Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Það verður að opna umræðuna um sjálfsvíg

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birgitta Jónsdóttir komst í fréttir á dögunum þegar staðfest var að höfuðkúpa sem verið hafði í vörslu lögreglunnar síðan 1994 var af föður hennar, Jóni Ólafssyni, sem hvarf á aðfangadag 1987. Hvarf hans er þó engan veginn eina mannshvarfið sem snert hefur líf Birgittu djúpt, eiginmaður hennar, Charles Egill Hirst, hvarf 1993 og fannst ekki fyrr en fimm árum seinna og þegar hún var tólf ára hvarf föðursystir hennar. Hún hefur því sjálf upplifað hvað eftir annað hvernig aðstandendum horfins fólks líður og berst fyrir breytingum á þeim verkferlum sem farið er eftir í slíkum málum.

 

„Við erum ekki búin að fá líkamsleifar pabba,“ segir Birgitta spurð hvort búið sé að jarðsetja líkamsleifar föður hennar. „Það þarf að rannsaka eftir hefðbundnum leiðum hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Við vitum auðvitað að svo var ekki en þetta þarf að fylgja réttu ferli. Ég hugsa að við höfum jarðarförina ekki fyrr en í sumar þegar hann hefði orðið áttræður.“

Beðin að rifja upp daginn sem faðir hennar hvarf, aðfangadag 1987, segist Birgitta reyndar hafa skrifað mjög nákvæmlega um þann dag í bók sinni Dagbók kameljónsins. „Ég skrifaði um þetta allt saman í henni,“ útskýrir hún. „Á þessum tíma hélt ég dagbók og notaði brot úr henni í bókina. Mér fannst það mjög mikilvægt því það er enn þá rosalega lítið fjallað um sjálfsvíg. Það er enn dálítið tabú og því er alltaf borið við að ef maður tali um sjálfsvíg þá leiði það af sér aukna sjálfsvígstíðni. Ég held að það sé rangt. Það voru notuð svipuð rök varðandi barnaníð á sínum tíma og síðan þegar það komst loksins upp á yfirborðið var eins og það væri út um allt. Ég hef reynt mjög mikið að nota þessa lífsreynslu til þess að vekja athygli á þessum málaflokki en þegar bókin Dagbók kameljónsins kom út vildi svo óheppilega til að það var sama ár og bókin hennar Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, kom út og mér var hreinlega sagt það hjá fjölmiðlunum að það væri bara hægt að taka einn erfiðan málaflokk fyrir í einu.“

„ Það sem mér finnst kannski erfiðast í dag er að hafa vitað af höfuðkúpunni hans pabba í einhverri hillu í allan þennan tíma.“
Birgitta Jónsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Mjög óþægilegt þegar reynt er að gera hvarfið dularfullt

Spurð hvort hún hafi aldrei efast um að faðir hennar hafi svipt sig lífi sér segir Birgitta að á því hafi aldrei leikið nokkur vafi. „Það var alltaf augljóst og mér hefur fundist alveg ótrúlega ósmekklegt þegar fólk setur andlát hans í eitthvert dularfullt samhengi,“ segir hún. „Það var meira að segja reynt að gera það í nýrri bók um íslensk mannshvörf og ég bað um að það yrði leiðrétt, en það er enn látið líta svo út að það hafi verið eitthvað dularfullt við hvarf hans, sem er bara alls ekki rétt. Þessi umræða er mjög óþægileg. Það er alveg nógu erfitt að díla við sjálfsvíg sem aðstandandi þótt svona umræða sé ekki í gangi.“

Birgitta segir föður sinn ekki hafa skilið eftir kveðjubréf, enda hafi hann verið af þeirri kynslóð sem ekki flíkaði tilfinningum sínum. „Sjómenn á pabba aldri eru ekki mikið í því að skrifa um tilfinningar,“ segir hún og brosir. „Hann var mjög dulur með sína líðan og þegar hann kom ekki til baka eftir að hafa sagst ætla að fara með jólapakka til fólks, var það síðasta sem okkur datt í hug að hann hefði farið í sjálfsvígsleiðangur. Pabbi var reglumaður og skipti nánast aldrei skapi, var algjör klettur svo það hvarflaði ekki einu sinni að okkur að honum hefði liðið svona illa. Það var brjálað veður, bylur og erfitt að leita en þegar bíllinn fannst við Sogið nálægt Þrastarlundi kom í ljós að hann hafði farið úr jakkanum, tekið veskið sitt og úrið og sett í hanskahólfið og svo röktu hundar slóð hans niður að ánni, þannig að þetta lá ljóst fyrir frá upphafi. Það sem mér finnst kannski erfiðast í dag er að hafa vitað af höfuðkúpunni hans í einhverri hillu allan þennan tíma. Hún fannst 1994 og ef við hefðum getað lokið málinu fyrr hefði það breytt miklu. Tæknin til að komast að því hverjum höfuðkúpan tilheyrði hefur verið til staðar lengi og manni finnst mjög skrýtið að þetta hafi tekið svona langan tíma. Ég vona að það muni ekki gerast aftur hjá yfirvöldum að líkamsleifar séu geymdar svona lengi án þess að vera rannsakaðar.“

- Auglýsing -

Bergþóra Árnadóttir, móðir Birgittu, og Jón voru skilin þegar hann hvarf en voru góðir vinir og höfðu ákveðið að verja saman jólunum með börnum sínum tveimur í húsi afa og ömmu Birgittu í Hveragerði sem voru á ferðalagi. Þannig að þau þrjú gátu stutt hvert annað, en engin áfallahjálp var í boði.

„Bróðir minn sem var þá fimmtán ára bjó hjá pabba en hann hafði keyrt hann til okkar mömmu áður en hann fór sína síðustu ferð. Ég hef oft hugsað að líklega gerði hann þetta þennan dag vegna þess að hann vissi að við vorum öll saman,“ segir Birgitta. „Það var engin áfallahjálp fyrir fólk í þessum aðstæðum og er reyndar ekki enn í dag. Það þykir mér mjög undarlegt. Það er boðin áfallahjálp ef það veltur rúta með túristum en það er ekkert slíkt sett í gang þegar um mannshvörf er að ræða. Ég vona að þeir sem sjá um þennan málaflokk fari að sjá að það þarf að hafa frumkvæði að því að bjóða aðstandendum hjálp í þessari stöðu. Þeir þurfa stuðning, ekki bara á meðan þetta er að gerast heldur líka í framhaldinu, þegar leitinni er hætt og svo framvegis. Það er nefnilega alltaf einhver ólógísk von inni í manni um að skýringin á hvarfinu sé einhver önnur en dauði. Í heilan áratug eftir að pabbi hvarf var ég alltaf að sjá hann í einhverju öðru fólki og gekk á eftir einhverjum mönnum sem litu út eins og hann til að sjá hvort þetta væri kannski hann, þótt ég vissi að það væri algjörlega órökrétt. Þetta er bara svo djúpstæð von.“

„ Svona mál á ekki að þurfa að reka fyrir dómstólum, það hlýtur að vera hægt að finna einhverja aðra leið til að úrskurða einhvern látinn.“

Fékk enga viðurkenningu á láti eiginmannsins

- Auglýsing -

Annar kerfisgalli sem Birgittu er umhugað um að verði breytt er að aðstandendur þurfa að fara fyrir dómstóla og færa sönnur á að viðkomandi sé látinn. „Lögin eru enn þá dálítið sniðin að þeim tíma þegar það var mjög algengt að sjómenn hyrfu úti á sjó,“ segir hún. „Og í dag er það enn þá þannig að hálfu ári eftir að viðkomandi hverfur þurfa aðstandendur að sækja mál þar sem þeir sýna fram á að aðstandandi þeirra sé látinn. Sönnunarbyrðin er öll á þeim og þeir þurfa að afla sér gagna frá lögreglu, eða einhverri slíkri stofnun sem sannar að farið hafi fram leit og svo framvegis. Það er bara hræðileg upplifun. Í fyrsta lagi langar mann ekki að þurfa að færa sönnur á að viðkomandi sé látinn, það er mjög erfið reynsla og mér finnst fullkomlega óeðlilegt að færa sönnunarbyrðina yfir á aðstandendur á þennan hátt. Svona mál á ekki að þurfa að reka fyrir dómstólum, það hlýtur að vera hægt að finna einhverja aðra leið til að úrskurða einhvern látinn, án þess að setja það þannig upp að aðstandendur óski þess. En þetta verður maður að gera því annars fær maður engin réttindi, maður getur ekki gert upp dánarbúið, fær engar bætur og getur ekkert gert.“

Hér leiðum við talið að öðru hvarfi náins ástvinar Birgittu, þegar eiginmaður hennar, Charles Egill Hirst, hvarf á Snæfellsnesi sumarið 1993.

„Þegar maðurinn minn heitinn hvarf var ég með lítið barn og ég átti ekki rétt á hans barnabótum, eða leikskólaplássi sem einstætt foreldri eða ekkja fyrr en ég gat farið með málið fyrir dómstóla. Það er bara algjörlega óboðleg staða fyrir unga konu í þessum aðstæðum.“

Charles Egill fannst ekki fyrr en fimm árum eftir að hann hvarf og Birgitta segir að þótt hún hafi vitað að hann hefði svipt sig lífi þar sem hann hafi skilið eftir skilaboð hafi sá tími verið mjög erfiður bæði fyrir hana og son hennar. „Sem betur fer fannst hann,“ segir hún. „Það er alveg hræðilegt að fara í gegnum svona tímabil svona lengi, sérstaklega fyrir börn. Og þegar Kalli fannst fór ég líka að geta unnið í sjálfri mér varðandi hvarf pabba. Ég var auðvitað mjög ung, tvítug þegar pabbi hvarf og tuttugu og fimm ára þegar maðurinn minn hvarf og kunni ekkert að takast á við þetta.“

Leitin að Charles Agli var stærsta leit Íslandssögunnar og Birgitta segir að eftir hana hafi verkreglum um slíkar leitir verið breytt. „Hann fannst rétt fyrir utan svæðið þar sem leitað hafði verið,“ útskýrir hún. „En ekki fyrr en fimm árum síðar. Það var reyndar þriðja mannshvarfið sem ég upplifði því þegar ég var tólf ára hvarf systir hans pabba. Hún og kærastinn hennar voru í bíltúr í Þorlákshöfn og hurfu en síðar kom í ljós að bíllinn hafði fokið út í höfnina í hálku og roki. Þau voru bæði mjög ung og alveg yndislegt fólk. Leitin að þeim tók nokkra daga en við mamma vorum nýfluttar í bæinn og ekki með síma þannig að við vissum ekki af þessu. En akkúrat á þeim tíma sem hún hvarf fékk mamma óskaplega sterka tilfinningu fyrir því að hún yrði að semja lag og úr því varð lagið Veistu að þinn vinur er að deyja?“

„Það er boðin áfallahjálp ef það veltur rúta með túristum en það er ekkert slíkt sett í gang þegar um mannshvörf er að ræða.“

Fengu enga áfallahjálp, bara svefnpillur

Birgitta segist alltaf finna fyrir mjög sterkri samkennd með fólki sem sé að ganga í gegnum það sama og hún hefur gert og hún segir lærdóminn sem hún hafi dregið af sinni reynslu vera þann að það sé hægt að funkera í mikilli óvissu. „Það er mjög mikilvægur lærdómur því það eru alltaf að koma upp einhverjar krísur í lífinu,“ segir hún. „Sá eiginleiki að geta verið klettur fyrir aðra í slíkum krísum er mjög mikilvægur og ég náði að þróa hann með mér í gegnum öll þessi áföll. Ég fékk náttúrlega aldrei neina áfallahjálp, það eina sem við systkinin og mamma fengum þegar pabbi hvarf voru svefnpillur. Ég vil nota tækifærið og skora á þá sem stjórna þessum málaflokki að búa til nýjar verklagsreglur, bæði fyrir aðstandendur þeirra sem hverfa og aðstandendur þeirra sem fremja sjálfsvíg. Vegna þess að það að glíma við sjálfsvíg ástvinar er öðruvísi en allt annað. Ég hef upplifað mörg andlát í lífinu og hef oft sagt við vini mína að ég sé með svarta beltið í dauðanum þannig að ég veit hver munurinn er. Ég er samt þakklát fyrir að hafa fengið að læra hvernig maður vinnur úr því fyrir fertugt því þegar maður eldist hverfa alltaf úr lífinu fleiri og fleiri af þeim sem maður elskar og lítur upp til.“

Birgitta hefur lengi barist fyrir breytingum á verkferlum varðandi mannshvörf og sjálfsvíg en alltaf talað fyrir daufum eyrum. Hverju vill hún helst breyta? „Mér finnst að það þurfi að vera eitthvert ákveðið prógramm sem fer í gang þegar ástvinir hverfa eða fyrirfara sér. Nú erum við komin með þetta stórkostlega hús, Pieta-húsið, þangað sem bæði þeir sem eru í sjálfsvígshugleiðingum og aðstandendur geta leitað sér aðstoðar og mér finnst að lögreglan eigi að láta fólk vita að það geti leitað þangað ef einhver fellur frá á þennan hátt. Það er svo erfitt að leita sér hjálpar, sérstaklega þegar fólk er í því limbói að vita ekki um afdrif náins ættingja eða vinar. Á þeim tíma er fólk í svo miklu áfalli að það er ekki fært um að sækja sér faglega hjálp. Auðvitað vilja sumir fá til sín prest, en alls ekki allir. Stundum er aðkoman eftir sjálfsvíg ólýsanlega hræðileg og fólk er bara skilið eftir til að þrífa það upp sjálft. Þetta er veruleiki sem enginn vill tala um en þarf að tala um og kippa í lag. Ég hef verið að reyna að vekja athygli á þessu mjög lengi og benda á að það þurfi að gera eitthvað, en þetta breytist ekkert. Það gæti til dæmis verið sniðugt að Rauði krossinn og Pieta-húsið myndu útbúa bækling fyrir lögregluna, sem auðvitað er oftast fyrst á vettvang, til að útdeila til aðstandandenda svo þeir viti hvert þeir geta snúið sér. Og lögreglan ætti líka að hafa samband við einhvern sérfræðing í áföllum sem gæti síðan aðstoðað aðstandendur. Þetta er ekkert flókið. Svo þarf augljóslega líka að breyta þessum lögum um horfna menn því að þeir sem standa frammi fyrir því að ástvinur er horfinn eru yfirleitt ekki í neinum baráttuhug og tilbúnir að berjast fyrir því að breyta kerfinu. Það verða aðrir að gera.“

Birgitta segir líka nauðsynlegt að opna á umræðu um sjálfsvíg, það sé óásættanlegt að sú umræða sé tabú enn þá. „Ég hef alltaf talað hreinskilnislega um þetta,“ segir hún. „Ég er leiðinlega týpan sem er allt í einu farin að tala um sjálfsvíg í kokteilboðum. Það talar enginn um þetta en nánast alltaf þegar ég tala um þetta kemur í ljós að sá eða sú sem ég er að tala við hefur átt einhverja ástvini sem hafa framið sjálfsvíg en það hefur verið falið. Enn er sem sagt ekki samfélagslega samþykkt að tala um þessa hluti og það bara gengur alls ekki lengur. Við verðum að hjálpast að við að breyta því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -