Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Það skilur eftir flöskur, jafnvel brotnar, og annað drasl“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Náttúrulaugar og manngerðar laugar og pottar úti í íslenskri náttúru eru hrífandi fyrirbæri. En flöskur, dósir, sígarettustubbar og annað rusl setur ljótan svip á þessa baðstaði. Eigandi heitu pottanna í Sandvíkurfjöru við Hauganes er farinn að kæla pottana á nóttunni vegna slæmrar umgengni næturgesta og landeigandi í Skagafirði íhugar að fylla upp í Fossalaug vegna sóðaskaps baðgesta. Mannlíf tók nokkra umsjónarmenn lauga og potta úti á landi tali til að forvitnast um umgengnina.

„Ég lét reyna á þetta því ég vil auðvitað hafa pottana opna allan sólarhringinn,“ segir Elvar Reykjalín sem rekur heitu pottanna í Sandvíkurfjöru við Hauganes. Hann neyðist nú til að kæla pottana á nóttunni vegna slæmrar umgengni gesta sem sækja pottana seint á kvöldin og nóttunni.

„Þetta er alveg fullreynt. Það er bara ekki hægt að hafa opið á nóttunni,“ segir Elvar í samtali við Mannlíf. „Það hefur komið í ljós að það eru alltaf einhverjir fábjánar innan um hina sem eyðileggja fyrir öðrum. Maður er bara sorgmæddur.“

Drukkið og djúsað langt fram á nótt

Elvar tekur fram að meirihluti þeirra sem sækja pottana séu til fyrirmyndar. „Almennt er þetta gott fólk og gengur vel um sem kemur hingað. En þegar kvölda tekur þá fer fólk að mæta sem er að drekka og djúsa langt fram á nótt. Það skilur eftir flöskur, jafnvel brotnar, og annað drasl,“ segir Elvar sem var í miðri tiltekt á svæðinu þegar Mannlíf náði tali af honum.

Pottarnir í Sandvíkurfjöru við Hauganes. Mynd / Elvar

„Þetta er heilmikil aukavinna,“ segir Elvar um vinnuna sem fer í að þrífa eftir þá sem ganga illa um svæðið. „Maður hefur lagt rosalega mikla vinnu og pening í að gera svæðið flott þannig að það er leiðinlegt að örfáir skuli skemma og vera til leiðinda.“

- Auglýsing -

Hræddur um að Íslendingarnir gangi verr um en útlendingarnir

„Já, þetta hefur verið vandamál að einhverju leyti en þetta hefur ekki verið neitt hræðilegt,“ segir viðmælandi Mannlífs sem hefur haft umsjón með náttúrulaug á Vestfjörðum. Hann segir gesti laugarinnar reglulega skilja dósir og stubba eftir við laugina. Þetta á sérstaklega við um gesti sem heimsækja laugina á nóttunni og um helgar.

Við laugina er búningsklefi. Þar hefur fólk jafnvel skilið eftir fatnað. „Það hefur safnast upp töluvert af óskilamunum,“ segir hann en tekur fram að þetta hafi ekki verið neitt stórkostlegt vandamál, að almennt gangi fólk ágætlega um svæðið í kringum laugina.

„Ég hef samt meiri áhyggjur af því að Íslendingarnir muni ganga verr um svæðið en erlendu ferðamennirnir.“

- Auglýsing -

Hann tekur fram að á svæðinu sé ruslatunna og kassi fyrir tómar dósir og að almennt losi fólk sig við rusl í tunnuna. Hann segir umsjónaraðila þá hafa lagt metnað sinn í að hafa umhverfið í kringum laugina snyrtilegt. „Við sjáum að það bætir umgengni baðgesta.“

„Ég hef samt meiri áhyggjur af því að Íslendingarnir muni ganga verr um svæðið en erlendu ferðamennirnir. Þannig að það verður forvitnilegt að sjá hvernig sumarið verður.“

Dósir, flöskur, sígarettustubbar og annað rusl setur ljótan svip á svæðin í kringum náttúrulaugar landsins.

Ekkert breyst milli ára

Umgengnin í kringum Seljavallalaug undir Eyjafjöllum hefur lengi verið vandamál. Laugin er afar vinsæl hjá bæði íslenskum og erlendum ferðamönnum enda rataði laugin á lista The Guardian árið 2013 yfir tíu bestu sundlaugar heims.

Vinsældir laugarinnar hafa svo farið vaxandi með tilkomu samfélagsmiðla enda myndast náttúran um kring einstaklega vel.

Fólk sem starfar innan ferðaþjónustunnar hefur reglulega vakið athygli á slæmri umgengni við laugina og jafnvel birt myndir af því rusli sem gestir laugarinnar skilja eftir við hana. Flöskur, dósir, umbúðir utan af matvælum, föt og handklæði er dæmi um það sem fólk hefur skilið eftir við laugina.

Laugin er í umsjá Ungmennafélagsins Eyfellingur. Ármann Fannar Magnússon, formaður félagsins, segir í samtali við Mannlíf að það hafi ekki mikið breyst undanfarin ár, umgengin sé svipuð á milli ára. Hann segir lítið breytast þrátt fyrir umræðu um slæma umgengni á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

Hann tekur fram að umgengin hafi þó verið „ágæt“ undanfarið.

Spurður út í hversu oft sé hreinsað í kringum laugina segir Ármann það fara eftir þörfum. Hann segir „alls konar dót“ skilið eftir við laugina.

„Djammumgengni“ er vandamálið

„Það er svona djammumgengni, ef svo má að orði komast, sem er vandamálið,“ segir Björn Magnússon sem hefur haft umsjón með lauginni í Reykjarfirði í Arnarfirði. Hann segir reglulega koma upp að hann þurfi að hreinsa upp bjórdósir og sígarettustubba í kringum laugina. „Það hefur komið tvisvar sinnum upp núna í vor,“ segir Björn.

Hann tekur fram að það séu ekki erlendir ferðamenn sem gangi illa um heldur frekar ungmenni sem búa í nágrenni sem koma síðla kvölds í laugina. „Það eru helst þau sem sjá sér ekki fært um að taka ruslið til baka með sér,“ segir Björn.

Fara nokkrum sinnum á dag að losa rusl

„Það er farið nokkrum sinnum á dag og þá eru sígarettustubbar og annað hreinsað og ruslatunnur tæmdar.“ Þetta segir Soffía Haraldsdóttir, einn eigenda Hótels Flókalundar á Patreksfirði. Eigendur Flókalundar hafa umsjón með náttúrulauginni Hellulaug sem er skammt frá hótelinu.

Hellulaug. Mynd / Hótel Flókalundur

„Við höfum sinnt þessari laug í mörg ár og aðsóknin hefur aukist mikið undanfarið. Við erum með ruslatunnur á svæðinu og biðjum fólk að ganga vel um,“ útskýrir Soffía. Hún segir fólk almennt ganga vel um en segir starfsfólk Flókalundar leggja mikla áherslu á að halda svæðinu snyrtilegu og að það hvetji fólk örugglega til að leggja sitt af mörkum.

„Ég verð samt að viðurkenna að eftir veturinn, á meðan við vorum ekki á svæðinu, þá var þetta ekki snyrtilegt.“

Soffía segir erlenda ferðamenn vera í meirihluta þeirra sem sækja laugina yfir sumartímann.  Aðspurð hvort að hún sé hrædd um að það séu Íslendingarnir sem gangi verr um en erlendir ferðamenn segir Soffía: „Það er erfitt að fullyrða um það en jú, maður hefur áhyggjur.“

Hún tekur aftur fram að flestir gangi vel um svæðið.

Kúkur og klósettpappír

Dagur Torfason, landeigandi í Skagafirði, sagði í samtali við RÚV í vikunni að hann íhugi núna að moka yfir Fossalaug vegna umgegni þeirra sem baða sig í lauginni. Hann sagði fólk kúka á svæðinu við laugina og skilja klósettpappír eftir. Munntóbaksbréf og annað rusl er líka áberandi á svæðinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -