Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

„Það var verið að leita að strengjabrúðu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Gunnarsson er „ofboðslega mikill Vestfirðingur“; fæddist á Ísafirði, ólst upp í Bolungarvík og hefur freistað þess í gegnum tíðina að verja sem mestum tíma í heimahögunum. Eftir háskólanám á Akureyri og rúman áratug á malbikinu fyrir sunnan ákvað hann sumarið 2018 að venda kvæði sínu í kross og sækja um það sem átti að vera ópólitísk staða bæjarstjóra á Ísafirði.

Guðmundur hreppti hnossið en það leið ekki á löngu þangað til hann fór að upplifa að ekki væru allir á eitt sáttir um ráðninguna. Samstarf hans og meirihluta bæjarstjórnar sprakk með látum í janúar sl. og síðan hefur hann tilkynnt á Facebook að hann og fjölskylda hans séu á förum frá Ísafirði; þeim líði einfaldlega ekki lengur vel í bænum. Í sameiginlegri yfirlýsingu var greint frá því að ástæða starfsloka Guðmvesundar væri „ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins“ en það er í besta falli villandi lýsing á því hvað varð þess valdandi að Guðmundi var ekki lengur stætt í starfi. Hann segir að eftir á að hyggja hefðu hann og meirihlutinn átt að vera opinskárri um ágreininginn sín á milli, þar sem rógburður og dylgjur um störf hans og persónu hafi fundið frjóan jarðveg í þögninni.

„Við vorum úti að hlaupa í Óshlíðinni ég og konan mín og ég hendi þessu svona fram, hvort ég eigi ekki bara að prófa að sækja um þetta starf, því við vorum búin að vera að tala um hvað við ættum að gera næst,“ segir Guðmundur um það hvernig það æxlaðist að hann sótti um bæjarstjórastöðuna. Konan hans, Ísfirðingurinn Kristjana Milla Snorradóttir, var ánægð með starf sitt í höfuðborginni en þau ákváðu engu að síður að slá til og eftir því sem leið á ráðningarferlið jókst spenna Guðmundar fyrir stöðunni. „Þegar valið stóð á milli tveggja eða þriggja þá var farið að kitla mig mikið að flytja heim og ég fann að starfið spilaði alveg inn á ástríðuna mína; að tala fyrir Vestfjörðum. Ég brenn mikið fyrir hagsmunum Vestfjarða.“

Guðmundur, sem er með BA-próf í fjölmiðlafræði og meistarapróf í alþjóðaviðskiptum, upplifði jafnframt að þetta væri eitthvað sem hann gæti gert vel; auk þess að unna svæðinu og fólkinu var hann áhugasamur um stjórnun, samskipti og miðlun, eitthvað sem hann sá fyrir sér að yrði stór þáttur í störfum bæjarstjóra.

Óeining um stöðu og hlutverk

Það er erfitt að snúa talinu að öðru þegar Guðmundur kemst á flug um dásemdir Vestfjarða. Hann byrjar á því að harma að líklegast hafi fleiri Íslendingar heimsótt Spán en Vestfirði. „Samgöngurnar hafa verið erfiðar en við stöndum á tímamótum núna og ég er ekki bara að segja þetta af því að ég er Vestfirðingur; þetta er mest spennandi landsvæðið á landinu í dag. Þarna eru mestu tækifærin í ferðaþjónustunni, mestu tækifærin í atvinnuuppbyggingu … þetta svæði á svo ofboðslega mikið inni og það var þetta sem mér fannst svo spennandi að fá að takast á við,“ segir hann. „Mér finnst stjórnun líka spennandi, þ.e.a.s. að að virkja fólk til að taka þátt í teymisvinnu, að vera hluti af heild sem er að róa saman í einhverja átt. En svo líka að leita leiða til að fanga athygli, koma upplýsingum og skilaboðum á framfæri og koma Vestfjörðum meira á kortið.“

„Mér fannst alltaf gengið út frá vantrausti og það var ofboðslega óþægilegt.“

- Auglýsing -

Og til alls þessa stóð hugur hans þegar hann tók við störfum í ágúst 2018, valinn af meirihluta bæjarstjórnar; þremur sjálfstæðismönnum og tveimur framsóknarmönnum. En þá komum við strax af einni þeirra spurninga sem sitja eftir nú þegar allt er um gengið: Hvað er ópólitískur bæjarstjóri?

„Hvað er það?“ spyr Guðmundur sjálfur um þetta sérkennilega starf sem æ fleiri sinna. „Kjósendur kjósa sér pólitíska fulltrúa og þeir fara með vald íbúa. Svo ráða þeir inn starfsmann … en hver er hann? Hver er tenging hans við íbúa?“

Allt að einu, þá varð hann þess fljótt áskynja að framsóknarmenn hefðu sett það sem skilyrði fyrir meirihlutasamstarfinu að starfið yrði auglýst. „Hinn flokkurinn, „stóri flokkurinn“ í meirihlutasamstarfinu, varð sem sagt að sætta sig við þetta. Auðvitað þarf fólk alltaf að geta komist að málamiðlunum en ég fann það mjög fljótt að ég naut ekki stuðnings þeirra. Það var sennilega það erfiðasta í starfinu. Og svo þegar á hólminn var komið, þegar það myndast ágreiningur okkar á milli, þá stendur enginn með mér. Þegar við reyndum sáttaleiðina, eins og maður á að gera, þá töluðu þau einum rómi,“ segir Guðmundur um meirhlutann.

- Auglýsing -
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ágreiningurinn stóð aldrei um einhver ákveðin mál heldur nálgun og aðferðir. Og allt frá upphafi var ljóst að menn voru ekki sammála um stöðu og hlutverk Guðmundar.

„Það myndaðist aldrei traust þarna á milli,“ segir hann um samstarf sitt við meirihlutann. „Og við töluðum alveg um þetta opinskátt. Ég vildi að við nálguðumst hlutina þannig að við værum að vinna saman en ekki þannig að ég væri að vinna fyrir þau. Þetta var svolítið munurinn á þessu og þessu,“ segir hann og leggur flata lófana fyrst niður hlið við hlið og svo annan fyrir ofan hinn. „Mig langaði til að við mynduðum teymi, að við ynnum saman og aðstoðuðum hvort annað. En ég upplifði samstarfið alltaf þannig að ég væri starfsmaður þeirra og mitt hlutverk væri fyrst og síðast að taka við skipunum og framfylgja þeim án þess að hafa rödd. Það er nálgun sem mér hugnast ekki og þannig vann ég ekki með mínu teymi á bæjarskrifstofunum.“

Enginn stuðningur og ekkert traust

En lá ekki fyrir einhver starfslýsing? Guðmundur segist telja erfitt að berja saman starfslýsingu bæjar- eða sveitarstjóra; starfið sé fjölbreytt og fjölbreytilegt, verkefnin mörg og ólík, og vinnutíminn teygjanlegur. „Þú ert í þessu starfi öllum stundum, sérstaklega í litlu samfélagi. Þú ferð ekkert í pottinn með fjölskyldunni og ert ekki í vinnunni. Þú ferð ekki út í bakarí og neitar að taka samtal um snjómokstur. Það er þetta sem er svo dásamlegt við íslenskt samfélag; þú hefur svo beint aðgengi til að koma hlutunum áfram. Þú óskar eftir áheyrn og færð, bara yfir kaffibolla. En svo er þetta líka vel launað, þú færð vel borgað fyrir að axla þessa ábyrgð og vinna milliliðalaust með íbúunum.“

En það er nú ef til vill eitt af því sem gerir þessa stöðu, ópólitískan bæjarstjóra, svolítið sérkennilega; kjörnir fulltrúar sem fara með vald íbúa sinna bæjarstjórnarstörfum sínum í hlutastarfi, á meðan staða bæjarstjóra er fullt starf. Hann er framkvæmdarstjóri stjórnsýslukerfinsins, á í daglegum samskiptum við starfsfólk og íbúa og á að hafa bestu yfirsýn yfir það sem liggur fyrir.

Og það var ágreiningur um hlutverk bæjarstjórans og sýnileika, í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og í Súgandafirði um miðjan janúar, sem varð til þess að upp úr sauð. Guðmundur stökk strax til og var áberandi í hringiðu aðgerða á þessum tíma, enda leit hann svo á að það væri sitt hlutverk sem bæjarstjóra að vera til staðar fyrir íbúa og stappa í þá stálinu. „Á þeim tímapunkti var álagið gríðarlega mikið. En þau sem sagt lýstu yfir óánægju með það hvernig ég kom upplýsingum til þeirra. Mér fannst það strax mjög ósanngjarn áfellisdómur; að ég hefði ekki sinnt þeim nógu mikið, hinum kjörnu fulltrúum. Ég held að það sé rangt og ég hef farið yfir það; við vorum með opin samskipti á samfélagsmiðlum þar sem ég upplýsti þau dag og nótt og færði það svo yfir á aðra starfsmenn ef ég var ekki í sambandi, til dæmis á varðskipi. Ég leit svo á að það væri fyrst og fremst mitt hlutverk að sinna íbúum og upplýsingagjöf út á við. En þetta var líka uppsafnað og ég upplifði að hafa aldrei stuðning og aldrei traust. Mér fannst alltaf gengið út frá vantrausti og það var ofboðslega óþægilegt.“

„Það var aldrei neitt nógu gott“

Guðmundur segir að það hafi enn fremur farið fyrir brjóstið á honum hvernig talað var um Ísafjarðarbæ, starfsmenn bæjarins og þá vinnu sem stóð yfir. „Mér fannst við eiga að tala um hlutina á uppbyggilegan hátt, tala um verkefnin okkar á jákvæðan hátt. Ekki: „Þetta er ömurlegt, þetta er glatað, við þurfum að gera miklu betur …“ Mér finnst mikilvægt að við tölum um Ísafjarðarbæ af virðingu, að við tölum um fjöreggið okkar af virðingu. Ef við berum ekki virðingu fyrir því þá munu íbúar ekki gera það og þá myndast rosaleg mínushleðsla í umræðunni. Þar greindi okkur á.“

„Svo kem ég bara heim og tek af þér djobbið.“

Hinn 17. janúar, aðeins þremur dögum eftir snjóflóðin, var haldinn frægur bæjarstjórnarfundur þar sem til átaka kom. „Þetta var, að því mér fannst, ótímabær fundur til að fara ofan í saumana á því hvað við hefðum átt að gera betur. En þarna er allt í hers höndum. Margir starfsmenn bæjarins höfðu vart sofið. Og að fá þetta yfir sig … að við gerðum ekki nóg. Ég var búinn að leggja allt sem ég átti í að vera til staðar. En það var ekki nóg. Plantan í Litlu hryllingsbúðinni var enn þá svöng. Svo fór þetta að snúast um kjánalega hluti eins og hver ætti að taka á móti forsætisráðherra og hver ætti að fara í þyrluna og eitthvað svona bull.“ Guðmundur gengst fúslega við að hafa gert mistök á fundinum; það fauk í hann, hann skellti aftur tölvunni og rauk út.

En bökkum aðeins … plöntunni úr Litlu hryllingsbúðinni? „Ég held að ég sé ekki eini ópólitíski bæjarstjórinn sem upplifir að hann vinni fyrir plöntuna í Litlu hryllingsbúðinni. Ég veit að þetta er rosalega harkaleg lýsing en … Þú veist hvernig plantan í Litlu hryllingsbúðinni er? Hún vill alltaf meiri mat og svo stækkar hún bara og stækkar. Hún staldrar aldrei við og er södd, hún vill bara meira og meira að borða og svo vex hún og vex og vill meira og meira að borða og vex og vex … og það getur aldrei endað nema með ósköpum.“

 Ekki missa af nýjasta Mannlífi.

Það var aldrei neitt nóg af hálfu meirihlutans, segir Guðmundur. Þannig lýsti hann upplifun sinni fyrir meirihlutanum þegar hann mætti á sáttafund sem haldinn var 24. janúar, sömu helgi og tilkynnt var um starfslok hans hjá bænum. „Við töluðum mjög opinskátt um þetta og ég sagði að ég upplifði þetta svona; það var aldrei neitt nógu gott, það gekk aldrei neitt nógu hratt. Við stöldruðum aldrei við og sögðum: Þetta var nú flott hjá okkur, þetta gekk vel, við skulum gera meira af þessu. Um leið og það var tikkað í einhver box þá var strax farið í það hvað annað væri glatað. Þetta var bara alveg ofboðslega neikvæður dans.“

Á sáttafundinum stóð Guðmundur einn á móti fimm fulltrúum meirihlutans en talsmenn hans fóru ekki í grafgötur með óánægju sína með Guðmund og störf hans. „Eftir dálítið langa tölu um það hvað þau væru óhress með mig spurði ég hvort þetta væri skoðun þeirra allra.“ Þögnin skilaði svarinu. „Þá fékk ég það endanlega staðfest að það stóð enginn með mér.“ Við tók sjálfskoðun, því eins og Guðmundur segir sjálfur þá er það sjaldan þannig að einn eigi sök þegar tveir deila. „Auðvitað átti ég ekki að missa stjórn á mér á fundinum, auðvitað hefði ég átt að vera faglegri en svo,“ segir hann um bæjarstjórnarfundinn.

Afarkostir og skrýtin skilaboð frá Noregi

Guðmundur er mjög afdráttarlaus um það að hann sé ekki fórnarlamb; eflaust hefði mátt koma í veg fyrir að illa færi ef báðir aðilar hefðu verið skýrir um það frá byrjun hvernig þeir sáu samstarfið fyrir sér. En þrátt fyrir ástríðuna fyrir starfinu og stuðninginn sem hann fann fyrir frá minnihlutanum og íbúunum gat hann ekki sætt sig við þá skilmála sem fyrir hann voru lagðir á umræddum sáttafundi.

„Mér voru settir afarkostir um samskipti sem ég myndi aldrei sætta mig við, ekki í neinu starfi. Og ég skil ekki að nokkur gæti sætt sig við. Það væri þá enginn tilgangur með starfi bæjarstjóra og alveg eins hægt að spara það,“ útskýrir hann.

Hverjir voru þeir? „Að engar ákvarðanir væru teknar, engin símtöl eða fundir ættu sér stað nema með leyfi og samþykki meirihlutans. Tvö símtöl á dag; til að segja ég er að fara að gera þetta í dag og hringja í þennan og hitta þennan, og svo seinna um daginn til að fá leyfi til að svara svona og svona.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Og í hvern átti hann að hringja? Hver átti að veita leyfið? „Formaður bæjarráðs í umboði meirihlutans.“

Það er þungt yfir Guðmundi á meðan hann svarar. „Ég sá þá að það var ekki verið að leita að stjórnanda, það var verið að leita að strengjabrúðu.“ Hann staldrar við eins og hann sé að gera eitthvað upp við sig. „Það sem situr mest í mér þegar ég horfi yfir þennan tíma er símtal sem ég fékk frá Noregi í desember. Símtal um allt og ekkert.“

Maðurinn á hinum endanum var Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðar í starfsleyfi og fyrrverandi bæjarstjóri. Til umræðu voru málefni bæjarins, atvinnumál og fleira. Fyrir lá að Daníel var á leið heim. „Hann endaði símtalið á því að segja svona í framhjáhlaupi: „Svo kem ég bara heim og tek af þér djobbið.“ Ég man að mér fannst þetta furðulegt og taktlaust og skrýtið. Hver segir svona í gríni eða alvöru? Það fyrsta sem ég gerði var að hringja í konuna mína og spyrja hana hvort ég brygðist of hart við. Hverju ertu mögulega að koma áleiðis? En eftir á að að hyggja skil ég samhengið.“

Lestu viðtalið við Guðmund í heild sinni í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -