Þessu hefur verið ótrúlega vel tekið. Fólk búsett úti á landi er að gera sér spes ferð hingað og heilu vinahóparnir fjölmenna á sýningar,“ segir Ása Baldursdóttir, dagskrástjóri Bíó Paradís, um þá nýbreytni kvikmyndahússins að sýna pólskar myndir og bætir við að þegar mest láti sé húsið eins og pólsk félagsmiðstöð.
„Það er ekki síst gaman að sjá hvað gestirnir eru ánægðir með framtakið. Þeir eru í skýjunum með að íslenskt kvikmyndahús skuli taka sig til og sýna myndir frá föðurlandinu. Fyrstu vikurnar gerðu þeir ekki annað en að þakka starfsfólkinu fyrir og á samfélagsmiðlum hefur þakklætiskveðjum rignt yfir okkur.“
Spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað segir Ása kvikmyndahúsinu hafa borist fjölda fyrirspurna frá fólki úti í bæ sem vildi vita hvort það væri möguleiki að taka pólskar myndir til sýninga.
„Þannig að við ákváðum bara að taka smástikkprufu án þess að hafa í raun hugmynd um hvernig aðsóknin yrði. Hvort fimm manns myndu mæta eða 100. Við renndum alveg blint í sjóinn með þetta,“ viðurkennir hún. Aðsóknin hafi sem betur verið góð. Reyndar svo góð að vísa hafi þurft fólki frá þar sem uppselt hafi verið á myndir í forsölu og sé nú unnið í því að bæta við dagskrána til að mæta allri þessari eftirspurn.
Hvers konar myndir er verið að sýna?
„Við erum aðallega að sýna nýjar myndir sem hafa notið vinsælda í Póllandi,“ svarar hún. „Þannig að við erum kannski að fara svolítið aðra leið en til dæmis á Pólskum kvikmyndadögum þar sem áherslan hefur frekar verið á listrænar myndir en endilega vinsælar.“
Í ljósi þess hversu vel hefur tekist til, hefur þá eitthvað komið til tals að reyna að höfða til fleiri hópa?
„Við höfum auðvitað þegar boðið upp á kvikmyndaveislur frá Kúbu og Bollywood og svo staðið fyrir japönskum, taílenskum og rússneskum kvikmyndadögum og þýskum kvikmyndadögum sem eru fastur liður í bíóinu,“ bendir hún þá á. „En að sjálfsögðu viljum við reyna að koma til móts við sem flesta enda er Bíó Paradís menningarhús og hlutverk þess að auðga kvikmyndamenningu í landinu. Fyrir utan að við erum alltaf opin fyrir skemmtilegum hugmyndum og tilbúin að prófa eitthvað nýtt.“