Sigga Kling er mikið jólabarn. Hún er byrjuð að skreyta heima hjá sér en þessa stundina er heimilið prýtt bæði jólaskrauti og hrekkjavökukrauti.
Skemmtikrafturinn Sigga Klink er mikið jólabarn og elskar að skreyta í kringum sig og fagna jólahátíðinni. Hún er byrjuð að skreyta en þessa stundina er heimili hennar prýtt jólaskrauti í bland við hrekkjavökuskraut. „Ég elska jólin! Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin, þegar ég er í einhverju óstuði. Vegna þess að hver getur verið í vondu skapi þegar Snæfinnur snjókarl hljómar?“
Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin.
Jólatréð er fyrir löngu komið upp hjá Siggu sem vakið hefur athygli. „Veistu, það voru 15-20 krakkar að syngja jólalög fyrir utan hjá mér um daginn. Ég skildi fyrst ekkert í þessu en svo var það auðvitað af því að ég er búin að setja upp risa jólatré í gluggann, glitrandi fínt með ljósum. Ég bauð þeim bara inn,“ segir hún og skellir upp úr. „En svo þurfti kennarinn að koma og sækja þau, þau áttu ekkert að fara af skólalóðinni,“ segir Sigga hlæjandi.
Sigga er líka aðdáandi Halloween, hrekkjavökunnar eins og það kallast á íslensku, og er búin að skreyta heimilið sitt með hrekkjavökuskrauti. „Þetta er hálfgert jóla-ween hérna hjá mér, jólavín!“ segir hún og skellir upp úr.
Skrifar bækur um jólasveinana
Þessa stundina er Sigga að skrifa bækur um jólasveinana. „Þetta er skrifað í svipuðum stíl og Kötturinn með höttinn. Jólasveinarnir eru voða jákvæðir hjá mér og að gera alls konar sniðugt. Skyrgámur er til dæmis búinn að opna skyrgerð. En ég er í smá vandræðum með Gluggagægi, ætli ég láti hann ekki bara vinna í glersmiðju,“ segir Sigga sem elskar jólahefðir.
„Ég er náttúrulega krakki í hjartanu þannig að ég elska jólasveina, jólahefðir og svo framvegis.“ Hún er þó ekki mikill aðdáandi jólaboði. „Nei, takk!“ segir hún hlæjandi. „Mér finnst óþolandi að fara um alla bæi í jólaboð. Ég tala bara frá hjartanu.“
Spurð út í hvort hún sé farin að hugsa um jólamatinn segir hún: „Ég er minna í reykta kjötinu núna. Fólk verður alveg útblásið af þessu salta kjöti. En ég er hrifin af smjörsprautuðum kalkún. Það klikkar ekki.“
Mynd / Hákon Davíð