Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, varar við því að túlka samanburð við önnur Norðurlönd Íslandi í hag eins og gert hefur verið, en ný samnorræn fangelsisskýrsla kom nýlega út. Hér sé refsivörslukerfið allt öðruvísi, biðtími lengri eftir afplánun og dómar birtast til dæmis seinna en annars staðar á Norðurlöndum.

Hann segir nýtt fangelsi á Hólmsheiði síður en svo bæta þetta. „Persónulega held ég að þetta sé eitt mesta slys sem hefur orðið, þetta er illa hannað og undirmannað. Það er ekki hægt að reka þetta, það eru bara ekki til peningar fyrir því. Það er engin skólaaðstaða fyrir verknám, erfiðar vinnuaðstæður, þetta er ofboðslega stofnanalegt. Það er ekki einu sinni búið að semja um heilbrigðisþjónustu í þessu fangelsi, það er ekki búið að semja um menntamál á Hólmsheiði. Það vantar allt. Þetta er bara steypukassinn,“ segir Guðmundur Ingi og líkir deginum þar inni við að standa fyrir framan lyftu sem aldrei komi. „Þetta er í raun hræðilegt fangelsi þótt aðstaðan sé fín en hún skiptir minna máli en innihald fangavistarinnar. Verknám og starfsþjálfun er það sem skiptir mestu máli.“

Hann segir gott starfsfólk þarna sem reyni að bjarga hlutunum en það sé ekki nóg. „Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni, ég get alveg sagt það.“

„Að hafa eitthvað við að vera skiptir mestu máli, og vinna eða nám,“ segir Þráinn Farestveit sem hefur verið framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar undanfarin 18 ár. Á Hólmsheiði sé nánast ekkert í boði og það gangi illa að koma því í farsælan farveg að fá verkefni t.d. utan fangelsisins fyrir fanga og það komi ekkert annað í staðinn. „Það er í raun og veru ekkert að hafa,“ ítrekar hann.

Þráinn segir að hópurinn sem núna sé inni í fangelsunum sé mun erfiðari heldur hann var fyrir örfáum árum síðan. Fangahópurinn sé samsettur af mjög erfiðum einstaklingum og því hlutfallslega færri hæfir til að koma inn á áfangaheimilið Vernd en dvöl þar minnkar möguleikana á endurkomu.

Endurkomutíðni hjá kvenföngum hærri

- Auglýsing -

Staðan hjá konunum er verri en karlanna eða sambærileg verstu tilvikunum meðal þeirra. „Þær koma veikari inn í fyrsta skipti. Ég held að það sé verið að gera þeim einhvern greiða í dómskerfinu, þær fara seinna inn og hafa því lengri tíma að skemma sig,“ segir Guðmundur Ingi.

Endurkomutíðnin hjá konum er að sama skapi hærri. „Hún er það hjá okkur klárlega. Aðeins um 30 prósent kvenfanga standast kröfur um að koma til okkar sem er miklu lægri tala en meðal karlanna,“ segir Þráinn.

Þráinn bendir þó á að mjög erfitt sé að henda reiður á nákvæmum tölur um endurkomutíðni. Frestun afplánunar, fyrning dóma, rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta hefur áhrif á talningu og svo sé einnig óljóst hvaða áhrif erlendir fangar sem fara úr landi hafi á töluleg gögn. Þráinn segir stærsta vandann vera veikt fólk. „Það er svo margt veikt fólk inni í þessu kerfi sem þarf á mikilli aðstoð að halda og ég vil fullyrða að vel yfir 90 prósent af þeim sem eru í fangelsi eigi við mjög alvarlegan fíknivanda að stríða og menn eru farnir að þróa með sér ýmist geðræn vandamál samhliða því auk þess að allt of margir eru á lyfjum sem þeir fá innan fangelsisins.“

- Auglýsing -

Eftir Lindu Blöndal

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -