Sunnudagur 12. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Þakkar guði fyrir að hafa fundið barnið sitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mýmörg dæmi eru um að börn yfirgefi frístundaheimili án þess að umsjónarfólk veiti því eftirtekt. Foreldrar segja að þjónustan veiti falskt öryggi.

Í síðustu viku var auglýst eftir tveimur drengjum, sjö og átta ára, sem ekkert hafði spurst til í nokkrar klukkustundir. Annar drengurinn hafði yfirgefið frístundaheimilið í skólanum sínum án leyfis og var foreldri gert viðvart þegar hvarfið uppgötvaðist. Drengirnir fundust, fimm klukkustundum síðar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir að lögð sé áhersla á að hafa góða yfirsýn yfir barnahópinn. Byggðir hafi verið upp verkferlar í kringum skil skóladags og upphaf frístundastarfs, innan frístundatímans, frá frístund og á íþróttaæfingar og svo um heimferðir. „Vissulega koma upp tilvik þar sem barn skilar sér ekki í frístund og eru skýringarnar margvíslegar. Í þessum fáu tilvikum er sjaldgæft að barnið finnist ekki innan stundar. Í öllum tilvikum er staðan rýnd, hvað fór úrskeiðis og hvernig megi koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig,“ segir Helgi þegar hann er spurður út í stöðu þessa mála hjá Reykjavíkurborg.

„Enginn af starfsmönnunum hafði gert sér grein fyrir hvarfi barnsins, hvað þá hversu langur tími hafði liðið frá því barnið fór.“

Sími um hálsinn öruggari en vistun
Miklar umræður spunnust um börn á frístundaheimilum í kjölfar þessarar fréttar og í ljós kom að foreldrar í Kópavogi eru síður en svo ánægðir með þjónustu bæjarfélagsins í frístundamálum. „Þegar dóttir mín var í fyrsta bekk og vistuð á frístundaheimili eftir skóla kom það margoft fyrir að ég fékk símtöl frá nágrannakonu minni sem var í fæðingarorlofi, þess efnis að dóttir mín væri heima hjá henni með dóttur hennar, hvort það væri með mínu leyfi,“ segir móðir í Kópavogi. „Mér brá auðvitað því ég taldi mig vera að borga fyrir þjónustu sem reyndist vera falskt öryggi. Ef þessi móðir hefði ekki verið heima veit ég ekki hvar barnið mitt hefði endað, síma- og lyklalaust og enginn starfsmaður sem veitti því neina eftirtekt hvort hún væri á staðnum eða ekki. Auk þess að fá endurtekin símtöl frá móðurinni í fæðingarorlofinu kom líka fyrir að ég mætti í skólann til að sækja dóttur mína sem var þá einfaldlega ekki á staðnum. Enginn af starfsmönnunum hafði gert sér grein fyrir hvarfi barnsins, hvað þá hversu langur tími hafði liðið frá því barnið fór. Þá höfðu vinkonurnar ýmist farið í ævintýraferðir, heimsótt vinkonur sem voru eftirlitslausar heima eða einfaldlega gleymt stað og stund í útivist og ekki verið sóttar inn af eftirlitsaðilum. Það sem olli mér hvað mestum vonbrigðum voru viðbrögð starfsfólksins sem reyndi ekki einu sinni að þykjast kannast við nafnið á barninu mínu. Það tekst illa að manna þessar stöður og því er hægt að ráða hvern sem er til þess að sinna því sem ætti að vera ábyrgðarhlutverk en er síður en svo litið slíkum augum.“

Konan segir að lítið hafi lagast þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir og á endanum hafi hún skráð barnið úr frístundaheimilinu. „Í framhaldinu fékk barnið takkasíma og var skráð úr dægradvöl, ég áleit öryggi hennar vera meira heimafyrir en þarna. Sömu sögu er að segja af minnst sex vinkonum hennar sem ég veit um.“

Önnur móðir í Kópavogi sem Mannlíf ræddi við hafði svipaða sögu að segja. Eitt sinn hafi hún farið að sækja barn sitt á frístundaheimili en þá hafi það ekki verið á staðnum og enginn vitað hvar það var niðurkomið. Eftir smáspjall hafi komið í ljós að barnið hafi í nokkur skipti ekki mætt í frístund eftir skóla en enginn hafi haft fyrir því að láta foreldrana vita. „Ég varð svo hissa og svo reið. Svona myndi aldrei gerast í heimalandi mínu, Litháen, þar sem öryggi barna er alltaf í fyrsta sæti og faglært fólk sem hugsar um börnin. Ég þakka bara guði fyrir að hafa fundið barnið mitt heima hjá bekkjarsystkini eftir stutta leit,“ segir hún en vert er að taka fram að ekkert af foreldrunum sem Mannlíf ræddi við vildi koma fram undir nafni að ótta við að það kynni að bitna á börnum þeirra eða yngri systkinum sem ættu jafnvel eftir að þurfa á þjónustunni að halda.

„Við þekkjum dæmi þess að börn hafi farið heim án þess að láta vita af sér.“

Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segist ekki vita til þess að börn hafi farið ítrekað úr frístundaheimilum bæjarins án þess að umsjónarfólk veitti því eftirtekt eða léti foreldra viðkomandi vita. „Við þekkjum dæmi þess að börn hafi farið heim án þess að láta vita af sér. En það er samkvæmt okkar vitneskju afar sjaldgæft og litið mjög alvarlegum augum. Frístundaheimili grunnskóla í Kópavogi starfa samkvæmt stefnumörkun sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Einnig hefur verið gefin út Handbók frístundastarfs sem er ætlað að vera leiðbeinandi og upplýsandi fyrir forstöðumenn og starfsfólk. Þá hafa öryggisferlar verið sérstaklega útfærðir en í þeim er sérstaklega fjallað um hvernig bregðast á við ef barn mætir ekki eða týnist,“ segir Sigríður Björg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -