Þóra Karítas Árnadóttir fór í fyrra í ferð til Malaví á vegum UN Women og tók þar viðtöl við brúðir á barnsaldri. Hún segir sögur um þvinguð hjónabönd og kynferðisofbeldið sem þeim fylgir eiga erindi við íslenskan nútímaveruleika.
„Að mínu mati þurfa þessar sögur að heyrast og því miður eiga þessar sögur aðrar birtingarmyndir hér heima,“ segir hún ákveðin.
„Bókaskrifin um mömmu voru í raun undirbúningur fyrir þessi viðtöl en sögurnar hérna heima eru meira faldar á bak við veggi á meðan í Malaví tilheyrir þetta úreltum hefðum sem hafa viðgengist þar til nú. Þannig er þetta bæði tækifæri til að hlusta og líka líta í eigin barm, spegla okkar menningu og hugsa upp leiðir til að hlúa betur að fólkinu okkar á öllum aldri sem glímir við mismunandi áskoranir. Það er dýrmætt að hafa fengið að vera hlekkur í þessari keðju sem miðar að því að búa til farveg fyrir rödd kvenna og miðla sögum þeirra í því skyni að styrkja fólk og hvetja, hlúa að því svo það viti að það sé ekki eitt í heiminum og að fólki standi ekki á sama heldur vilji hlusta og breyta því sem breyta þarf. Það hefur til dæmis skipt sköpum í Malaví að yfirvöld þar á svæðinu í samvinnu við UN Women náðu í gegn lagabreytingu árið 2017, þegar lögræðis- og þar með giftingaraldur var hækkaður í 18 ár, og síðan þá er hægt að rifta þvinguðum barnahjónaböndum með markvissum hætti og koma í veg fyrir þau með einföldum upplýsingum um að þau séu ólögleg.“
„Það er dýrmætt að hafa fengið að vera hlekkur í þessari keðju…“
Þóra Karitas viðurkennir að þessi vinna hafi tekið mikið á, það hafi fallið mörg tár og oft hafi hún þurft að fara afsíðis og púsla sér saman eftir að viðtölunum lauk.
„Stúlkurnar sem við töluðum við áttu ótrúlega ólíkar sögur en allar voru þær magnaðar og erfiðast fannst mér að sjá þegar menningin hélt þeim augljóslega niðri og taldi þeim trú um að þær væru bannfærðar og voru jafnvel útskúfaðar eða lagðar í einelti vegna einhvers sem hafði hent þær,“ segir hún og það er auðheyrt að þetta málefni brennur á henni.
„Þá er ég til að mynda að hugsa um stelpu sem fékk fistil eftir hrikalega erfiða barnsfæðingu og hún var útskúfuð og þótti óhrein í augum þorpsins en fyrir tilstilli bróður hennar sem hafði heyrt fræðslu UN Women um að fistill væri læknisfræðilegt fyrirbæri var henni komið til aðstoðar og þar með var heilt þorp menntað í leiðinni.
Lestu viðtalið við Þóru í nýjasta Mannlífi.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Yves Saint Laurent á Íslandi