Elín Richter, Sindri Bjarkason og Amíra Snærós Jabali ásamt skólasystkinum þeirra berjast nú fyrir því að skólasystur þeirra, Zainab Safari, og fjölskyldu hennar, verði ekki vísað úr landi. Fjölskyldan þráir að setjast hér að eftir líf á flótta en von hennar um mannsæmandi líf fer ört þverrandi.
Elín, Sindri og Amíara ásamt Zainab eru í forsíðuviðtali Mannlífs sem kemur út í fyrramálið.
Zainab, móðir hennar og bróðir komu til Íslands síðastliðið haust en faðir hennar er týndur á götum Grikklands eftir að hafa glímt við alvarlegt þunglyndi um skeið en í raun er ekkert vitað um afdrif hans.
Í viðtalinu segja Elín, Sindri og Amíara frá því hvaða áhrif það hafi á þau að hlusta á sögu skólasystur sinnar. Amíra Snærós segir að óneitanlega geri þetta þau döpur. „Það gerir okkur leið að hún hafi þurft að ganga í gegnum þetta og í raun að nokkurt barn þurfi að þola það sem hún og bróðir hennar hafa mátt þola.“
Það gerir okkur leið að hún hafi þurft að ganga í gegnum þetta.
Þegar Zainab eru spurð út í hennar upplifun af Íslandi segir hún að hér hafi henni strax liðið vel. „Hér er friður. Friður eins og ég hef aldrei upplifað áður. Mér finnst líka vera fallegt hérna og að fólkið sé hamingjusamt vegna þess að það brosir og er vinalegt.“
Aðspurð um íslensku krakkana stendur ekki á svari. „Þau eru góð,“ og svo hlæja þau öll eins og að annað svar hefði verið útilokað. „Ég var auðvitað feimin við þau fyrst en mér hefur verið vel tekið. Þau eru heppin að fá að búa hérna í þessu landi, finnst mér.“
Lestu viðtalið við Zainab í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.
Mynd / Aldís Pálsdóttir