Glúmur Baldvinsson segir að það sé „alkunna að ég forðast að gagnrýna fólk. Persónur og gerendur. Og jafnvel leikendur.“
Bætir við:
„Ástæðan fyrir þessu drenglyndi mínu er sú að ég hef svo stóra samvisku og hlýja áru einsog Þórhildur Sunna þekkir manna best. Þess vegna get ég ekki fengið mig til að segja hvað mér leiðist Gísli Marteinn og flestir hans þættir. Nánast allir. Svo ég ætla bara að finna að einu.
Einu sinni fyrir langa löngu sem námsmaður var ég á ferð í Mílanó og gekk framhjá Giorgio Armani verzlun. Í glugganum voru brúnir uppháir leðurskór. Og ég varð ástfanginn við fyrstu sýn. Og keypti þá þrátt fyrir að eiga ekki fyrir þeim. En ég átti kreditkort. Svo það reddaðist. Reyndar endaði reikningurinn hjá afa. En það er önnur saga.“
Heldur áfram:
„Og svo bara stillti ég þessum skóm upp á borð og opnaði rauðvínsflösku og starði á skóna agndofa af ást. Mér datt ekki í hug að ganga í svo fögrum skóm í hálft ár. En svo kom ég heim og reimaði loksins þessa skó um fætur mér og mætti í þessum skóm í jólaboð hjá afa og ömmu í Sörlaskjóli eitt. Klukkan var orðin sex síðdegis. Afi sá skóna og sagði: Glúmur minn. Við klæðumst ekki brúnum skóm eftir klukkan sex. Eftir þann tíma þurfa þeir að vera svartir. Þar lærði ég þá lexíu. Og hef fylgt henni síðan.“
Segir að endingu:
„Því spyr ég af hverju klæðist Gísli Marteinn ítrekað brúnum leðurskóm um hákvöld? Slíkt er ekki við hæfi og slíkt þarf að stöðva. Menn verða í slíkri stöðu að hafa amk lágmarks sjálfsvirðingu. Þetta er mín eina og síðasta gagnrýni á GM. Svart eftir sex.“