Guðrún Ögmundsdóttir hefur alla sína ævi barist fyrir réttindum minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín. Í sumar hlaut hún fálkaorðuna og á sunnudaginn verður hún sæmd heiðursmerki Samtakanna ’78 fyrir baráttu sína. Þótt hún glími nú við útbreitt krabbamein segist hún full þakklætis og stolt af því sem áunnist hefur.
Guðrún er á forsíðu nýjasta Mannlífs.
Afrekaskrá Guðrúnar er löng, miklu lengri en hér kemur fram, hvað er það sem hún er stoltust af að hafa gert í lífinu?
„Ég er náttúrlega alveg ótrúlega stolt af vinnunni í málefnum samkynhneigðra, málefnum kvenna og málefnum þeirra sem minna mega sín, eins og í tilfellinu með sanngirnisbæturnar,“ segir hún. „Þannig að ég get verið mjög stolt og ég held ég megi alveg vera það. Þetta þrennt stendur upp úr ásamt málefnum barna, ég hef alltaf verið með börn á heilanum. Ég var formaður Unicef og aðbúnaður barna og aðstæður hefur alltaf verið eitt af því sem mér finnst mestu máli skipta að berjast fyrir að séu góðar. Ég sá það mjög vel í vinnunni við sanngirnisbæturnar hvað það skiptir ótrúlega miklu máli fyrir framtíðina að búa vel að börnum.“
Margir hafa áhyggjur af því að nú séu blikur á lofti í pólitíkinni, við séum að fara afturábak en ekki áfram, en Guðrún hefur ekki miklar áhyggjur af því.
„Það gerist alltaf,“ segir hún ákveðin. „Það er viðtekið að fólk fer þrjú skref áfram og eitt afturábak. Aðalatriðið er að vera alltaf á vaktinni og það þarf að vera á vaktinni á mörgum plönum. Grasrótin er misvirk en um leið og eitthvað fer að bjáta á verður hún virk, það er lögmál. Ég hef ekki miklar áhyggjur af framtíðinni þegar ég horfi á allt þetta unga fólk í kringum okkur. Ég hef aldrei séð svona stóran hóp af ungu, flottu fólki, í hvaða geira sem er. Sjáðu til dæmis listageirann, sjáðu loftslagsmótmælin. Ég verð alveg ótrúlega bjartsýn á framtíðina þegar ég sé þetta fólk, ég bara játa það, og við eigum ekki að tala það niður. Við eigum einmitt að hafa trú á þessu unga fólki og vera stolt af því.“
„Ég hef ekki miklar áhyggjur af framtíðinni þegar ég horfi á allt þetta unga fólk í kringum okkur.“
Annað sem vekur Guðrúnu bjartsýni um framtíðina er #metoo-byltingin, sem hún segist hafa tekið þátt í alveg á fullu.
„Það var eitthvert flottasta sjálfsprottna fyrirbæri síðustu áratuga,“ segir hún ákveðin, „en það var auðvitað búið að undirbúa jarðveginn. Það var búið að taka mörg samtöl, búið að ræða þetta fram og til baka. Ég vil til dæmis meina að sanngirnisbótaverkefnið sé mikill undanfari þessa alls út af umræðunni um kynferðisofbeldi sem fylgdi því verkefni. Þegar ég byrjaði á því verkefni fyrir tíu árum lagði ég áherslu á að það mikilvægasta af öllu í svona vinnu væri að trúa því sem fólk segði. Og ég lagði það bara á borðið að ég tryði fólkinu. Allt svona smitar út frá sér og allt í einu var kominn farvegur fyrir #metoo. Það er nefnilega þannig að það lýgur enginn á sig neinum harmi, nóg er nú samt. Það er mjög mikilvægt að hafa það að leiðarljósi. Það hefur enginn hugmyndaflug í það að ljúga svona hlutum upp á sig.“
Spurð hvort hún hafi engar áhyggjur af því bakslagi sem „metoo“ hefur fengið, segir Guðrún að það sé ekki áhyggjuefni.
„Ég held að það gerist alltaf ósjálfrátt þegar svona rosalega mikil opnun hefur verið,“ segir hún. „Ég held að það sé ekkert sem við eigum að hafa áhyggjur af. Ég hef aldrei verið mjög svartsýn, hvorki fyrir hönd kvennabaráttunnar né annarrar baráttu. Þetta kemur allt saman, allt hefur bara sinn tíma eins og segir einhvers staðar á vísum stað.“
Lestu viðtalið við Guðrúnu í heild sinni í Mannlífi sem kom út í dag.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay