Leikmyndahönnuðurinn John Shaffner, sem sá um að hanna leikmyndina fyrir sjónvarpsþættina sívinsælu Friends, opnar sig í samtali við Great Big Story um af hverju íbúð einnar aðalpersónunnar, Monicu, var fjólublá.
Fjólublár er mjög afgerandi litur og eflaust fáir sem væru til í að mála heila íbúð í þessum lit, en John þurfti einmitt að berjast við aðra yfirmenn við gerð þáttanna til að fá að mála íbúðina fjólubláa.
„Engum líkar breytingar þangað til ég málaði litla líkanið af íbúðinni fjólublátt,“ segir John og bætir við að hann hafi viljað aðgreina Friends frá öðrum skemmtiþáttum.
„Litur er mjög mikilvægur hlekkur í að skilgreina ímynd þáttar. Þegar þú skiptir yfir á Friends þá sérðu fjólubláa litinn og þú heldur áfram að horfa,“ segir leikmyndahönnuðurinn.
Það má því segja að þessi áhætta hans hafi borgað sig því það eru eflaust margir aðdáendur þáttanna sem tengja þennan fjólubláa lit við Friends.
Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem John talar meira um hönnunina á leikmyndinni í skemmtiþættinum: