Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 og ræddi um flensuna sem er að herja á landann þessi misserin:
„Það sem við erum að merkja er að það eru fleiri greiningar á inflúensu núna á þessum árstíma heldur en í meðalári. Þetta er að koma eitthvað fyrr. Þá er ég ekki að tala um síðastliðin tvö ár, sem voru óvenjuleg, heldur árin þar á undan,“ sagði Guðrún og bætti við:
„Það er hugsanlegt að það hafi orðið breyting á þessu út af Kóvid, og það er áhugavert að sjá hvað gerist í vetur.“
Guðrún segist ekki sjá merki um Kóvid-bylgju eins og staðan er hér á landi núna:
„Enginn er á gjörgæslu og okkur var ekki kunnugt um sjúklinga á öðrum spítölum. Þetta er aðeins aukning; var komin niður í færri en fimm fyrir mánuði síðan. En þetta er ekki í þeim fjölda sem var hvað mest, ástandið er alveg þolanlegt og við fylgjumst vel með þessu; það er ekki nein merki um að við séum að fara í stóra bylgju eins og er.“