Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens fékk sér húðflúr með syni sínum, Brynjari á dögunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem feðgarnir láta flúra sig saman en Bubbi segir þetta góða gæðastund sem þeir feðgar deila.
Aðalmynd: Össur, annar eigandi Reykjavík Ink, Bubbi og boxarinn og snapparinn Davíð.
„Hann langaði í tattú og ég ætlaði hvort sem er að fá mér tattú þannig að við gerðum þetta saman. Við höfum gert þetta áður, farið saman og fengið okkur tattú. Við erum bara vinir,“ segir Bubbi og bætir við að flúrun sé þeirra leið til að yrkja sitt samband.
„Þetta er gæðastund með stráknum mínum. Það er ekki allir foreldrar endilega sammála því en þetta er góð stund. Þetta er bara stemmari.“
Fékk fyrsta flúrið árið 1974
Bubbi og Brynjar fóru saman í flúr á húðflúrstofunni Reykjavík Ink á dögunum og lét Bubbi flúra á sig veiðiflugu en Brynjar fékk sér rýting. Er þetta fjórða flugan sem Bubbi lætur húðflúra á líkama sinn.
„Flugan er ákveðið tákn. Ég er ekki viss um að ég setji fleiri flugur á mig, en þetta eru flugur sem ég hef notað í veiði,“ segir Bubbi, sem er mikill veiðimaður eins og margir Íslendingar vita.
Bubbi hefur ekki aðeins skreytt líkama sinn með flugum, og státar af myndarlegu húðflúrsafni á sínum kropp. Það stendur ekki á svörunum þegar hann er spurður út í fyrsta húðflúrið.
„Ég fékk mér fyrsta tattúið árið 1974. Það var rós. Snemma beygist krókurinn,“ segir Bubbi og hlær. „Ég rækta rósir og hef gaman að rósum. Ég lét tattúvera yfir það og ég sé dálítið eftir því í dag. Það var frægur maður sem flúraði mig og það hefði verið gaman að vera með sýnilegt tattú eftir hann. Hann flúraði mig í Nýhöfninni.
Hann var kallaður Tattú Sven.
Næstu tattú á eftir fékk ég mér síðan í Rotterdam með Utangarðsmönnum,“ segir Bubbi. Hann segir að margt hafi breyst í húðflúrheiminum á þessum 44 árum.
„Þegar ég var að byrja í rokktónlistinni og rokkbransanum voru fáir, jafnvel engir með tattú. Það voru aðallega sjómenn og glæpamenn sem voru flúraðir. En það er mikið breytt. Þetta er orðið norm í dag og hefur orðið gríðarleg þróun í nálum, litum og tækni. Þær verða alltaf fallegri og fallegri myndirnar.“
Gott í bili
Í dag lætur Bubbi flúra sig á stofunni Reykjavík Ink, þar sem hann og einn eigandi stofunnar, Össur, eru góðir vinir.
„Ég fer þangað til að hitta Össur og kjafta og hafa gaman,“ segir Bubbi brosandi. Fyrrnefndur Össur er vel flúraður um allan líkamann, en Bubbi segir það ekki vera markmið sitt þegar kemur að flúri.
„Ég vil hafa ákveðna hluti hreina. Handleggirnir geta þolað að vera með slatta af flúrum en ég ætla sennilega að láta fætur, brjóst og maga vera.“
En er tónlistarmaðurinn byrjaður að skipuleggja næsta flúr?
„Nei, þetta er fínt í bili.“