Föstudagur 27. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Þetta er í rauninni bara mín leið til að takast á við sorgina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Þór Helgason hefur sent frá sér nýtt lag, Stay, sem hann samdi til minningar um ástvin sem batt enda á líf sitt. Segist Jón Þór vonast til að lagið muni hjálpa aðstandendum þeirra sem falla fyrir eigin hendi og þeim sem eru á erfiðum stað í lífinu. Það sé orðið tímabært að auka enn frekar upplýsta umræðu um sjálfsvíg á Íslandi.

„Þetta er í rauninni bara mín leið til að takast á við sorgina. Fyrir utan það finnst mér að það þurfi ræða þetta málefni miklu meira. Þetta á ekki að vera feimnismál. Fjölskyldur eiga ekki að líta á þetta sem skömm og segja frá. Svona sögur gætu mögulega hjálpað öðrum,“ segir tónlistarmaðurinn Jón Þór Helgason um lagið Stay, sem hann sendi nýverið frá sér en lagið samdi hann til minningar um ástvin sem svipti sig lífi.

Hann var bara barn

„Ég fékk þær skelfilegu fréttir í apríl að ættingi minn hefði bundið enda á líf sitt. Það eitt og sér að einhver nákominn manni skuli fara með þeim hætti er hræðilegt, en það sem gerði málið enn sorglegra er hversu ungur viðkomandi var. Hann var enn í grunnskóla, bara barn,“ segir Jón Þór.

Kveðst Jón Þór hafa samið lagið sama dag og hann fékk fréttirnar. „Lagið kom bara af sjálfu sér, ég ætlaði mér ekkert að semja það. Það má segja að það hafi þvingað sér út hjá mér. Þetta var bara mín leið til að takast á við sorgina, eins og ég segi,“ segir hann en við gerð textans studdist Jón Þór meðal annars við Facebook-færslu sem faðir drengsins birti nokkrum dögum síðar, þar sem hann ræddi það sem gerðist og tjáði sig meðal annars um þunglyndi sem sonur hans glímdi við. Jón Þór vildi þó ekkert gera við lagið fyrr en hann hefði leyft foreldrunum að heyra það og þess vegna tók hann ákvörðun um að senda þeim lagið.

„Fjölskyldur eiga ekki að líta á þetta sem einhverja skömm, heldur þora að segja frá. Svona sögur gætu mögulega hjálpað öðrum.“

„Ég spurði fyrst sameiginlega ættingja hvað þeim fyndist og þeir hvöttu mig eindregið til þess að gera þetta. Ég viðurkenni að það tók virkilega á. Ég þurfti alveg að mana mig upp í það en sem betur fer tóku þau þessu ótrúlega vel. Þeim þótti vænt um þetta og þeim þykir vænt um lagið og ég fékk þeirra leyfi til að segja sögu drengsins. Faðir hans sagði við mig að það væri ástæða fyrir því að hann hefði haft pistillinn sinn á Facebook opinberan. Það væri nefnilega allt of algengt að svona mál væru þöguð í hel af því að fólk skammaðist sín fyrir þau.“ Jón Þór segist vera foreldrunum þakklátur fyrir að hafa brugðist svona vel við.

- Auglýsing -

Bindur vonir við að lagið hjálpi öðrum

Hann segir að þótt Stay fjalli um ungan dreng í erfiðum aðstæðum þá eigi allir sem hafa upplifað ástvinamissi að geta tengt við lagið. „Ég reyndi að semja textann þannig að sem flestir gætu tengt við hann. Sjálfur hef ég upplifað það að missa of marga nákomna mér með þessum hætti, þótt þetta sé í fyrsta sinn sem svona gerist í fjölskyldunni, og í flestum tilvikum var þetta fólk sem ég hélt að væri í góðum málum og myndi aldrei fara þessa leið. Þess vegna vona ég að lagið hjálpi einhverjum, hvort sem er aðstandendum eða einhverjum sem er á brúninni. Mín heitasta ósk er að þetta lag komi einhverjum að gagni.“

Tók sönginn upp á æskuheimili Rúnars Júlíussonar

- Auglýsing -

Jón Þór hefur verið viðloðandi tónlistabransann um langt skeið og mestmegnis spilað í ábreiðuhljómsveitum, eins og hann orðar það. Samhliða því segist hann hafa verið að semja eigin tónlist en það hafi þó ekki verið fyrr en á síðasta ári, eftir að vinkona hans fór að hvetja hann til þess að fara að gera eitthvað við lögin, sem hann ákvað að gefa út sína fyrstu plötu með frumsömdu efni. Platan var að hluta til tekin upp heima hjá Jóni en svo skemmtilega vill til að húsið er æskuheimili Rúnars heitins Júlíussonar tónlistarmanns.

„Herbergið hans var í kjallaranum, þar sem Hljómar voru stofnaðir og Gunnar Þórðarson kenndi honum á bassa. Herbergið ber þess meira að segja enn merki því hér eru slagorð, setningar og fleira sem þeir máluðu á veggina og í loftið. Mér fannst því tilvalið að koma mér upp litlu stúdíói í herberginu og taka upp sönginn og gítarinn fyrir plötuna þar. Þar með lét ég verða af því að gera loksins þessa langþráðu plötu,“ segir Jón Þór og getur þess að nú sé meira að segja von á annarri plötu og sú verði á persónulegri nótum.

Frábærar viðtökur

Spurður hvort tónlistin á plötunum sé eitthvað í líkingu við lagið Stay hristir Jón Þór höfuðið. „Þetta lag er svo ólíkt allri minni tónlist að vinur minn, sem er tónlistarmaður, sagði að hann hefði aldrei geta giskað á að það væri eftir mig. Og ég hugsa að mér takist aldrei aftur að semja svona lag, þótt maður eigi reyndar aldrei að segja aldrei því auðvitað veit maður stundum ekkert hvert sköpunargáfan leiðir mann. Hjá mér spretta lögin nefnilega yfirleitt fram af sjálfu sér þegar mér liggur eitthvað á hjarta og þá er best að leyfa laginu „að stjórna ferðinni“.

Þegar ég samdi Stay vissi ég til dæmis undireins að þetta væri lag sem ég ætti ekki að flytja sjálfur, heldur væri Íris Eysteinsdóttir vinkona mín fullkomin í þetta. Íris er stórkostleg söngkona og bara stórkostleg manneskja. Við höfum átt í mjög góðu og gefandi samstarfi í gegnum árin og ég er fullviss um að það er henni að miklu leyti að þakka hvað lagið hljómar vel.“

„Sjálfur hef ég upplifað það að missa of marga nákomna mér með þessum hætti … í flestum tilvikum var þetta fólk sem ég hélt að væri í góðum málum og myndi aldrei fara þessa leið.“

Talandi um það, nú kom lagið út í byrjun mánaðarinns, hvernig hafa viðtökurnar verið? „Þær hafa farið langt fram úr væntingum. Það eru ótrúlega margir búnir að deila laginu og myndbandinu á Facebook og ég hef fengið mörg falleg skilaboð. Ég átti engan veginn von á því og er mjög hrærður. Fyrir utan það er ég stoltur af því að hafa samið þetta lag. Ég vona bara að það eigi þátt í að auka upplýsta umræðu um sjálfsvíg á Íslandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -