Júníus Meyvant hefur mörg járn í eldinum þessa dagana. Ný plata, Across the Borders, kemur út í dag og svo eru það tónleikar hér á landi í lok janúar og byrjun febrúar. Hann leggur síðan af stað í tónleikaferð um Evrópu í febrúar. Þá er Júníus kominn með útgefanda í Bandaríkjunum.
„Nýja platan heitir Across the Borders. Það er vísun í að við erum alltaf að leita að nýjum landamærum tengdum því sem við gerum í lífinu og síðan er þetta vísun í þá sem reyna virkilega bókstaflega að leita að nýjum landamærum til að komast á betri stað en geta það ekki. Oft erum við þannig gerð að við búum til landamæri sem er tengt mannlegu eðli. Við erum hrædd við breytingar og okkur líður vel í sama fari en maður þarf stundum að breyta til til að þroskast,“ byrjar Júníus Meyvant á að útskýra fyrir blaðamanni.
Júníus mun spila og syngja lög af nýju plötunni á tónleikum í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ í lok janúar og í byrjun febrúar. „Þetta verða eiginlega allt ný lög. Síðan reyni ég alltaf að segja sögur í kringum lögin; mér finnst svo gaman að sögum og ég reyni að hafa þetta aðeins persónulegra en ella í stað þess að bara spila og syngja og hneigja mig síðan.“
Eftir það mun hann halda ásamt hljómsveit sinni til Evrópu í febrúar þar sem hann kemur fram í ýmsum löndum. „Tónleikaferðir eru þannig að ég fer þá í rosa rútínu. Þá er eins og ég fari í nokkurs konar vinnubúðir. Ég fer alltaf mjög snemma að sofa en ég passa svefninn því annars fer röddin í klessu. Ég sleppi öllu nammiáti því að nammiát fer illa með röddina og passa mig líka á að þegja eftir klukkan 10 á kvöldin. Það er ýmislegt sem ég leyfi mér ekki á tónleikaferðum.“
Nýr útgáfusamningur
Júníus er á mála hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Record Records sem sér um útgáfumál hans hér á landi og í Evrópu. Hann gerði svo í vetur útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu nýju plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfufyrirtækið leggur áherslu á.
„Þessi samningur þýðir að við erum komin með bakhjarl inn í Bandaríkin sem er mjög erfiður markaður en við erum hjá þeim í „publishing-deildinni“ sem sér um að koma lögum mínum á framfæri í kvikmyndir og auglýsingar. Við erum einnig komin með fleiri til að vinna að mínum málum. Ég er með umboðsmann og tvö bókunarfyrirtæki (booking agencies) hér og þar en stundum þyrfti maður í rauninni 10 umboðsmenn. Þetta er allt spurning um hvern maður hefur á bak við sig. Það er hægt að vera með rosa gott efni en það gerist ekki neitt ef maður er ekki með rétt fólk. Ég er þess vegna mjög heppinn og líka það að hafa fengið samning kominn á þennan aldur, en ég er 36 ára, en það er ekki sjálfgefið því að þetta er oft „youth before talent“-veröld.“
Stóð á krossgötum
Júníus býr ásamt eiginkonu sinni, tveimur börnunum og hundinum Prinsi, sem hann kallar Skúla, í Vestmannaeyjum. „Við erum nýbúin að kaupa þar hús,“ segir Júníus en hann ólst upp í Vestmannaeyjum og vann lengi sem leiðsögumaður í ferðaþjónustufyrirtæki foreldra sinna í Eyjum.
Júníus, sem heitir annars Unnar Gísli Sigurmundsson, segist hafa valið lisamannsafnið Júníus Meyvant fyrir níu árum eða um það leyti sem sonur hans fæddist. „Ég stóð þá á krossgötum og var í hljómsveit sem hét Jack London. Ég var að fletta nafnabók, Hvað á barnið að heita?, og sá nafnið Júníus. Mér hefur alltaf þótt Meyvant vera fallegt og sterkt nafn og einhvern veginn fór þetta vel saman: Júníus Meyvant. Ég fór að hugsa um hvort ég ætti að láta son minn heita þessu nafni en ég var hins vegar löngu búinn að ákveða að láta hann heita í höfuðið á pabba mínum. Þannig varð þetta til. Ég vildi listamannsnafn sem myndi virka bæði heima og í útlöndum. Það er erfitt fyrir útlendinga að segja Unnar Gísli Sigurmundsson. Tungan fer í eitthvað flipp.“