Beiðnum um aðstoð vegna kostnaðar við fermingar barna fer ekki fjölgandi, að sögn forsvarskvenna Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar, en leitað er leiða til að gera aðstoðina fjölbreyttari og umhverfisvænni. Þær segjast þó merkja að fólk hafi minni fjárráð nú en undanfarin ár.
„Við höfum verið að reyna að fá fólk til að stíga aðeins út fyrir rammann og minnka kostnað og sóun í fermingarveisluhaldi,“ útskýrir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. „Fermingarföt eru til dæmis mjög oft notuð bara einu sinni, sérstaklega af strákunum, og við erum með mikið af nánast ónotuðum jakkafötum sem henta fermingardrengjum og fólk getur fengið hjá okkur. Sömu sögu er að segja af því skrauti sem notað er í fermingarveislum, það er bara nýtt þennan eina dag og aldrei meir. Það færist stöðugt í vöxt að fólk komi með skrautið til okkar strax eftir ferminguna og við bjóðum öðrum sem halda þurfa fermingarveislur að koma og velja sér það skraut sem þeim hentar. Þannig reynum við að vekja fólk til meiri meðvitundar um endurnýtingu og minnka sóunina sem oft fylgir svona veislum.“
Sjálfsmynd fátækasta fólksins skekkt
Vilborg útskýrir að Hjálparstarf kirkjunnar aðstoði fólk á þeim stöðum þar sem Mærastyrksnefnd er ekki með starfsemi, oft í samstarfi við Kvenfélög á stöðunum, Rauða krossinn og prestana sem vísi fólki, sem á í fjárhagserfiðleikum, til Hjálparstarfsins. Hún segir beiðnum um aðstoð vegna ferminga ekki fara fjölgandi, þær hafi nokkurn veginn staðið í stað í nokkur ár og felist til dæmis í fatagjöfum, inneignarkortum í matvöruverslunum eða inneignarkortum í fataverslunum. Hún segir Hjálparstarfið kappkosta að aðstoða alla sem til þess leita, en þeir sem illa séu staddir fjárhagslega kynoki sér oft við því að leita hjálpar.
„Annað sem einkennir þá sem minnst hafa milli handanna er að þeir eru hræddir við að stíga út fyrir hefðbundinn ramma fermingarhalds, þeir vilja hafa allt samkvæmt hefðinni; áprentaðar servíettur, áprentuð kerti, allt í litasjatteringum og svo framvegis. Sjálfsmynd þeirra er svo skekkt að þeim finnst þeir ekki vera að standa sig í stykkinu ef þeir fara út fyrir þann ramma. Okkur sem höfum það gott og erum öruggari með stöðu okkar finnst ekkert mál að brjóta reglurnar, nota ósamstæðar servéttur og venjuleg kerti, til dæmis, en það gengur hægt hjá okkur að fá fátækasta fólkið til að samþykkja að það sé möguleiki.“
Nýjum Íslendingum fjölgar mest
Spurð hvort það sé hennar tilfinning að fleiri í samfélaginu hafi úr litlu að spila segir Vilborg að samkvæmt hennar reynslu af hjálparstarfinu séu það fyrst og fremst nýir Íslendingar sem búi við skarðan hlut.
„Margt af því fólki fær ekki menntun sína metna hér og fær því lægst launuðu störfin, verður að leigja sér húsnæði með himinhárri leigu, annars fær það ekkert húsnæði og svo framvegis,“ útskýrir hún. „Við þurfum að fara að vinna betur í því hvernig við tökum á móti nýjum Íslendingum og hvernig við búum að þeim hér.“
Greinilegt að fólk hefur úr minna að spila
Anna Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík, tekur í sama streng og Vilborg varðandi fjölda beiðna, tekur reyndar fram að beiðnirnar í ár séu ekki allar komnar, en þetta líti út fyrir að verða svipaður fjöldi og undanfarin ár, um það bil þrjátíu beiðnir.
„Það hefur lítið breyst þessi síðustu ár,“ segir hún. „Fyrir nokkrum árum voru beiðnirnar fimmtíu eitt árið, en annars hefur fjöldinn haldist nokkuð stöðugur. Langsamlega flestir sem til okkar leita um fjárhagsaðstoð við fermingarhald er fólk sem fær aðra styrki hjá okkur, það kemur nánast varla fyrir að einhver leiti til okkar um aðstoð eingöngu vegna fermingar.“
Þrátt fyrir að fjöldi þeirra sem leitar til Mærastyrksnefndar haldist nokkuð stöðugur segist Anna greinilega merkja að fólk hafi minni fjárráð nú en undanfarin ár.
„Já, það er alveg greinilegt að fólk hefur úr minna að spila,“ segir hún. „Það gerist alltaf þegar það er niðursveifla í hagkerfinu, slíkt hefur ævinlega mest áhrif á þá sem minnst hafa.“