Komið er á daginn að enski körfuboltamaðurinn Callum Lawson mun eigi leika með Tindastóli á komandi leiktíð í Bónusdeild karla.
Staðfestir leikmaðurinn þetta á samfélagsmiðlum nú um helgina, en þetta kom fyrst fram á karfan.is.
Lawson – sem er 28 ára gamall framherji – kom til Íslands til að leika fyrir Keflavík árið 2020; síðan þá hefur kappinn leikið fyrir Þór Þorlákshöfn, Val og nú síðast Tindastól.
Lawson var árin 2021 og 2022 afar mikilvægur hlekkur í Íslandsmeistaraliðum Þórs og Vals.
Fyrir síðustu leiktíð samdi hann við Tindastól á Sauðárkróki; með liðinu fór hann í úrslitaleik bikarkeppninnar og átta liða úrslit úrslitakeppninnar.
Lawson tekur ekki fram hvert förinni skuli heitið næst, en ljóst er að mörg lið munu sækjast eftir kröftum hans.
Í færslu á Instagram þakkar Lawson fyrir allan stuðninginn er hann fékk með Tindastóli á síðustu leiktíð og segist hann ævinlega þakklátur fyrir þennan tíma.