Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erla Bolladóttir segir að enn sé margt órannsakað í þagnarhjúpi kerfisins í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið og að stjórnvöld, allt til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherrra, sýni sakborningum sömu lítilsvirðingu og þau hafi alltaf mátt þola. Samt er ekki að finna að Erla sé bitur eða reið kona þegar blaðamaður hittir hana að máli. Þvert á móti er hún einkar yfirveguð og viðkunnanleg manneskja sem hefur barist lengi af einurð og yfirvegun fyrir réttlæti til handa sér og sínum í stærsta glæpamáli síðari tíma á Íslandi.

 

Eins og kunnugt er var Erla dæmd fyrir meinsæri í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu en ekki morð eins og hinir. „Og sú sök er látin standa,“ segir hún og vísar þar til sýknudóms Hæstaréttar í kjölfar endurupptöku í málinu síðastliðið haust, „óháð því hvernig orð mín voru fengin fram á sínum tíma. Að lifa með þessum dómi hefur reynst þungbært og að sökin skuli standa enn í dag er áfall út af fyrir sig.

Eins útskýringin sem ég fékk á því þegar Björn Bergsson, formaður endurupptökunefndar, var fyrir tilviljun sessunautur minn í flugi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Hann úskýrði að það væri ekki inni í myndinni að sýkna mig af meinsæri þar sem glæpurinn „lægi fyrir“. Að þeir væru með skýrslu sem ég hefði skrifað undir og í því væri glæpur minn fólginn. Alveg óháð því hvernig því var náð fram.

Ég gat nú ekki annað en innt hann eftir því hvort það angraði ekkert rökhugsun þeirra að samþykkja endurupptöku á morðunum þar sem sýkna var ljós en samþykkja að við hefðum engu að síður verið að taka saman ráð okkar um eitthvað sem aldrei gerðist.“

Hún bendir á að þetta mál hafi svipt sexmenningana svo miklu meiru en þeim tíma sem þau sátu í einangrun og fangelsi. „Þetta tók frá okkur öllum og í raun börnunum okkar líka, allt það líf sem hefði getað orðið. Ég fékk ekki lífið mitt, heldur lífið HENNAR – konunnar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, útskúfuð og hötuð í áratugi.“

Gæsluvarðhald og lyfjanauðung

- Auglýsing -

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Guðmundar- og Geirfinnsmálin áttu sér stað og fram til þess að sýknudómurinn féll síðastliðið haust. Sem stendur er verið að sýna heimildaþættina Skandall, eftir þýska blaða- og kvikmyndargerðarmanninn Boris Quatram, þar sem áður órannsakaðir hlutar málsins eru teknir til skoðunar. Áherslan er á hvarf Geirfinns Einarssonar og hvert rannsóknin hefði eðlilega átt að leiða lögregluna í Keflavík á fyrstu dögum málsins og rætt við ýmsa málsaðila og sérfræðinga en þar kemur fjölmargt athyglisvert í ljós.

Erla Bolladóttir hefur barist lengi af einurð og yfirvegun fyrir réttlæti til handa sér og sínum í stærsta glæpamáli síðari tíma á Íslandi.

Erla bendir á að þættirnir sýni vel þá undarlegu afgreiðslu sem málið fékk hjá lögreglunni, fyrst í Keflavík en síðan einnig í Reykjavík. „Þeir virðast hafa haft eitthvert annað markmið en það að upplýsa hvarf Geirfinns og svo virðist sem, leynt og ljóst frá árinu 1972, að það hafi verið að koma höggi á Sigurbjörn Eiríksson sem átti Klúbbinn í Reykjavík en Hallvarður Einvarðsson hafði þá horn í síðu þeirra Klúbbsmanna. Ég þekki þá sögu ekki til fulls en Hallvarður var vararíkissaksóknari þegar við vorum í einangruninni og kom einkennilega mikið að rannsókninni sjálfri. Hann var viðstaddur yfirheyrslur en ég hitti hann í fyrsta sinn þegar ég var fengin til þess að játa að ég hefði myrt Geirfinn. Þeir vissu fullvel að ég gerði það ekki en þeir töldu sig þurfa játninguna frá mér til að að geta sett mig í gæsluvarðhald. Í kjöfarið hófu þeir að troða í mig risavöxnum lyfjaskammti fjórum sinnum á dag og hnoða saman einhvers konar atburðarás sem hentaði þeirra markmiði frá fyrsta degi.“

Ætluðu sér að negla manninn

- Auglýsing -

Hallvarður hafði stjórnað rannsókn á skemmtistaðnum Klúbbnum í Reykjavík, sem var í eigu fyrrnefnds Sigurbjörns og undir framkvæmdastjórn Magnúsar Leópoldssonar. Erla segir að Hallvarður hafi haldið því staðfastlega fram að það hafi verið stunduð sala á ólöglegu áfengi í Klúbbnum og látið loka staðnum við rannsókn málsins. Þegar ekkert fannst á Klúbbnum þrátt fyrir viðamikla leit var staðnum engu að síður enn haldið lokuðum. „Það barst svo beiðni frá eiganda Klúbbsins til dómsmálaráðuneytis um að lokunarúrskurður lögreglustjóra yrði ógiltur og það fram hjá Hallvarði. Það virðist hafa orðið til þess að Hallvarður þróaði með sér einhvers konar þráhyggju um Klúbbsmenn og ímyndaða undirheimastarfsemi þeirra.

Þegar Geirfinnur svo hvarf í nóvember 1974 fór fljótlega að bera á orðrómi sem barst frá rannsóknaraðilum um að Klúbbsmenn væru viðriðnir hvarf hans. Samt var ekkert sem tengdi þá við Geirfinn eða Keflavík. Lögreglan reyndi jafnframt mikið að blanda einhverjum spíramálum inn í rannsóknina. Það sem vekur hins vegar athygli er að ekkert spírasmygl var til rannsóknar á þessum tíma samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar í Keflavík sem birtist í fjölmiðlum 14. janúar 1975, tveimur mánuðum eftir hvarfið. Þar segir að rúmum þremur vikum eftir hvarfið hafi lögreglu verið það ljóst að engin tengsl voru á milli Geirfinns og spíramála. Þessu geta allir flett upp sem vilja.

Enn virðast menn þó leggja sig fram við að viðhalda slíkum tengslum í hugum fólks, nú síðast Haukur Guðmundsson, fyrrum lögreglumaður í Keflavík, í þáttunum Skandall. Hann virðist þar reyndar vera að reyna að koma sér undan spurningunni um hvers vegna lögreglan kannaði ekki mögulegan þátt elskhuga Guðnýjar Sigurðardóttur, eiginkonu Geirfinns, þar sem hann ber því við að rannsóknaraðilar hafi ekki haft tíma til að kanna fjarvistarsönnun svo grunsamlegs aðila vegna anna við spíramál. Þarna er um hrein ósannindi að ræða.“

Erla bendir á að hver sem kynnir sér málið geti séð að Haukur Guðmundsson sem vann að lögreglurannsókninni í Keflavík þurfi að svara ýmsum spurningum. Mynd / Hallur Karlsson

Erla er greinilega hugsi yfir því með hvaða hætti rannsóknin í Keflavík var unnin og bendir á að seinna hafi Haukur, lögreglumaður í Keflavík, hlotið dóm í máli Guðbjarts Pálssonar leigubílstjóra.

„Haukur fékk dóm fyrir að koma fyrir sönnunargögnum og handtaka Guðbjart á fölskum forsendum. Þetta eru óskyld mál en að mínu mati nákvæmlega sama aðferðafræði og Haukur notaði þegar hann lét Magnús Gíslason, teiknara hjá tæknideildinni í Keflavík, fá ljósmynd af Magnúsi Leópoldssyni, framkvæmdastjóra Klúbbsins, og sagði honum að teikna mynd af manninum á ljósmyndinni. Þá teikningu fer hann síðan með til Ríkeyjar Ingimundardóttur skúlptúrista og biður hana um að gera eftir henni leirstyttu. Styttuna notaði hann svo til þess að láta fólk benda á Magnús Leópoldsson og bendla hann þannig við málið. Þetta sýnir að þeir ætluðu sér að negla Klúbbmenn, hvað sem það kostaði.“

Nær fram dómþingi

Þrátt fyrir að sýknudómur hafi fallið í Hæstarétti síðastliðið haust og að öllum sé orðið ljóst það harðræði sem beitt var til þess að ná fram sekt á sínum tíma, hefur enginn sem stóð að rannsókn málsins þurft að svara fyrir þær gjörðir. Aðspurð um hvað Erlu finnist um það segir hún að það eitt og sér hljóti að vera rannsóknarefni.

„Allt í þessu er rannsóknarefni. Það fékk ég endanlega staðfest árið 2015 þegar endurupptökunefnd var enn með málið á sínu borði. Þá fékk ég umsögn Davíðs Þórs Björgvinssonar, setts ríkissaksóknara í málinu, um að ekki væri forsenda til endurupptöku á mínu máli. Þar sem ég var ekki í einangrun þegar ég skrifaði undir fyrstu skýrsluna í Geirfinnsmálinnu sem fól í sér meinsæri taldi nefndin ekki hægt að segja að ég hafi verið pyntuð á þeim tíma.

Davíð Þór hins vegar skildi eftir þann möguleika að nefndin gæti farið fram á nánari rök starfshópsins fyrir því að mínar játningar væru líka óáreiðanlegar. Endurupptökunefnd tók þetta til greina og boðaði dómþing sem haldið var í sakadómi Reykjavíkur til þess að yfirheyra starfshópinn sem vitni, þá einkum réttarsálfræðingana Gísla H. Guðjónsson og Jón Friðrik Sigurðsson sem eru sérfróðir um falskar játningar, um umræddar röksemdir.

Á þessum tímapunkti fékk ég mig fullsadda af því að enn væri krafist viðbóta við þau óteljandi málsskjöl sem sönnuðu sakleysi okkar og ólöglega meðferð rannsóknaraðila á málinu. Ég bar þessa aðila þungum sökum um að hafa vísvitandi pínt mig til að ljúga frá upphafi, en það heyrist aldrei píp þaðan. Fyrst við vorum komin með dómþing fór ég fram á og fékk samþykki endurupptökunefndar fyrir því að þessir þrír lykilrannsóknarmenn, Örn Höskuldsson sem stjórnaði rannsókninni, Sigurbjörn Víðir Eggertsson og Eggert Bjarnason, yrðu yfirheyrðir sem vitni og spurðir þriggja lykilspurninga:

Hvert var tilefni þess að þeir fóru að yfirheyra okkur um hvarf Guðmundar? Hvert var tilefni þess að þeir fóru að yfirheyra okkur um hvarf Geirfinns? Hver var aðkoma Hallvarðs Einvarðssonar að rannsókn málsins? Ég þóttist vita að þessir aðilar myndu bera við minnisleysi en vildi að þeir þyrftu þá að minnsta kosti að ljúga því sjálfir að öllum viðstöddum.“

Enn er logið

Erla segir að endurupptökunefnd hafi fallist á að kalla þessa þrjá menn fyrir sem vitni. „Þeir reyndu að koma sér undan en bar lagaleg skylda til þess að mæta, sem þeir þá gerðu og það var í fyrsta skipti sem spurningum var beint í þessa átt. Í fyrsta sinn sem ljósinu var að einhverju leyti varpað á einhvern í kerfinu í öllu þessu stóra máli. Þetta voru þeir sem stóðu að rannsókninni í Reykjavík en upphafsmenn rannsóknarinnar í Keflavík hafa aldrei verið spurðir út í eitt né neitt.

En þremenningarnir lugu augljóslega fyrir þessu dómþingi,“ segir hún og er greinilega talsvert niðri fyrir enda er hér verið að ræða um atburði og áhrifavalda í lífi hennar allt til dagsins í dag.

„Örn var fyrst yfirheyrður og kvaðst ekki muna tilefni þess að við vorum fyrst yfirheyrð. Ragnar Aðalsteinsson, minn lögmaður í þessu máli, vísaði til þess að þetta væri nú stærsta sakamál sem Örn hefði komið að en hann sagðist í svari sínu nú ekki vera viss um það. Ragnar ítrekaði samt spurninguna en Örn svaraði alltaf með skyndi: „Nei, ég man það ekki.“ Hann var augljóslega búinn að ákveða þetta svar og við það stóð hann.

Að endingu spurði Ragnar hver hefði stjórnað rannsókninni, tekið ákvarðanir um hver yrði yfirheyrður og ákveðið stefnu rannsóknarinnar. Örn svaraði því til að það hefði verið rannsóknarlögreglan og að hann hafi ekki haft neitt með stjórn rannsóknarinnar að gera, enda hefðu þarna verið mjög reyndir og færir rannsóknarmenn og vísar þar fyrst og fremst til tvíeykisins Sigurbjörns Víðis og Eggerts Bjarnasonar.

Sigurbjörn var næstur til vitnis og þegar hann er spurður sömu spurningar svarar hann afdráttarlaust að Örn sem rannsóknardómari hefði stjórnað rannsókninni, enda hafi hann sjálfur verið lítt reyndur sem rannsóknarlögreglumaður á þessum tíma. Þá fór kliður um salinn því Örn var nýbúinn að halda allt öðru fram og það er ekki hægt að misminna um atriði á borð við þetta. Það getur engan misminnt um að hafa leitt í tvö ár rannsókn á einu stærsta sakamáli þjóðarinnar.

„Allt þetta ósamræmi, allar þessar lygar og sú meðferð sem við máttum sæta. Allt liggur þetta enn órannsakað í þagnarhjúpi kerfisins.“

Það er með ólíkindum að ekki einn þessara aðila geti svarað með heiðarlegum hætti til um það hvers vegna farið var í þessa vegferð að yfirheyra okkur og það með þessum hætti sem raunin var. Aðeins á einum stað er að finna eitthvað um að „lögreglunni hafi borist til eyrna hugsanleg tengsl Sævars við hvarf Guðmundar“ eins og mig minnir að það sé orðað en það er allt og sumt. Allt þetta ósamræmi, allar þessar lygar og sú meðferð sem við máttum sæta. Allt liggur þetta enn órannsakað í þagnarhjúpi kerfisins.“

Rannsóknarleysa í Keflavík

Erla bendir einnig á að hver sem kynnir sér málið, til að mynda með því að horfa á þættina Skandall, geti séð að Haukur Guðmundsson sem vann að lögreglurannsókninni í Keflavík þurfi að svara ýmsum spurningum. „Hann þarf að svara því hvað vakti tengsl á milli hvarfs Geirfinns og spírasmygls sem var þá þegar upplýst mál. Í þáttunum talar hann um Geirfinn sem vammlausan mann og hvers vegna þá að bendla hann við spíramál? Að auki setur hann í þáttunum fram kenningu um það að Geirfinnur hafi látist af slysförum en útskýrir það ekkert nánar. Hann hlýtur að þurfa að útskýra þessa kenningu fyrir yfirvöldum ekki seinna en strax.

Einnig kemur fram ábending frá viðmælanda í þáttunum um að aðeins tveimur dögum eftir hvarf Geirfinns hafi Haukur verið á ferðinni að leita að líki. Ekki týndum manni, heldur líki. Það hlýtur að þarfnast skýringa. Og hvers vegna var sú rannsóknarstefna sem unnin er í þáttunum aldrei unnin af hálfu lögreglunnar?

Í því sem snýr að ónafngreindum elskhuga Guðnýjar, eiginkonu Geirfinns, gætir misræmis á milli framburðar hennar og Sjafnar Traustadóttur, bestu vinkonu hennar, um það hvar elskhuginn gisti um nóttina og þannig mætti áfram telja.“

„Einnig kemur fram ábending frá viðmælanda í þáttunum um að aðeins tveimur dögum eftir hvarf Geirfinns hafi Haukur verið á ferðinni að leita að líki. Ekki týndum manni, heldur líki.“

Erla segir vert að nefna að allt sem kemur fram um upphafsrannsókn á hvarfi Geirfinns í þessum þáttum er aðgengilegt á Netinu í gögnum málsins. „Það er ekkert þar sem er ekki hægt að fletta upp ef viðkomandi hefur hug á að berja eigin augum grunsamleg störf lögreglunnar í Keflavík þegar Geirfinnur hvarf. Þar kemur meðal annars fram nafn elskhuga Guðnýjar sem flutti fljótlega til Þýskalands eftir að hafa verið yfirheyrður aftur 1976. Ekki veit ég hvort hann eða aðrir sem eðlilegt hefði verið að rannsaka fyrst beri ábyrgð á hvarfi Geirfinns. Það sem málið snýst um er að sú rannsókn sem fram fór í Keflavík er augljóslega ekki í lagi.

Erla Bolladóttir segir að stjórnvöld, allt til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherrra, sýni sakborningum sömu lítilsvirðingu og þau hafi alltaf mátt þola.

Þar er vísvitandi hunsað allt sem gæti leitt til þess að Geirfinnur fyndist. Alveg sama hvar litið er á þessar skýrslur rannsóknarinnar í Keflavík þá má sjá á dagsetningum skýrslna og fjölda annarra þátta að ekki er allt með felldu varðandi hegðun rannsóknaraðila. Eitthvað voru þeir  að bralla og virðast jafnvel hafa verið viðbúnir áður en Geirfinnur hvarf.

Þegar Geirfinnur skilaði sér ekki um morguninn var það ekkert nýtt að hann væri á kennderí í bænum eins og t.d. á sunnudeginum tveimur kvöldum áður. Ef horft er til þess sem komið hefur fram um lífsstíl þeirra hjóna, Geirfinns og Guðnýjar, virtist þetta ekki vera neitt sem einhver þyrfti að missa sig yfir. Samt hringir Guðný ekki í félagana eða vinnuna og athugar hvort hann sé með þeim, heldur hringir Sjöfn vinkona hennar í lækni og segir að vinkona hennar sé í miklu uppnámi vegna þess að maðurinn hennar hafi ekki skilað sér heim um nóttina. Að hún sé viti sínu fjær af áhyggjum og biður lækninn um að skrifa upp á róandi fyrir hana sem hann gerir. Þetta kom fram löngu síðar en á þessum tímapunkti var ekki búið að tilkynna að hann væri horfinn. Ekki búið að hringja í einn eða neinn sem þekkti hann eða eitthvað slíkt. Var þarna einhver vitneskja um að Geirfinnur ætti ekki afturkvæmt? Það læðist að manni sá grunur og að formleg skýrsla sé ekki tekin af Guðnýju fyrr en níu dögum síðar inni á eigin heimili er auðvitað í meira lagi undarlegt.“

Nú er orðið þungt í Erlu við upprifjun málsins og hún er greinilega sérstaklega hugsi yfir rannsóknaraðilunum Valtý Sigurðssyni, Hallvarði Einvarðssyni, Kristjáni Péturssyni og Nirði Snæhólm en allir komu þeir með afdrifaríkum hætti að rannsókn málsins og fóru þar með mikla ábyrgð. „Mín upplifun af þessu máli er ekki síst sú að þessir fjórmenningar eru allir óhugnanlega dimmir, hef hitt alla þessa menn og ég skynjað þetta myrkur í þeim öllum. Og allir vissu þeir eitthvað sem við hin vitum ekki.“

„Alveg sama hvar litið er á þessar skýrslur rannsóknarinnar í Keflavík þá má sjá á dagsetningum skýrslna og fjölda annarra þátta að ekki er allt með felldu varðandi hegðun rannsóknaraðila.“

Forsendan fyrir meinsæri brostin

Allt er þetta aðeins brot af því sem þarf að rannsaka af fullri alvöru í þessu máli en Erla leggur áherslu á að hennar barátta hafi snúist um að réttlætinu verði fullnægt í máli sexmenninganna. „Mín barátta snýst um mál okkar sexmenninganna sem vorum höfð í einangrun og pyntuð til þess að játa eitthvað sem við gerðum aldrei og þannig svipt því lífi sem við hefðum átt að eiga. Ekkert okkar bíður þess nokkurn tíma bætur. Mín barátta hefur snúist um þetta og ég hef þurft á öllum mínum kröftum að halda í þeirri baráttu.

Hins vegar eru menn með ýmsar kenningar en ég tek ekki afstöðu til þeirra persónulega. Ég veit ekki hvað lá að baki starfsháttum lögregunnar í Keflavík á sínum tíma og svo í Reykjavík í framhaldinu. En miðað við hvernig komið var fram við okkur af hálfu yfirvalda í öll þessi ár og enn í dag þá á ég ekki von á miklu af hálfu hins opinbera. Að enn sé komið svona fram og að það sé búið að staðfesta sök mína, þvert á öll rök og skynsemi er enn eitt áfallið eftir öll þessi ár. Í raun erfiðara núna þar sem ég er að verða sextíu og fjögurra ára og framkoma stjórnvalda við mig í dag er til þess fallin að halda mér enn fanginni í málinu.

Ég hef fundið mig milli steins og sleggju í ákvarðanatöku um næsta skref en góðu heilli lærði ég síðastliðinn mánudag að mér er fært að krefjast aftur endurupptöku í ljósi nýrra gagna, þ.e. að dómur um meinsæri standist ekki þar sem allir þeir sem dæmdir voru fyrir morð á Geirfinni eru sýknaðir. Um leið er forsenda fyrir meinsæri augljóslega brostin.

Ég hef hins vegar persónulega enga trú á þeim einstaklingum í kerfinu sem eru í aðstöðu til að ákveða hvort ólöglegir starfshættir rannsóknaraðila verði rannsakaðir eður ei. Ég hef enga trú á dómsmálakerfinu og þeim sem í því starfa. Ég geri mér þess vegna engar vonir um að málið sjálft verði tekið til rannsóknar en það má ekki verða minn höfuðverkur. Þegar ég verð komin alla leið í minni baráttu verður hlutverki mínu lokið en annarra að komast að því hvað gerðist þarna í raun og veru.“

Sáttanefnd í bissness

Hæstiréttur kvað upp sinn sýknudóm þann 27. september síðastliðinn en um það segir Erla: „Það var eins snautlegt og verið gat. Það er Hæstarétti til fullkominnar skammar um ókomna  tíð að koma ekki með stakt orð um forsendur fyrir sýknunni af sinni hálfu.

Daginn eftir kom svo Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fram fyrir þjóðina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og bað alla sem sýknaðir voru og aðstandendur þeirra afsökunar, en auðvitað ekki mig. Þegar hún gerði þetta þá gerði hún nákvæmlega það sama og Hæstiréttur; hún hélt sína leið og henti okkur í ruslið. Síðan var stofnuð svokölluð sáttanefnd,“ segir Erla.

Hún kveðst vera langþreytt í sinni baráttu og hún segir að hún hafi ekki lengur orku í það að vera sífellt kurteis og tipla á tánum í kringum þetta fólk sem hafi sýnt henni alla þessa lítilsvirðingu. „Í fyrsta lagi þá er ég hneyksluð á því að þetta skuli vera kallað sáttanefnd eftir að hafa orðið vitni að störfum sáttanefndar í forsetatíð Nelsons Mandela í Suður-Afríku á tíunda áratug síðustu aldar, þar sem ég var búsett um fimm ára skeið.

Hér höfum við bara fulltrúa forsætisráðuneytisins og þá einkum Kristrúnu Heimisdóttur [sem var formaður sáttanefndar, innsk. skotablaðamanns] með ríkislögmann í bakgrunni að fara fyrir því að ræða við sakborninga um hvernig ríkið geti sloppið sem best frá þessu. Hún er fremur í bissness en að ræða neina raunverulega sátt. Á áttunda mánuði frá því að „nefndin“ tók til starfa kemur svo einhliða ákvörðun forsætisráðuneytisins um upphæð skaðabóta sem er lítið meira en 10% af þeim skaðabótum sem saklausum fjórmenningum í málinu voru greiddar á sínum tíma. Auk þess hefur komið í ljós að umrædd „sáttanefnd“ er ekki lengur starfandi. Þetta virðist allt komið í einhverja allsherjar vitleysu.“

Lítilsvirðandi framkoma

Það leynir sér ekki að Erla er ekki sátt við framkomu stjórnvalda enda er málinu hvergi nærri lokið. „Það sem mér finnst erfitt núna er að það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag, á meðan enginn lætur í sér heyra. Að auki liggur þarna inni krafa frá mér um skaðabætur vegna einangrunar minnar 1976 því hún var klárlega ólögleg, hvað sem öllu öðru líður. En það hefur enginn talað við mig. Það er bara eins og ég sé ekki til en það erindi fór samt formlega í janúar frá lögmanni mínum til „sáttanefndar“. Ég hef ekki verið virt viðlits.“

Eftir dómsúrskurðinn síðastliðið haust ákvað Erla að biðja um viðtal við Katrínu Jakobsdóttur til þess að ræða sitt mál. „Erindi mitt við Katrínu var meðal annars að reifa þann möguleika að ef ég kærði niðurstöðu endurupptökunefndar samþykkti hún að ríkislögmaður semdi við mig utan dóms með því að samþykkja ógildinguna; ég er jú með mjög sterkt mál í höndunum. Þetta kæmi í veg fyrir heilt ár í dómssölum með öllu því álagi og öllum þeim kostnaði sem því fylgir.

„Það væri betra ef ríkisstjórnin hefði sleppt því að biðjast fyrirgefningar því hugur virðist ekki hafa fylgt þar máli,“ segir Erla.

Einhverjum tíu dögum síðar fékk ég þau skilaboð að Katrín vildi að ég hitti fyrst Kristrúnu Heimisdóttur. Ég hafði ekkert við hana að tala, ekki komin með skaðabótakröfuna þá og sá enga ástæðu til þess að hitta hana. En Katrín var sögð leggja áherslu á þetta og að hún ætlaði síðan að hitta mig í framhaldinu svo ég fór til fundar við Kristrúnu ásamt fylgdarmanni, af fenginni reynslu.

Ég gat ekki borið upp erindi mitt við Kristrúnu og allra síst eftir að ég var búin að setjast niður með henni. Ég á erfitt með opinbert starfsfólk sem heldur fundi og tikkar í öll box en svo gerist ekkert,“ segir Erla og hefur greinilega fengið sig sadda af innantómu orðagjálfri kerfisins sem fór langt með að eyðileggja fyrir henni lífið.

Hún heldur áfram og segist hafa bent Kristrúnu á að erindi hennar væri við Katrínu. „Ég spurði því einfaldlega hvers vegna ég væri þarna að hitta hana og fékk það svar að það væri svo Katrín fengi betri innsýn í málið.

Í framhaldinu kom Kristrún svo t.d. með spurningu eins og „hvernig hefur þér liðið yfir þessu máli?“ Mér var illa misboðið, leið eins og leiða ætti mig út í kviksyndi. Hún fann það auk þess hjá sér að segja að ef mér liði einhvern tíma illa yfir þessu máli eða væri kvíðin þá væri mér velkomið að hringja í hana hvenær sem væri. Ekki veit ég í hvaða vídd svona fólk hrærist. Að tala við mig eins og ég hefði verið alein skríðandi um í myrkrinu í meira en fjörutíu ár þangað til hún birtist til þess að vera vinkona mín. Þetta fannst mér lítilsvirðandi framkoma við mína persónu og allt sem á undan var gengið.“

Þögn Katrínar meiðir meira

Erla segir að eftir þennan fund með Kristrúnu hafi ekkert gerst. Að lokum fékk hún fund með Katrínu þann 27. desember síðastliðinn.

„Ég hitti Katrínu og reifaði þau mál sem þurfti og það var fínt að tala við hana. Hún sagði reyndar í upphafi fundar að hún vildi að við hittumst aftur í lok janúar því þá ætlaði hún að geta útskýrt fyrir mér stöðuna. Seinna á þessum fundi ítrekaði hún að við hittumst aftur í lok janúar. Þann sjöunda febrúar sendi ég henni tölvupóst og sagðist vera orðin langeyg eftir fundinum til þess að geta ákveðið næstu skref. Ekkert svar. Í fyrrihluta mars sendi ég aftur póst og sagði að enn hefði ég ekkert heyrt. Var vissulega orðin sár og að reyna að skilja hverju sætti að mér væri ekki svarað. Enn hef ég ekkert heyrt.

„Ég er sár út í Katrínu. Ég fylltist von um að nú kæmi einhver niðurstaða sem mundi feykja skýjunum frá sólinni.“

Ef þú biður einhvern fyrirgefningar en heldur svo áfram að sparka í viðkomandi, er það þá marktæk fyrirgefningarbeiðni? Þetta tvöfalda siðferði að biðjast fyrirgefningar en halda svo öllum á stað sem heldur áfram að meiða og særa viðkomandi. Að halda þessu svona vofandi yfir þeim sem hafa mátt þola allt sem á undan er gengið er framkoma sama eðlis og við höfum alla tíð mátt þola af hálfu þessa kerfis.

Ég er sár út í Katrínu. Ég fylltist von um að nú kæmi einhver niðurstaða sem mundi feykja skýjunum frá sólinni. Ég hafði á tilfinningunni að þessi kona sem ég hafði haft mætur á væri einmitt manneskjan sem myndi ljúka langri og myrkri göngu okkar allra. Veruleikinn er hins vegar sá að þögn hennar meiðir mig meira en margt annað hefur gert. Það væri betra ef ríkisstjórnin hefði sleppt því að biðjast fyrirgefningar því hugur virðist ekki hafa fylgt þar máli.

Þessu máli er ekki lokið fyrr en ég, Sævar og Kristján höfum verið sýknuð af röngum sakargiftum. Enginn vilji virðist hins vegar hafa verið í réttarkerfinu á neinu stigi málsins til að takast á við þá ábyrgð sem á því hvílir í þessu hörmulega máli.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -