Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Þetta er afreksfólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Breyta þarf afstöðu Íslands til Grikklands og Ítalíu, sem hafa hingað til verið metin „örugg“ af stjórnvöldum. Þau reka „harðlínustefnu“ í útlendingamálum, segir Magnús Davíð Norðdahl lögmaður og kallar eftir mannúðlegri nálgun við börn á flótta.

 

Magnús Davíð Norðdahl lögmaður er fljótur að svara þegar hann spurður að því hvort á Íslandi sé rekin mannúðleg stefna í málefnum flóttafólks. „Nei,“ segir hann, „ekki gagnvart börnum á flótta. Það að við skulum taka hérna tveggja, þriggja, fjögurra og upp í 18 ára börn og endursenda þau til landa á borð við Grikkland og Ítalíu, þar sem aðstæður eru jafnslæmar og raun ber vitni, það eitt og sér er ómannúðlegt.“ Magnús segir öllum sem þaðan koma bera saman um að aðstæður fyrir flóttafólk á Grikklandi og Ítalíu séu hræðilegar; margir búi á götunni og fái enga félagslega aðstoð og lágmarksheilbrigðisþjónustu. Þetta staðfesta skýrslur alþjóðlegra samtaka. „Hræðsla fólks,“ segir Magnús, sem hefur unnið fyrir fjölda hælisleitenda, „er ekkert síður að vera sent aftur Grikklands eða Ítalíu; það getur verið alveg jafnógnvekjandi og að fara aftur til heimalandsins.“

Íslensk stjórnvöld hafa litið svo á að Grikkland og Ítalía, sem eru meðal þeirra Evrópulanda sem straumur flóttafólks fer fyrst um, séu „örugg“ ríki. Það er, að ekkert sé því til fyrirstöðu að endursenda fólk þangað, meðal annars á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Magnús hefur farið með mörg mál sem hafa ratað í fjölmiðla og vakið hneykslan almennings, til dæmis mál Safari-fjölskyldunnar og Sarwari-feðganna, en mál af því tagi hafa iðulega unnist á tæknilegum forsendum. Hann segir fjölmiðlaumfjöllun og þrýsting frá almenningi hafa skipt sköpum fyrir þetta fólk, sem hefði ella verið sent burt athugasemdalaust.

Magnús hefur sjálfur unnið með fimm barnafjölskyldum, sem saman telja 12 börn. „Manni finnst stundum eins og stjórnvöld fari fram með fautaskap og beri sig ekki nógu mannúðlega við meðferð mála þar sem um er að ræða hælisleitendur sem eru börn,“ segir hann. „Það þarf bæði að laga málsmeðferðina og eins ætti, að mínum dómi, að veita fleiri börnum hæli hér á landi.“ Fólkinu líði hræðilega; óvissan sé oft óbærileg og margir greindir með áfallastreituröskun. „Fólk sér enga framtíð. Það bara lítur svo á að ef það verði flutt úr landi þá sé þetta búið.“

Upplifa öryggi og stöðugleika í fyrsta sinn á ævinni

- Auglýsing -

Hann segir ljóst að hingað til lands komi margir sem eigi ekki að fá hæli en hann eigi enn eftir að kynnast fjölskyldufólki sem honum þætti ekki eiga að fá að vera um kyrrt. Þá er Magnúsi sérstaklega umhugað um velferð barnanna. „Þessi börn hafa ekkert gert, þau eru saklaus. Þau upplifa kannski í fyrsta sinn á ævinni öryggi, fá að ganga í skóla og læra og eignast vini og mynda félagslegt net. Þau þurfa ekki að vera óörugg vegna ofbeldis eða vegna stöðu fjölskyldunnar. Og að vera síðan send úr landi eftir þessa upplifun er náttúrlega þyngra en tárum taki.“

Flóttafólk sem hingað leitar fær aðstoð Rauða krossins í samskiptum sínum við Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála en leitar til Magnúsar og annarra sem sérhæfa sig í málaflokkinum þegar það hefur fengið neitun á báðum stjórnsýslustigum. Magnús segir dæmin sýna að það geti skipt sköpum fyrir fólk að leita til lögmanns en í lok síðasta árs tókst honum að fá brottflutningi frestað þegar klukkustundir voru til stefnu. Sú fjölskylda er enn hér á landi. Hann segir bráðnauðsynlegt að stytta málsmeðferðartímann en ekki síður að breyta þeirri afstöðu að Grikkland og Ítalía séu örugg lönd fyrir flóttafólk.

„Það er pólitísk ákvörðun að skilgreina Grikkland og Ítalíu sem örugg ríki að senda hælisleitendur til,“ segir Magnús. Spurður að því af hverju ekkert breytist þrátt fyrir ítrekaða hneykslan almennings vegna einstakra mála, bendir hann á stjórnvöld. „Ja, hver fer með málaflokkinn?“ spyr hann og bætir því við að það sé ekkert launungarmál að Sjálfstæðisflokkurinn reki harðlínustefnu í innflytjendamálum. „Það er alltaf verið að hugsa um þetta: Ef við hleypum þessari fjölskyldu inn á þessum forsendum, þá koma 100 aðrar í sömu stöðu þegar þetta spyrst út.“

- Auglýsing -

Er það rétt?

„Mun hælisleitendum fjölga? Já. Er það hættulegt eða neikvætt? Nei,“ svarar Magnús. „Þetta er fólk sem við viljum fá. Það flúði frá heimabæjum sínum, úr ömurlegum aðstæðum, og komst við illan leik til Evrópu; ég tala nú ekki um til Íslands. Það er afrek út af fyrir sig. Þetta er afreksfólk, margt af þessu fólki sem hingað kemst. Og samfélagi okkar er greiði gerður með því að veita fleirum hæli hér á landi.“

Konan á kvennadeild Landspítalans.

„Einstaklega fautalegt og ómannúðlegt“

„Þetta er einstaklega fautalegt og ómannúðlegt að framkvæma brottvísun á konu sem er þetta langt gengin,“ segir Magnús um mál albönsku konunnar sem var flutt úr landi í vikunni, komin 36 vikur á leið. Konan sem var stödd hér á landi ásamt manni sínum og tveggja ára barni, fékk vottorð á kvennadeild Landspítalans nokkrum klukkustundum áður en hún var flutt á brott um að hún þjáðist af stoðkerfisverkjum, sem gerðu flug erfitt. Yfirvöld ákváðu hins vegar að fara eftir eldra vottorði sem fékkst hjá heilsugæslunni, þess efnis að heilsufarslega væri ekkert því til fyrirstöðu að hún flygi.

Mat Magnúsar rímar við yfirlýsingu Rauða krossins en þar sagði meðal annars að brottvísunin hefði verið í andstöðu við ráðleggingar heilsgæslunnar um að þungaðar konur í áhættuhópi ættu ekki að fara í flug eftir 32. viku meðgöngu. Konan tilheyrði þeim hópi vegna fyrri meðgöngu. „Brottvísun er þvingunarúrræði sem getur valdið mikilli streitu og kvíða. Streita á móður getur haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir hana og ófætt barn hennar,“ sagði í yfirlýsingunni. Rauði krossinn sagði ekki forsvaranlegt að túlkun Útlendingastofnunar eða ríkislögreglustjóra gæti ráðið úrslitum um hvort brottflutningur færi fram eða ekki. Brottvísunin hefði ekki verið mannúðleg.

„Ég er svo hrædd og þreytt, svo ofboðslega þreytt. Ég er svo stressuð yfir því að eitthvað komi fyrir barnið mitt,“ sagði konan í samtali við Stundina þegar fjölskyldan var komin til Albaníu. Þá sagðist hún óttast að það hvernig staðið var að brottflutningnum myndi hafa áhrif á andlega líðan tveggja ára barnsins til lengri tíma. Fjölskyldan fékk að dvelja hjá vinafólki en konan sagðist vonast til að fá að snúa aftur til Íslands þegar málið væri búið í ferli hér.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -