Það var síðdegis í gær þegar lögregla var kölluð út á hótel í hverfi 108 til þess að vísa óvelkomnu pari út. Aðgerð lögreglu gekk vel og hélt parið leiðar sinnar. Síðar um daginn þurfti lögregla að vísa öðrum óvelkomnum aðila út, að þessu sinni út heimahúsi í Vesturbænum.
Krakkar voru í háskaleik á Tjörninni í miðbænum í gær þar sem þau léku sér á ís. Lögregla hafði afskipti af þeim og veitti tiltal. Í sama hverfi var manni með skurð á hendi veitt viðeigandi aðstoð. Í Hafnarfirði skullu tveir bílar saman á hringtorgi. Lögregla kom á vettvang en sem betur fer slasaðist enginn. Athugull íbúi í Breiðholti hafði samband við lögreglu eftir að hann vitni að manni sem gekk á milli bíla og reyndi að opna þá. Þegar lögregla mætti á vettvang var dularfulli maðurinn í bak og burt.