Leikkonan Sarah Paulson kynntist leikkonunni Holland Taylor í kvöldverðarboði fyrir áratug síðan eða svo. Sarah er fædd árið 1974 en Holland árið 1943 og því er 31 árs aldursmunur þeirra á milli. En ástin spyr ekki um aldur, og þó þær tvær hefðu ekki byrjað saman þegar þær kynntust fyrst, felldu þær hugi saman fyrir nokkrum árum og eru óaðskiljanlegar.
Sarah lýsir sínum fyrstu kynnum af Holland í viðtali við Modern Luxury og segir að hún hafi „örugglega verið stórglæsilegasta kona sem ég hafði séð.“
En fólk finnur alltaf á einhverju til að smjatta og því hefur samband Söruh og Holland verið mikið á milli tannanna á fólki síðustu ár. Sarah segist ekki taka neitt mark á neikvæðisröddunum þar sem hún sé sátt í sínu sambandi.
„Ef einhver vill eyða tíma í að hugsa að ég sé skrýtin vegna þess að ég elska stórkostlegustu manneskju á jörðinni þá er það þeirra vandamál,“ segir Sarah og bætir við: „Ég hef það mjög gott.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikkonan tjáir sig um ástarsamband sitt við Holland. Hún sagði við InStyle fyrr á þessu ári að hún væri ekki alveg búin að venjast því að einkalíf sitt væri svo opinbert.
„Þegar maður er í sambandi sem gerir mann hamingjusaman vill maður segja öllum frá því. Hins vegar, er það eitthvað sem fólk gerir sér mat úr. Það er ekki í uppáhaldi hjá mér. En ég vil ekki eyða lífinu í að hoppa úr skugga í skugga.“