Laugardagur 4. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

„Þessi gómsæta geirablanda hefur allt sem nördahjarta mitt þráir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tómas Valgeirsson blaðamaður er einn helsti áhugamaður landsins um sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Hér segir hann frá þremur þáttaröðum sem tilvalið er að horfa á í hámi.

Stranger Things 3

„Sem einfaldur nörd með einfaldar þarfir sver ég mig algjörlega í ætt við popúlismann í þessu tilfelli. Ég set þó þriðju seríu Stranger Things á þennan lista af þeirri einföldu ástæðu að ég rúllaði í gegnum hana alla án þess að huga að pissupásum eða persónulegri geðheilsu. Þessi gómsæta geirablanda hefur allt sem nördahjarta mitt þráir á góðum degi; skemmtilegan hasar, flottan stíl, nostalgíublæti í æð en umfram allt persónur sem mér stóð ekki á sama um. Aðstandendur verða öruggari með hverri lotu, sömuleiðis krakkarnir og nýju viðbæturnar í persónuflóruna sem eru engum líkar (hvort sem þær heita Smirnoff eða Robin í dýnamískri túlkun Mayu Hawke). Vinsæla skoðunin er að segja að fyrsta serían sé alltaf sú besta (eða eina góða … það er líka vinsælt) en þriðja finnst mér bera svo makalaust af þeim þremur sem komnar eru og ég skal glaður háma hana í mig aftur. Vonandi græt ég þá aðeins minna.“

Pride and Prejudice

„Ég álit mig vera mjúkan mann og einhverra hluta vegna kemur þessi dásamlega BBC-sería upp í kollinn þegar ég hugsa um eitthvað sem hefur náð til mín í langri bunu. Því miður get ég ekki kallað mig nógu menningarlegan til að geta sagst hafa lesið bókina (þótt ég hafi á sínum tíma lesið Pride and Prejudice and Zombies) en ég hef séð flestar gerðir af aðlögunum á henni og get ómögulega ímyndað mér betur heppnaðri útgáfu. Jennifer Ehle er gjörsamlega meiri háttar sem Elizabeth Bennet og það er gild ástæða fyrir því að Colin Firth hlaut þann sjarmastimpil sem lengi hefur fylgt honum. Hann gæddi herra Darcy svo miklu lífi að ekki kom annað til greina fyrir hann en að halda rútínunni gangandi þegar kom seinna meir að hlutverkinu í Bridget Jones sem fékk sinn innblástur frá nafna hans, Darcy í boði Jane Austen. Þættirnir eru aðeins sex en allir þeir sem eru bæði rómantískir, og kunna að meta vænan skammt af vönduðu búningadrama, hafa ekki gert sér greiða ef þessi þáttaröð hefur ekki enn ratað í tækið.“

- Auglýsing -

Spaced

„Yfirleitt þegar maður hugsar til þess að hámhorfa á sjónvarpsseríu er þráður sem heldur manni límdum. Bresku þættirnir Spaced eru beinlínis ekki þannig en þeir búa yfir stórskemmtilegum sjarma sem fær undirritaðan hverju sinni til að hugsa: Æ, einn í viðbót … Þættirnir marka fyrsta samstarf leikaranna Simons Pegg og Nicks Frost við leikstjórann Edgar Wright, sem seinna fór á flug með Cornetto-þríleik sínum ásamt Baby Driver og Scott Pilgrim. Það er fjöldinn allur af litlum bröndurum og augnablikum sem endurtekið áhorf býður upp á og þótt þættirnir taki sig sjaldan alvarlega, er heilmikið komið inn á sannleikann sem fylgir krökkum í fullorðinslíki og erfiðinu við það að axla ábyrgð í þessu lífi. Spaced er morandi í stórskemmtilegum persónum, líflegri tónlist og húmor sem bæði hlær að nördum og með þeim. Burtséð frá meintu hámgildi þáttanna er þessi litli breski fjársjóður ómetanlegur á flestan máta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -