Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, hefur á undanförnum árum keypt upp fjölda jarða og lóða á Norðausturlandi, m.a. í Vopnafirði, Þistilfirði og á Grímstöðum á Fjöllum. Í vikunni greindi Fréttablaðið frá því að Ratcliffe hafi keypt eignarhaldfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni fjárfesti og eignast þannig 86,67 prósenta hlut í veiðifélaginu Streng ehf. Félagið er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu en Ratcliffe hefur áður lýst því yfir að tilgangur jarðakaupa hans sé að vernda laxveiðiár. Strengur á í sex jörðum í Vopnafirði en fyrir á Ratcliffe um 30 jarðir á Norðausturlandi.

Mannlíf heyrði hljóðið í Vopnfirðingum og hafði einn á orði að heimamenn væru á varðbergi gagnvart Ratcliffe og fyrirætlunum hans.

„Djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu“

„Mér finnst þetta vera birtingarmynd þess sem við höfum verið að vara við. Að allt þetta land sé komið í hendurnar á mönnum sem hafa engra annarra hagsmuna að gæta en fjárhagslegra,“ segir Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Hann hefur áður gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hefta ekki jarðakaup útlendinga. „Eftir að felldur var úr gildi forkaupsréttur sveitarfélaga þá er líka horfinn sá möguleiki að svona gjörningar komi upp á yfirborðið fyrr og komið þannig af stað umræðu sem mögulega hefði áhrif á það hvernig svona hlutir fara. Menn geta bara selt og keypt eins og þeim sýnist enda geta sveitarfélögin ekki keppt við svona menn í verði. Mér finnst það vera aumingjaskapur hjá stjórnmálamönnum að hafa ekki tekið á þessu frekar en að blaðra í kringum hlutina. Þetta er djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu.“

Björn gefur ekki mikið út á yfirlýst markmið auðmannsins breska um að vernda laxveiðiár. „Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur að mínu viti. Það er ekki nóg að segja svona, það verður að sýna með einhverjum rökum hvernig og hvað á að gera. Eftir því sem ég best veit og tel mig vita talsvert um það, þá eru laxárnar í Vopnafirði og á Norðausturlandi mjög vel vaktaðar. Kannski telur hann sig vera að gera eitthvað sniðugt en þá hefur hann bara ekki kynnt sér stöðuna eins og hún er. Þetta er léleg framkoma og stælar; að horfa niður á okkur heimamenn og segja að hann sé kominn til að redda laxinum hérna. Þetta fer illa í okkur sem erum búnir að vera brasa í þessu í 50 ár,“ útskýrir Björn.

Vill að fjárfestar skili meiru til samfélagsins

- Auglýsing -

Ratcliffe hefur nýverið átt í viðræðum í gegnum efnavinnslufyrirtækið Ineos sem hann á meirihluta í, um kaup á eignum bandaríska olíufélagsins ConcoPhilips í Norðursjó. Það finnst Birni áhugavert. „Hann virðist vera að fjárfesta í framtíðarauðlindum – í vatni og landi og aðstöðu til orkuframleiðslu. Svo getur verið að þessi maður sé að horfa til þeirra fjárfestinga sem margir aðilar í fjórðungnum eru að horfa til í Finnafirði,“ segir hann og vísar þarna til möguleika þess að alþjóðleg stórskipahöfn verði byggð í Finnafirði við Langanes. Björn segist vilja sjá að menn á borð við Ratcliffe fjárfesti meira í samfélaginu sjálfu og að tryggt verði í lögum að samfélagið njóti fyrst og síðast góðs af landinu. „Það eiga ekki að vera dauðlegar manneskjur sem skrapa til sín öllu sem þeim sýnist og þar af leiðandi ganga á möguleika viðkomandi samfélags að nýta þessi gæði.“

Vegna hnattrænnar hlýnunar og bráðnunar hafíss á norðurslóðum styttist siglingaleiðin á milli Asíu og Evrópu umtalsvert. Á því byggja þessar hugmyndir um stórskipahöfn í Finnafirði; að stór gámaskip sigli norðurskautsleiðina til Íslands þar sem farminum yrði umskipað og fluttur áfram til Evrópu og Norður-Ameríku.

Þýskt hafnafélag hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og varið hundruðum milljóna í rannsóknir því tengdu. Þá hafa kínverskir aðilar einnig verið áhugasamir um höfnina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -