Katrín. „Um leið er margt í þessari stöðu sem fyllir mann bæði stolti og bjartsýni. Það er í fyrsta lagi það fagfólk sem við eigum innan bæði heilbrigðisþjónustunnar og almannavarna sem hefur miðlað upplýsingum um stöðuna til landsmanna daglega undanfarnar vikur. Sömuleiðis hefur mér fundist merkilegt að skynja samstöðu almennings í landinu. Við sjáum líka fyrirtæki, til dæmis Íslenska erfðagreiningu og Alvogen, leggja sitt af mörkum í baráttunni og það finnst mér mjög jákvætt. Ég hef verið á hinu pólitíska sviði frá síðasta hruni og við stöndum nú miklu betur til að takast á við efnahagsþrengingar heldur en við gerðum þá. Við eigum öflugan gjaldeyrisvaraforða, við erum með lægstu vexti í lýðveldissögunni og við erum miklu minna skuldsett en þá, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki, þannig að það er margt sem leggst með okkur í þessari baráttu þó að þetta verði auðvitað erfitt.“

Þetta mun ganga yfir

Óvissan er mikil vegna Covid-19 og Katrín segir að verið sé að tala um verulegan samdrátt í hagkerfinu og mikið atvinnuleysi og það mun taka tíma bæði að ná því niður og byggja upp efnahagslífið. Bankarnir séu með töluvert svigrúm til að styðja við viðskiptavini sína í gegnum þetta þótt það muni taka tíma.
„Þetta eru í raun og veru aðstæður sem við þekkjum ekki í lýðveldissögunni þar sem við erum annars vegar með heimsfaraldur og hins vegar þessi miklu efnahagslegu áhrif. Þetta mun ganga yfir, þetta verður tímabundið og allar okkar aðgerðir miða að því hvernig við getum brúað gjána þannig að við höldum samfélaginu gangandi.

Það er tekjufall hjá mörgum fyrirtækjum og þá er stóra markmiðið okkar að koma bæði fólki og fyrirtækjum í gegnum þennan skafl þannig að við tryggjum afkomu fólks og að fyrirtæki hafi tækifæri til þess að komast í gegnum þetta ósködduð. Það mun taka tíma að vinna úr þessu.“

„Við skynjum að þetta er utanaðkomandi vá. Þess vegna hef ég líkt þessu við stríðsástand og það gerir það að verkum að maður finnur þessa miklu samheldni í samfélaginu.“

Katrín segist hafa mestar áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaðnum og vaxandi atvinnuleysi. Aðgerðapakki var samþykktur samhljóða í lok mars sem felst m.a. í hlutabótum sem snúast fyrst og fremst um að tryggja afkomu fólks. „Við skiptum þessu upp í varnir, vernd og viðspyrnu.

- Auglýsing -

Brúarlán til atvinnulífsins og frestun á ýmsum greiðslum eru varnaraðgerðir. Brúarlán eru í takt við það sem önnur Norðurlönd gera þar sem við veitum ákveðna ábyrgð að hluta til á lánum til fyrirtækja þannig að ríkið tekur þátt í að styðja við fyrirtækin í gegnum þennan skafl. Svo er það frestun skattgreiðslna. Við tryggjum laun til þeirra sem eru skikkaðir í sóttkví. Við boðum barnabótaauka sem verður greiddur út í júní og er bæði skattfrjáls og veldur ekki skerðingum. Þá verður faraldurinn vonandi í rénun og fólk í færum til að nýta sér þá greiðslu. Þá er heimiluð úttekt séreignarsparnaðar sem er auðvitað gamalkunnugt úrræði en getur gagnast mörgum.

Síðan er það viðspyrnan sjálf. Þar veitum við ákveðnar ívilnanir á virðisaukaskatti gagnvart tiltekinni vinnu, til dæmis í byggingariðnaði. Við styðjum við ferðaþjónustuna og ætlum í markaðsátak með henni bæði innanlands og erlendis og að lokum er það fjárfestingarátak þar sem við ætlum að auka enn frekar við fjárfestingar ríkisins.“

Stjórnarflokkarnir hafa hrósað þinginu fyrir samstöðu í þessu máli og segir Katrín að sér finnist allir hafa verið að greiða fyrir málum. „Það sýnir að fólk tekur þessa stöðu alvarlega alveg óháð því hvar það stendur í flokki.“

- Auglýsing -

Ábendingar hafa hins vegar borist stéttarfélaginu Eflingu um að starfsfólk fyrirtækja sem hefur verið sett á hlutabætur sé enn látið vinna fullt starf. „Auðvitað hlýtur eitthvað slíkt að koma upp,“ segir hún um það, „en við erum að hugsa um hagsmuni heildarinnar og viljum hafa úrræðið opið til að tryggja afkomu sem flestra.“

Katrín segir að skammtímamarkmiðið sé að Íslendingar komi standandi út úr skaflinum. „Síðan er langtímamarkmiðið að byggja hér upp efnahagslífið aftur og þá skiptir máli að við byggjum betur upp okkar nýsköpunarumhverfi og rannsóknar- og þróunarumhverfi. Það skiptir síðan máli að byggja ferðaþjónustuna upp aftur. Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður sökum okkar einstöku náttúru. Við munum núna fjárfesta innan ferðamannastaða og innan þjóðgarða og friðlýstra svæða til að nýta þetta sumar til að vinna okkur í haginn með það.“

Katrín Jakobsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Á sama báti

Fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Covid-19 smit hafi komið upp í skóla eins af þremur sonum Katrínar, þurfti hann að fara í sóttkví og flutti ásamt föður sínum út af heimilinu þar til fyrirskipaðri sóttkví lauk, tveimur vikum eftir að drengurinn hafði verið útsettur fyrir smiti. „Ég var í vinnunni og maðurinn minn hafði strax samband við mig eftir að rakningateymið hafði haft samband,“ segir Katrín, þegar hún er spurð út í þetta. „Við brugðumst hratt við og gerðum eins og okkur var sagt. Auðvitað var bara tímaspursmál að eitthvað svona gæti gerst þar sem faraldurinn hefur færst nær okkur öllum á undanförnum vikum. Ég var heima með hina tvo syni okkar. Ég upplifði nú engan ótta vegna þessa en auðvitað kemur þetta róti á hversdagslífið. Við erum frekar náin og maður saknaði þeirra þótt við töluðum saman daglega á Skype. En við vorum heppin, sóttkvínni er lokið og allir eru frískir.“

Katrín segist sjálf þekkja fólk sem hefur veikst af Covid-19 og viti að það er ekkert grín. „Ég, eins og allir aðrir landsmenn, finn hvaða áhrif það hefur á mann þegar það hægist svona á samfélaginu í kringum mann. Það eru allir í sömu stöðu og við hittum miklu færri en áður. Við erum öll ofboðslega mikið úti í göngutúrum til að fá tilbreytingu frá því að vera svona mikið heima við. Þessar aðstæður hafa auðvitað áhrif á hvernig okkum öllum líður og ég held að við skynjum öll bæði samheldni en líka alvarleika í stöðunni.

„Ég var í vinnunni og maðurinn minn hafði strax samband við mig eftir að rakningateymið hafði haft samband … Auðvitað var bara tímaspursmál að eitthvað svona gæti gerst.“

Í svona aðstæðum erum við öll á sama báti. Við skynjum að þetta er utanaðkomandi vá. Þess vegna hef ég líkt þessu við stríðsástand og það gerir það að verkum að maður finnur þessa miklu samheldni í samfélaginu. Og það finnst mér vera hið jákvæða í þessu öllu saman. Mér finnst aðdáunarvert að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna fylgir reglum og gerir hlutina eins vel og fólk getur.“

Standa sig feykilega vel

Heilbrigðisráðherra fer með daglega stjórnun mála tengdum Covid-19 faraldrinum, en Katrín segist hitta reglulega landlækni, sóttvarnalækni og Víði yfirlögregluþjón til að fara yfir stöðuna þegar ástæða er til. „Svo ræðum við þetta mjög reglulega á vettvangi ríkisstjórnar og það er eiginlega fátt annað sem við höfum haft tíma til að ræða; stöðuna í heilbrigðiskerfinu vegna Covid, skólahald á tímum Covid og efnahagsleg áhrif Covid.“

Hún segir að sér eins og yfirgnæfandi meirihluta landsmanna finnist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hafa staðið sig feykilega vel í flóknum kringumstæðum. Þó hafa sumir gagnrýnt hvernig tekið er á málum hér á landi og finnst þær aðgerðir ekki vera nægar. „Mér finnst þau hafa verið í senn fagleg og heiðarleg. Þau byggja sinn málflutning á faglegri þekkingu en eru líka heiðarleg með það að þessi staða geti breyst hratt og það er alltaf mikil óvissa fyrir hendi. Það finnst mér til fyrirmyndar. Við höfum tekið þá afstöðu að treysta fagfólkinu í svona kringumstæðum. Við höfum átt gott samstarf við þau og allar okkar aðgerðir í heilbrigðismálum hafa verið undir þeirra leiðsögn. Þær hafa sömuleiðis verið í takt við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem við fylgjumst auðvitað grannt með. Við höfum lagt okkur fram um að gera það sem við teljum skynsamlegt út frá rökum sem byggjast á vísindum og þekkingu.“

Katrín segir að á Alþingi Íslendinga hafi myndast mikil samstaða um að þetta sé ekki rétti tíminn fyrir hefðbundin, pólitísk átök. „Það finnst mér vera gríðarlega mikilvægt fyrir íslensk stjórnmál.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún tekst á við jafn gríðarlega stórt verkefni. Hún var í ríkisstjórn þegar tekist var á við afleiðingar hrunsins 2008. „Þó að aðstæður séu ólíkar og margt öðruvísi þá er gott að búa að þeirri reynslu að hafa gengið í gegnum erfiða tíma og vita að þetta reynir rosalega á alla. Þetta reynir líka á samskipti fólks og það reynir á að halda dampi í svona stöðu.

Einmitt í svona aðstæðum skiptir svo miklu máli að vinna með fólki sem maður treystir þótt það sé með aðrar skoðanir og í öðrum flokkum. Það skiptir máli að geta átt heiðarleg samskipti til að nálgast svona verkefni.“

Katrín Jakobsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Mikill lærdómur

Katrín segir að Íslendingar skynji það í svona kringumstæðum hvað þjóðin er seig. „Það er svo mikilvægt þegar maður er minntur á hverfulleika efnahagslífsins, að muna hvað við eigum. Þá sér maður þessa seiglu í samfélaginu, samheldnina og fólkið sem stendur í ströngu, til dæmis í heilbrigðisþjónustunni, hjá almannavörnum, í skólunum og verslunum þar sem starfsmenn standa í framlínunni og þurfa að takast á við það að mæta fólki allan daginn. Fólk í atvinnulífinu horfir fram á mjög erfiðar aðstæður en ætlar sér að komast í gegnum þetta. Ég segi stundum að eftir svona vetur eins og þessi vetur hefur verið þá sé ekki tilviljun að við búum hérna. Það er svo mikil seigla í Íslendingum.“

Katrín segir að heimsbyggðin öll hljóti að draga lærdóm af þessum atburðum og nýjar spurningar hljóti að vakna í alþjóðasamstarfi eftir hina hröðu atburðarás undanfarinna vikna. „Ég held að þetta muni vekja spurningar um það hvernig ákvarðanir eru teknar, til dæmis um lokun landamæra, sem og hvernig við erum í stakk búin þegar kemur að því að mæta svona heilbrigðisvá í alþjóðavæddum heimi þar sem hlutirnir ferðast á ógnarhraða á milli landa. Ég held að heimurinn verði enn þá meðvitaðri en ella um mikilvægi þess að það þurfi ekki bara að efla heilbrigðiskerfin heldur vísindi og rannsóknir á því sviði. Ég vona að þjóðir heims muni draga þann lærdóm að sterkt alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt til að mæta svona vá og svo held ég líka að þetta muni verða í sögulegu ljósi öðruvísi efnahagskreppa en við höfum áður séð af því að samdrátturinn í hagkerfinu er beinlínis að verða vegna ákvarðana sem við erum að taka til þess að bregðast við heilbrigðisvá.

Kannski verður þetta líka til þess að minna okkur á hvað skiptir okkur raunverulegu máli í lífinu og draga aðeins úr hraðanum í því samhengi. Það er alltaf eitthvað jákvætt í öllum aðstæðum.“

Þykir vera þrjósk

Katrín nefndi að það væri nauðsynlegt að treysta þeim sem vinna með manni. Hún viðurkennir að burtséð frá þessu stóra verkefni geti verið erfitt að halda saman þremur ólíkum öflum í ríkisstjórn en að samstarf við ráðherra í öðrum flokkum sé gott. „Þetta er bæði verkefni og lærdómur. Lærdómurinn felst auðvitað í því að maður er að kynnast fólki með ólíkan bakgrunn, ólíkan reynsluheim og ólíkt gildismat í sumum málum. Síðan felst líka lærdómur í því að átta sig á að í sumum málum erum við meira sammála en mann hefði grunað. Mér hefur fundist samvinnan ganga vel, betur en ég hefði átt von á fyrir fram. Og í svona aðstæðum skiptir svo miklu máli að vinna með fólki sem maður treystir jafnvel þótt skoðanir séu ólíkar á einstökum þáttum. Það gerir allt auðveldara ef byggt er á trausti. “

Katrín segir að núningur á milli ólíkra afla sé leystur með samtali. „Það er eina leiðin til þess að leysa mál. Ég veit að ég þyki stundum vera mjög þrjósk þegar kemur að því að halda fundi og láta fólk sitja við og leysa mál; stundum jafnvel um of og það hefur verið kvartað undan því. En það verður ekkert leyst öðruvísi. Maður fær auðvitað ekki allt fram sem maður vill í ríkisstjórnarsamstarfi. Maður þarf alltaf að eiga samtal og miðla málum og það getur verið snúnara þegar flokkar eru ólíkir. Ég held að það sé aldrei auðvelt að vera í ríkisstjórn.“

VG er á móti veru Íslands í NATO en Katrín hefur farið á leiðtogafund NATO sem hún hafði aldrei séð fyrir sér. „VG er í algerri sérstöðu í íslenskum stjórnmálum að vera einn flokka á móti aðildinni. Þegar við fórum í þetta ríkisstjórnarsamstarf þá var samþykkt að fylgja þjóðaröryggisstefnu þeirri sem Alþingi hefur samþykkt. Þar er aðild að NATO einn af grunnþáttunum. Þetta er svolítið fjarri því sem ég sá fyrir mér þegar ég byrjaði í pólitík.“

Má ekki missa húmorinn

Katrín er spurð hvort hún skilji þá gagnrýni sumra að hún hafi færst inn á miðjuna eða fært VG inn á miðjuna. „Ég heyri þá gagnrýni og ég heyri alls konar gagnrýni. Auðvitað var þetta ríkisstjórnarsamstarf umdeild ákvörðun alveg frá byrjun en yfirgnæfandi meirihluti minna félaga samþykkti að fara í þessa ríkisstjórn. Fólkið mitt í hreyfingunni hefur bæði verið gagnrýnið en líka staðið þétt við bakið á manni þannig að ég hef í senn fengið bæði gagnrýni og mikinn stuðning sem er lýsandi fyrir mína hreyfingu. Þar liggur fólk ekki á sínum skoðunum og lætur mann alveg heyra það ef því finnst maður vera að fara eitthvað af leið. Ég met það svo að við höfum náð miklum árangri varðandi okkar félagslegu markmið og okkar grænu markmið í þessari ríkisstjórn. Og við erum auðvitað í pólitík til að ná árangri með málefnin.“

Hún segist ekki vera hrædd við að fara ótroðnar slóðir í pólitík. „Í pólitík hef ég lært að gera það sem maginn segir mér að gera.“

Forsætisráðherrann er spurð um fyrirmyndir í pólitík og nefnir hún nokkrar konur. Þær eru Kolbrún Halldórsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Svava Jakobsdóttir og Katrín Thoroddsen sem hún er nefnd eftir.

Katrín er ung og hefur verið lengi í pólitík og í fremstu víglínu í áraraðir. Hún er spurð hvort hún verði aldrei þreytt á að vera í þeirri stöðu. „Allir verða þreyttir. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á vinnumarkaðnum sem bréfberi sagði mamma að öll störf gætu verið skemmtileg og þau gætu líka öll verið leiðinleg. Það veltur ansi mikið á viðhorfinu. Ég hef það viðhorf að ég reyni að sjá gleðina á hverjum degi. Stundum er það erfiðara en ella þegar mikið gengur á og það er mikill mótbyr. Stundum er það auðveldara. En maður má ekki missa húmorinn. Það er eiginlega númer eitt, tvö og þrjú. Ef ég missi húmorinn þá hætti ég í pólitík og sný mér að einhverju öðru.“

„Ég vil hafa fallegt í kringum mig og ég er góð húsmóðir þegar ég hef tíma til en það er ansi oft sem það er ekki, skal ég segja þér, þannig að það er oft hræðilegt í kringum mig.“

Duran Duran og Barnaby

Katrín er með BA-próf í íslensku og frönsku sem aukagrein og meistarapróf í íslenskum bókmenntum. Hún vann m.a. við dagskrárgerð, ritstörf og kennslu áður en hún fór út í pólitík af fullum þunga. Hún segir að ef hún hætti í stjórnmálum þá sé fullt af verkefnum sem hana langi til að sinna. „Mér finnst ég eiga eftir að skrifa bók,“ segir forsætisráðherrann sem hefur sérstakt dálæti á glæpasögum og vill skrifa eina slíka. Þessa dagana er hún hins vegar að lesa meistaraverkið Ástin á tímum kólerunnar í anda veirufaraldursins sem nú gengur yfir.

Katrín býr í fjögurra herbergja íbúð í Vesturbænum ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Sigvaldasyni, sem stundar nú doktorsnám í stjórnmálafræði, og sonunum þremur, Jakobi, Illuga og Ármanni Áka. „Við búum í 100 fermetrum og okkur líður bara vel. Hamingjan er ekki mæld í fermetrum. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og ég er góð húsmóðir þegar ég hef tíma til en það er ansi oft sem það er ekki, skal ég segja þér, þannig að það er oft hræðilegt í kringum mig; mikið af óhreinum þvotti og uppvaski. Það er gott að lifa einföldu lífi og ég hef fylgt því leiðarljósi að flækja ekki lífið að óþörfu.“

„Mér finnst allir hafa verið að greiða fyrir málum sýnir að fólk tekur þessa stöðu alvarlega alveg óháð því hvar það stendur í flokki,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hvað með áhugamálin? „Ég geri ekki neitt. Ég er svo leiðinleg týpa,“ segir hún og hlær. „Ég hef gaman af útivist. Ég er ekki að grínast. Ég fer út að hlaupa en samt ekki á veturna af því að ég er ekki afreksmanneskja. Mér finnst líka gaman að ganga í náttúrunni. Ég les ótrúlega mikið. Svo finnst mér gaman að vera til. Ég þarf rosa lítið til þess að hafa gaman af lífinu. Ég hef svo gaman af fólki. Það gefur mér mest að vera með fólki.“

Hvað með tónlistarsmekkinn?„Ef ég ætti ekki mann þá væri ég örugglega ennþá að hlusta á Duran Duran. Það er mjög vandræðalegt. Ég fylgist ekki beint með. Hann sér líka um að ég horfi á nýja sjónvarpsþætti en ef ég byggi ein myndi ég eingöngu horfa á Barnaby.“

Það er stutt í gleðina og húmorinn hjá forsætisráðherranum sem segist alltaf hafa jafn gaman að ensku gamanþáttunum Já, ráðherra „þar sem ráðherrann er algjörlega úti á þekju,“ segir Katrín og hlær. „Það er gaman að svona pólitísku gríni og þetta minnir mig stundum á lífið í ráðuneyti þegar ég sé þessa þætti. Ég hef frá því ég byrjaði í stjórnmálum stundum verið skömmuð fyrir að brosa of mikið. Ég tók skeið þar sem ég velti því fyrir mér hvernig ég kæmist hjá því að brosa svona mikið af því að ég heyrði oft að ég væri alltaf hlæjandi eins og fífl. Svo hugsaði ég með mér að ef þetta snerist um að afþakka lífsgleðina þá myndi ég bara sleppa þessu. Annaðhvort tækju stjórnmálin mér eins og ég er og ég fengi að halda lífsgleðinni þótt það þyki stundum ekki viðeigandi. Og það hefur gengið ágætlega. Það er ómetanlegt að sjá hið góða og skemmtilega í hlutunum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -