Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda. Hún heillaðist af frjálshyggju sem barn eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Milton Friedman en hún gekk svo í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins um leið og hún hafði aldur til. Eftir að hafa reynt við læknisfræði í háskóla sneri hún sér að lögfræði þar sem þrætulistin átti vel við hana og gegnir hún nú æðsta embætti dómsmála í landinu.
Í dag er nákvæmlega ár síðan stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var kynntur. Samstarfið hefur að mestu gengið stóráfallalaust fyrir sig en það hefur þó mætt á einum ráðherra umfram aðra, dómsmálaráðherranum Sigríði Á. Andersen sem meðal annars hefur þurft að verjast vantrauststillögu í þinginu vegna umdeildrar skipunar dómara í Landsrétt. Þetta var annar stormurinn á stuttum tíma því ríkisstjórnin sem hún sat í áður hafði fallið vegna trúnaðarbrests sem samstarfsflokkur taldi að hefði orðið í máli er laut að eldri veitingu uppreistar æru. Þrátt fyrir þessi hitamál upplifir Sigríður sig ekki sem umdeildan stjórnmálamann og segist mæta miklum velvilja í störfum sínum.
Þarf að gera fleira en gott þykir
Vantrauststillagan var borin upp eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hafði brotið gegn matskenndu ákvæði stjórnsýslulaga við skipan dómara í Landsrétt sem þá var verið að koma á laggirnar. Hæfisnefnd hafði lagt fram tillögu um 15 hæfustu umsækjendurna en Sigríður breytti þeirri tillögu, tók fjóra umsækjendur af lista og setti fjóra aðra á listann í staðinn. Þrátt fyrir kröfur andstæðinga um afsögn og að könnun Maskínu og Stundarinnar sýndi að þrír af hverjum fjórum vildu að hún segði af sér, stóð Sigríður föst á sínu og sagðist einfaldlega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. Við það stendur hún enn.
„Það er nú þannig, hvort sem er í stjórnmálum eða þegar menn eru að reka eitthvert apparat þá þarf maður að gera fleira en gott þykir. Ég stóð frammi fyrir ákveðnum aðstæðum,“ segir Sigríður en Alþingi hafi gert henni ljóst að það myndi ekki samþykkja listann óbreyttan og því hafi hún orðið að gera breytingar.
„Málið var komið í pólitískar skotgrafir áður en ég auglýsti embættin laus til umsóknar, þá var strax byrjað að hóta ráðherranum að hann skyldi ekki voga sér að koma með svona lista eða hinsegin og mér fannst það miður. Þegar listi nefndarinnar lá fyrir kom ekki annað til greina en að kanna hug alþingismanna áður en ég bæri málið undir þingið, eins og mér bar að gera samkvæmt lögum. Þá var mér gert ljóst að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Ég átti því ekki annarra kosta völ en að leitast við að leggja fram lista sem ég taldi að þingið gæti fellt sig við. Ég lagði mat á vinnu hæfisnefndar eins og mér ber skylda til að gera og ég gerði málefnalegar breytingar á listanum eftir minni bestu samvisku. Meðal annars fjölgaði ég konum við réttinn sem varð þess valdandi að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins var sett á laggirnar jafnmikilvæg stofnun sem dómstóll er með jöfnum kynjahlutföllum. Ég vogaði mér líka að líta til áratuga athugasemdalausra starfsreynslu dómara sem voru meðal umsækjenda og bætti þeim í hóp hæfustu umsækjenda, ekki í staðinn fyrir þá fimmtán sem nefndin hafði lagt til heldur til viðbótar þeim.“
Dómstólar eru hins vegar ekki sammála Sigríði um að hún hafi rannsakað málið nægilega og hefur dæmt tveimur dómurum miska- og skaðabætur vegna þess að gengið var fram hjá þeim um skipanina, nú síðast í október þegar Héraðsdómur Reykjavíkur gerði ríkinu að greiða einum umsækjenda 4 milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur. Sigríður segir það mál í áfrýjunarferli.
„Það er hins vegar lögfræðilega áhugavert fyrir þá sem eru að velta þessu fyrir sér, eins og starfsmönnum hjá hinu opinbera, hvort það verði þannig að í framtíðinni að menn geti sótt skaðabætur fyrir það að fá ekki starf. Það hefur hingað til ekki verið hægt og nýlega komst Hæstiréttur að því að maður sem hafði sannarlega verið ólöglega vikið frá störfum fékk ekki miskabætur.“
Aðspurð segist Sigríður ekki á neinum tímapunkti hafa íhugað að segja af sér. Vantrauststillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 29 en þar vakti sérstaka athygli að tveir stjórnarliðar, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði með tillögunni. Sigríður segir það í sjálfu sér ekki hafa komið á óvart. Þessir tveir þingmenn VG hafi ekki stutt tillögu síns formanns um að ganga til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Ríkisstjórnarsamstarf jafnólíkra flokka og skipa þessa stjórn kalli á málamiðlanir. „Það felst í ríkisstjórnarsamstarfi að menn styðja þá ríkisstjórn og þá ráðherra sem í henni starfa. Að öðrum kosti er rétt að líta svo á að menn styðji ekki ríkisstjórnina. Þannig er það nú bara. Að minnsta kosti er það öllum ljóst sem hafa einhverja reynslu í stjórnmálum að öðruvísi gangi ekki ríkisstjórnarsamstarf.“
Lét geðshræringu ná á sér tökum
Aðspurð út í ríkisstjórnarsamstarfið segir Sigríður mikinn mun á ríkisstjórninni sem nú situr og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem áður sat. Björt framtíð ákvað að slíta því samstarfi sökum trúnaðarbrests sem þau töldu hafa orðið gagnvart Sjálfstæðisflokknum eftir að í ljós kom að faðir Bjarna Benediktssonar hafði skrifað undir meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann sem sótt hafði um uppreist æru nokkrum árum áður. Sigríður lá undir ámæli fyrir að birta ekki opinberlega gögn í máli annars manns sem hlotið hafði uppreist æru fyrir hennar ráðherratíð og fyrir að hafa greint Bjarna frá aðkomu föður hans að máli enn annars manns sem fengið hafði uppreist æru.
„Ég myndi segja að það væri einkum og sér í lagi reynsla þeirra sem sitja í þessari ríkisstjórn. Þeir voru kannski líkari flokkarnir sem voru í ríkisstjórninni þar á undan en þetta samstarf gengur miklu mun betur. Menn átta sig á þeirri ábyrgð sem þeir bera þegar þeir taka sæti í ríkisstjórn. Þá þýðir ekki að vera í uppnámi út af alls kyns álitaefnum. Menn þurfa að vera yfirvegaðir og faglegir í sinni vinnu og gera sér grein fyrir að þeim ber skylda til að reka tiltekin mál áfram og láta sín ráðuneyti virka.“
„Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru.“
Viltu meina að fyrri ríkisstjórn hafi fallið á smáatriðum? „Það liggur fyrir að samstarfsflokkarnir létu geðshræringu ná á sér þannig tökum að þeir risu ekki undir þeirri ábyrgð sem menn þurfa að gera í ríkisstjórn, þegar menn í skjóli nætur ákveða að slíta stjórnarsamstarfi með vísan til máls sem ríkisstjórnin hafði ekkert með að gera, máli úr tíð fyrri ríkisstjórnar án þess svo mikið sem að ræða við samstarfsráðherrana. Mín aðkoma að fyrirbærinu uppreist æru var sú að neita að veita hana kynferðisbrotamanni, þvert gegn ráðleggingum embættismanna minna, og um leið tók ég ákvörðun um að endurskoða lagaákvæði um uppreist æru. Þetta gerði ég áður en mál frá fyrri tíð komu til opinberrar umræðu. Ég held að það sé komið í ljós eftir á hvílík gönuhlaup þessi stjórnarslit voru sem að á endanum varð þeim flokkum, að minnsta kosti öðrum þeirra að aldurtila. Hinn flokkurinn, þótt hann tóri enn þá á Alþingi, finnst mér ekki hafa mikla skírskotun í þjóðfélagið í dag,“ segir Sigríður og á þar við Viðreisn.
„Ég velti því fyrir mér hvaða erindi þau eru að reka í dag. Ég held að þessi stjórnarslit hafi verið þeim þungbær og þótt það hafi verið Björt framtíð sem átti upphafið að þeim þá gekk Viðreisn í að gerast sporgöngumenn þess flokks. Þau eru fyrst og fremst með það á dagskrá hjá sér að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og flokkurinn er svokallaður eins máls flokkur. Slíkir flokkar fara oft erindisleysu. En ég ætla svo sem ekkert að vera að fella dóma yfir öðrum flokkum en sagan er hins vegar ólygnust.“
Sannfærðist af Hannesi Hólmsteini í sjónvarpinu
Líkt og margir núverandi og fyrrverandi áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum lauk Sigríður stúdentsprófi úr MR og fór í lögfræði í Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk embættisprófi. Færri vita hins vegar að hún hóf fyrst nám í læknisfræði áður en hún skipti yfir í lögfræðina. Þótt hún telji aðspurð að hún hefði orðið ágætis læknir telur hún lögfræðina eiga betur við sig. „Þetta húmaníska fag sem lögfræðin er átti betur við mig en raunvísindin í læknisfræðinni.“
Sigríður er einn stofnenda vefmiðilsins Andríki.is sem á blómaskeiði pólitísku vefritanna var einn frjóasti vettvangur stjórnmálaumræðu í landinu. Vefurinn er reyndar enn til og er eiginmaður hennar, Glúmur Björnsson, einn ritstjóra en eins og nafnið gefur til kynna var vefurinn flaggskip frjálshyggju á Íslandi. Sjálf hefur Sigríður hallað sér að frjálshyggju frá því hún var barn að aldri.
„Ég hafði alltaf gaman af pólitískri umræðu sem krakki og ég man eftir því þegar ég var 12 eða 13 ára að ég horfði á Hannes Hólmstein, sem ég þekkti þá náttúrlega ekki neitt, tala við Milton Friedman í sjónvarpinu. Ég man að Hannes talaði svo skýrt þarna í sjónvarpinu að jafnvel barn gat skilið hann sem er reyndar eitthvað sem stjórnmálamenn ættu að hafa að leiðarljósi. Ég held ég geti sagt að þarna hafi Hannes Hólmsteinn opnað augu lítillar stúlku í Vesturbænum,“ segir Sigríður og hlær. „Ég gekk svo strax í Heimdall þegar ég var 15 ára, um leið og ég hafði aldur til.“
„Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“
Aðspurð hvort hún sé enn jafnróttækur frjálshyggjumaður og hún var á árum áður svarar Sigríður: „Ég lít alls ekki á mig sem róttæka. Mér finnst ég hafa svo normal skoðanir, algjörlega meðalhófs. Það hefur ekkert elst af mér, nema síður sé.“ Sigríður er ekki mikið fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hún talar hreint út og ljóst að hún er ekki í stjórnmálum til að þóknast þeim sem hæst tala og stefnufesta hennar veldur oft fjaðrafoki. „Ég upplifi mig ekki umdeilda. Það eru hins vegar margir sem hrósa mér en bæta svo við: „En ég er ekki alltaf sammála öllu sem þú segir.“ Þá spyr ég oft á móti: „Hvað er það helst sem þú ert ekki sammála mér um, getur þú nefnt mér eitthvert eitt atriði?“ Stundum geta menn það ekki en ef þeir geta nefnt eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að ræða það og þá endar það oftast þannig að við endum sammála um það atriði. Auðvitað er fólk aldrei sammála um allt en ég hef þó ekki greint annað en mikinn velvilja í minn garð sem stjórnmálamanns. Mér er umhugað um að hafa allar staðreyndir uppi á borðum og tala hreint út. Það kann að vera að mönnum mislíki þær staðreyndir eða hafa aðrar skoðanir á þeim og þá býðst mönnum að rökstyðja það.“
Konur ekki beittar skipulegu misrétti
Í þessu samhengi má nefna Facebook-færslu Sigríðar sem birtist á kvennafrídeginum þar sem ráðherrann fjallaði um framsetningu þeirra sem stóðu að hátíðarhöldunum þann dag. Á vefnum kvennafri.is var því slegið föstu að konur væru einungis með 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla en Sigríður benti á að það væri rangt því þegar búið væri að leiðrétta fyrir mælanlegum þáttum við útreikning á launamun kynjanna væri munurinn ekki nema 5%. Vísaði hún um þetta til sömu skýrslu Hagstofunnar og kvennafri.is hafði stuðst við. Þá væru ungar konur hjá hinu opinbera með ívið hærri laun en karlar og lagði hún því til að ungu konurnar mættu aðeins fyrr til vinnu daginn eftir. Þessi ummæli Sigríðar vöktu hörð viðbrögð en hún segist einungis hafa verið að benda á að aðstandendur hátíðarhaldanna hafi farið full frjálslega með staðreyndir.
„Ég heyrði svo ekki betur en að daginn eftir hafi þær fallist á það með mér að þetta væri alveg rétt sem ég væri að benda á en að þær ætluðu samt ekki að breyta sinni aðferð. Þær hafa allan rétt til þess en mér finnst mjög mikilvægt að allir viti hvernig raunverulega er í pottinn búið þannig að hver og einn geti dregið eigin ályktun af þessum tölum.“
„Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál.“
Sigríður segist í raun hafa þarna verið að endurtaka það sem hún hefur haldið fram um árabil, að það þurfi að taka tillit til mælanlegra þátta þegar launamunur kynjanna er reiknaður út. „Það sem ég er að benda á er að það er einhver munur á launum kynjanna en það er ekki víst að það sé vegna þess að það sé verið með skipulegum hætti að beita konur einhverju misrétti. Ég held að það sé ekki staðan á Íslandi í dag heldur að það sé samfélagið sem ýti konum í tilteknar áttir, að þær taki vissar ákvarðanir frekar en karlar. Það getur verið að konur forgangsraði öðruvísi, að þær fari fyrr heim úr vinnu til að sækja börnin, þær séu frekar heima með börnin og þá er það eitthvað sem við eigum að ræða ef menn telja það vandamál. Af hverju velja konur þessa leið frekar en karlar? Það er ekki verið að ræða það í þessari launamisréttisumræðu.“
Mönnum hugnaðist ekki að hafa mig í þessu ráðuneyti
Í framhaldinu berst talið að MeToo-byltingunni og upplifun Sigríðar af henni. „Ef konum fannst nauðsynlegt að stíga fram og lýsa sinni reynslu þá er frábært að þær skyldu gera það og að á þær hafi verið hlustað. Ég held að þetta hafi haft heilmikil áhrif á margt í samskiptum kynjanna og að mestu leyti til hins betra. Það hefur stundum verið sagt við mig að ég þreytist ekki á að reyna að ala upp fullorðið fólk. Ég á það meira að segja til að kalla á eftir fólki úti á götu í svartamyrkri sem er ekki með endurskinsmerki að setja það upp og lifi svo í voninni um að það taki ábendingunni. MeToo-byltingin er svolítið af þeim meiði, það er verið að reyna að ala upp fullorðið fólk, kenna því viðeigandi hegðun. Það getur verið mjög erfitt að gera það en það er tilraunarinnar virði.“
Sjálf segist Sigríður aldrei hafa fundið fyrir því að hallað hafi á hana vegna kynferðis eða að hún kannist við það að konur í stjórnmálum fái harkalegri meðferð en karlar. „Það hefur verið talað um að konur eigi erfitt uppdráttar en ég hef aldrei orðið vör við það. Ég fór fyrst í prófkjör í Sjálfstæðisflokknum árið 2006 og fann ekkert nema velvilja og náði mjög góðum árangri af nýliða að vera, algjörlega óþekkt þannig séð. Ég hef alltaf fengið mikinn stuðning þar sem ég hef gefið kost á mér.“ Sigríður bendir á að í prófkjörum og kjöri til Alþingis séu einungis 63 sæti í boði og því liggi það í hlutarins eðli að færri komist að en vilja.
„Það er líka mikil barátta milli karla og það eru margir karlar í sárum eftir hvert einasta prófkjör í öllum flokkum og eftir kosningar, alveg eins og konur. Það er alveg vegið að körlum í pólitíkinni líka. Ég fann alveg að það var reynt að vega að mér um leið og ég kom inn í ráðuneytið. Mönnum hugnaðist það ekki að ég kæmi inn í þetta ráðuneyti, engan veginn. Það var reynt frá fyrsta degi en hvort það hafi verið af því að ég var kona, ég veit það ekki. Ætli það hafi ekki frekar verið vegna skoðana minna og stefnufestu.“
Bylting með rafrænni þinglýsingu
Desembermánuður er einn annasamasti tími stjórnmálamannsins. Fjárlögin eru keyrð í gegn og ráðherrar keppast við að tæma þingmálalista sína. Sigríður er þar engin undantekning og hjá henni er það forgangsatriði að koma í gegn frumvarpi um rafræna þinglýsingu sem hún segir fela í sér byltingu fyrir hinn almenna borgara. „Í dag er það þannig að þegar þú kaupir þér íbúð þá þarft þú eða fasteignasalinn þinn að fara með kaupsamninginn til sýslumanns í viðkomandi umdæmi þar sem fasteignin er og láta þinglýsa honum. Það hefur tekið mislangan tíma. Í sumar lentum við í því að það tók allt of langan tíma að þinglýsa skjölum á höfuðborgarsvæðinu, 4-5 vikur sem er algjörlega óásættanlegt.“
Með nýju verklagi, gangi frumvarpið í gegn, verður hins vegar hægt að þinglýsa skjölum á Netinu í gegnum sérstaka gátt og það mun því ekki taka nema nokkrar sekúndur að þinglýsa skjali. Ef eitthvað misjafnt kemur upp, til dæmis ef seljandi fasteignar er í raun ekki réttmætur eigandi hennar, þá gerir kerfið viðvart. „Þetta mun verða bylting. Þetta mál hefur verið til umræðu í um 10 ár og nú þarf einfaldlega að taka skrefið.“
Mætti skoða hvort allur orkupakkinn verði undanskilinn
Annað mál sem dúkkaði óvænt upp á haustþingi og valdið hefur deilum er hinn svokallaði þriðji orkupakki ESB og innan stjórnarflokkanna skiptast menn í tvær fylkingar. Sigríður segir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal valdheimilda umfram aðrar reglugerðir sem Ísland hefur tekið upp í gegnum EES-samninginn. Hins vegar sé eðlilegt að spurningar vakni í hvert sinn sem reglugerðir sem þessar eru innleiddar. „Það er alveg ljóst að mörgum Íslendingum blöskrar það framsal sem hefur átt sér stað frá Íslandi til erlendra stofnana, löggjafa og jafnvel dómstóla. Stjórnmálamenn verða að hlusta á þessar raddir, hlusta á þetta fólk hvort sem þessi þriðji orkupakki í sjálfu sér sé tilefni til þeirrar geðshræringar sem hefur gripið um sig meðal sumra.“
Ráðherrann veltir því upp hvort mistök hafi verið gerð í upphafi þegar ákveðið var að undanskilja orkumál ekki frá EES-samningnum. „Það var ekki gert og ef menn telja að það hafi verið mistök þá er sjálfsagt að skoða það hvort að við ættum að hefja viðræður við Evrópusambandið um hvort undanskilja eigi allan orkupakkann, ekki bara þriðja orkupakkann heldur þann viðauka sem snýr að orkumálum, alfarið. Þriðji orkupakkinn sem slíkur er bara lítill hluti af orkumálum EES-samningsins.“
Eigi að síður telur Sigríður að EES-samningurinn hafi reynst mikið gæfuspor fyrir Ísland og eins og staðan er núna farnist Íslandi best að hafa hann. „Auðvitað hefði mér fundist betra ef Alþingi sjálft, og íslenskir stjórnmálamenn, kæmu sér saman um svona reglur; kæmu sér saman um að stöðva einokun ríkisins á tilteknum mörkuðum, eins og fjarskiptamarkaði, orkumarkaði og fjölmiðlamarkaði. En það þýðir ekki að þótt við höfum þurft að taka þær upp frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn að þá séu þær sjálfkrafa slæmar.“
Bakar ekki en dóttirin freistar hennar
Líkt og áður sagði eru þingmenn og ráðherrar jafnan á haus í desembermánuði en rétt eins og aðrir þurfa þeir að halda heilög jól og sinna því sem þeim fylgir. Þrátt fyrir annir gefur Sigríður sér tíma til að taka þátt í jólaundirbúningnum með fjölskyldunni.
„Ég skreyti alltaf fyrsta sunnudag í aðventu og ég verð að rífa mig upp fyrir það um þessa helgi. Ég hef ekki bakað lengi en það er nú bara af því að ég vil ekki lenda í óhollustu en ég á unglingsstúlku sem hefur tekið að sér að baka og freistar mín með kökum alla aðventuna. En mér finnst jólin mjög hátíðlegur fjölskyldutími og mér finnst gaman að halda í hefðir. Ég segi um hver einustu jól að næstu jól ætli ég að prófa að vera erlendis en það verður aldrei neitt úr því, ég tími einhvern veginn aldrei að fara.“
Þar sem trúmál heyra undir dómsmálaráðherra lá beinast við að spyrja hvort ráðherrann sæki kirkju yfir jólahátíðirnar. „Ég fór lengi vel í Landakotskirkju á miðnætti þegar ég var unglingur og í Háskólanum. Það er nú mín heimakirkja þannig að ég hef aldrei farið í aðra kirkju þótt ég sé ekki kaþólsk. Ætli ég fari nú ekki eitthvað í kirkju um jólin.“
Ertu trúrækin? „Já. Nú er ég svo heppin að dóttir mín fermist næsta vor og mér gefst kostur á að fylgja henni í fermingarfræðslunni og fara í messur. Mér finnst það notaleg stund, það er ef prestinum mælist vel.“
Þjóðkirkjan taki öll mál í sínar hendur
Þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja undanfarið, það fækkar hratt í söfnuðinum og er svo komið að í dag stendur þriðjungur landsmanna utan hennar. Sigríður segist þrátt fyrir það ekki hafa áhyggjur af kirkjunni og hennar erindi. „Ég held að hún eigi enn erindi við fólk. Það er kannski ekki mitt að hafa áhyggjur af stöðu kirkjunnar heldur er það kirkjan sjálf sem þarf að hafa áhyggjur af því. Hún þarf auðvitað að laga sig að breyttu umhverfi og getur gert það með ýmsu móti. Það er hennar verkefni.“
„Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“
Hvort þessi þróun kalli á aðskilnað ríkis og kirkju segir Sigríður að nú þegar sé mikill aðskilnaður þar á milli. „Einu sinni hét þetta embætti sem ég gegni sem dóms- og kirkjumálaráðherra en nú er þetta ráðuneyti, ekki bara ráðuneyti þjóðkirkjunnar heldur allra trúfélaga og kirkjan nýtur í sívaxandi mæli sjálfstæðis.“ Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á samkomulag sem einfaldi meðal annars fjárframlög frá ríkinu og geri þjóðkirkjuna enn sjálfstæðari í því hvernig hún ráðstafar þeim fjármunum. Þegar fram í sækir sé endanlegur viðskilnaður heppilegastur.
„Kirkjan ræður að mestu leyti sínum málefnum sjálf, það koma til dæmis aldrei kirkjuleg málefni sérstaklega inn á borð til mín. Ég hef ekki greint annað en að kirkjan vilji hafa það sjálf þannig og vilji auka það enn frekar. Ég held að til framtíðar litið þá sé það farsælast fyrir kirkjuna að taka öll mál í sínar hendur, algjörlega.“
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Aðstoð / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL