Svo virðist sem það sé að rofa til í faraldrinum. Smitum hefur fækkað töluvert síðustu viku. Læknar eru þó varkárir í að slá því föstu að veiran sé á hröðu undanhaldi. Runólfur
Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, segir of snemmt að segja til um það, en smittölur í gær og í dag gætu gefið vísbendingu um hvert faraldurinn stefni.
„Við vonum að staðan fari að skána. Fjöldi smita var lægri um helgina en hafði verið vikuna á undan en við höfum séð það oft um helgar, þar sem þá eru færri sýni tekin.
En smitum fækkaði líka á föstudaginn þannig að það verður mjög fróðlegt að sjá
hver staðan verður í dag,“ segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið.
„Vissulega eru þetta ánægjulegar tölur og við erum allavega ekki að sjá uppsveiflu,“ sagði Þórólfur Guðnason en varar við því að þótt útlitið sé gott þá geti ástand fljótt breyst til hins verra, þar sem oft versni einkenni sjúklinga hratt. Hann segir stöðuna þó mun betri síðustu tvo daga á spítalanum þar sem innlögnum hafi ekki fjölgað.