Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018, er í skýjunum eftir baráttufundinn á Arnarhóli í dag.
Baráttufundir til að mótmæla kjaramisrétti, ofbeldi og áreitni á vinnustað voru haldnir víða um land í dag. Margt fólk hætti í vinnu klukkan 14:55 og lagði leið sína á baráttufundina en sá stærsti var haldinn á Arnarhóli.
Dagskrá fundarins á Arnarhóli var fjölbreytt en Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar voru meðal þeirra sem ávörpuðu viðstadda. Einnig var boðið upp á fjölbreytt tónlistaratriði. Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir voru fundarstýrur.
„Þetta gekk bara framar öllum vonum – eftir mikinn undirbúning síðustu vikna erum við í skýjunum með fundinn, mætingu og allt,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018.
Aðspurð hvort hún sé með tölur yfir þann fjölda sem lagði leið sína á Arnarhól í dag segir Maríanna: „Við erum ekki með neinar tölur enn þá. Við vitum þó að það mættu miklu fleiri en 7.000 en það var tala sem annar fundarstjórinn hafi kastað fram í gríni!“
Kvennafrí er haldið í 6. sinn í ár. #kvennafrí #kvennaverkfall
— Kvennafri (@kvennafri) October 24, 2018