Bandaríski leikarinn Moses J. Moseley, fannst látinn í bifreið sinni í Stockbridge í Georgíuríki í Bandaríkjunum síðastliðinn miðvikudag. Er hann hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í uppvakningaþáttunum vinsælu, The Walking Dead. Grunur leikur á að hann hafi svipt sig lífi með skotvopni.
Fréttavefurinn TMZ greinir frá þessu.
Moseley var ekki stórstjarna en var duglegur að koma sér fram í hinum ýmsu þáttum. Lék hann meðal annars í nokkrum þáttum The Walking Dead þar sem hann var í hlutverki uppvaknings sem ein af aðal söguhetjum þáttanna og eðaltöffaranum Michonne, notaði sem hálfgert gæludýr. Moseley hóf leiklistaferilin árið 2009 en lék að mestu í hryllingsmyndum og þáttum.
„Allir elskuðu Moses. Hann elskaði aðdáendur sína líkt og eigin fjölskyldu og vini og var alltaf spenntur fyrir því að komast í prufur og fá hlutverk. Hann var þannig maður að það var alltaf hægt að hringja í hann ef maður þurfti að tala. Margir munu sakna hans innilega, fjölskylda hans, vinir og samstarfsfólk,“ segir Tabitha Michew, umboðsmaður leikarans.