Af þeim 927 sýnum sem rannsökuð voru við landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli í gær reyndust tvö sýni jákvæð af COVID-19. Þeir smituðu voru að koma frá Kaupmannahöfn.
Annar þeirra smituðu er erlendur ríkisborgari, hinn er Íslendingur og er ekki mikið veikur að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis.
Þórólfur minnti á að „hættan væri rétt handan við hornið“ á upplýsingafundi nú síðdegis. Hann minnti á að fólk ætti ekki að faðma vini og fjölskyldumeðlimi við komuna til landsins. Hann ráðleggur fólki að bíða með að faðma fólk þar til niðurstöður skimunar hafa skilað sér.
Víðir Reynisson tók undir og biður fólk um að haga sér eins og það sé smitað þar til annað kemur í ljós í niðurstöðum skimunar.
Hann sagði þessi tvö smit sýna mikilvægi þess að skima þá sem koma til landsins á Keflavíkurflugvelli.
Sjö staðfest virk smit eru í samfélaginu.