Victoria’s Secret-fyrirsætan Bridget Malcom, sem hefur einnig setið fyrir í V Magazine og unnið fyrir Ralph Lauren, birti gamla mynd af sér í bikiníi á Instagram fyrir stuttu. Við myndina opnaði hún sig um líkamsímynd.
„Þessi stelpa er ekki feit. Ég man þegar þessi mynd var tekin. Mér hafði verið sagt að ég þyrfti að grennast. Ekki í fyrsta sinn og ekki í það síðasta,“ skrifar Bridget við myndina og bætir við:
„Alltaf gaman að þykjast vera örugg og hamingjusöm í sundfötum þegar maður er í stríði við líkama sinn.“
Bridget hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð við myndinni, svo góð að hún skrifaði meira á Instagram nokkrum dögum síðar og þakkaði fyrir stuðninginn.
„Þakkir til allra sem hafa stutt ákvörðun mína að vera hreinskilin um baráttu mína við líkama minn,“ skrifar Bridget. Hún skrifar jafnframt að hún muni halda áfram að tjá sig um líkamsímynd í nánustu framtíð.
„Ég hef fengið nóg. Takið ákvörðun í dag að elska líkamann sem þið hafið og takið styrk ykkar til baka því þið eruð alltaf nóg. Þessi mynd var tekin eftir að ég var í átta löndum á þremur vikum (tvær ferðir til Ástralíu frá Evrópu meðtaldar). Ferðalögin urðu til þess að ég bætti á mig og ég var svo áhyggjufull yfir því. Myndatakan var sem betur fer auðveld, full af ást og skemmtileg – en ég grét mig í svefn þetta kvöld. Ég var svo hrædd við að fara „feit“ aftur til New York og þurfa að horfast í augu við kúnna mína og umboðsskrifstofu. Fáránlegt.“