Maðurinn sem hefur játað á sig morðið á Armando Bequirai heitir Angjelin Sterkaj. Hann er einnig frá Albaníu og er fæddur árið 1986. Þetta fullyrðir DV og vísar í áreiðanlegar heimildir.
Játning liggur fyrir vegna morðsins sem framið var í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn, þar sem Armando var skotinn til bana við heimili sitt. Hann var skotinn níu sinnum meðal annars í höfuð og bol með fyrrgreindum afleiðingum. Skotvopnið staðfestir lögreglan á höfuðborgarsvæði að sé fundið, en um er að ræða 22 kalíbera skammbyssu með hljóðdeyfi. Fannst skotvopnið í sjónum við höfuðborgarsvæðið í mars.
Armando var jarðsunginn 5. mars síðastliðinn en hann á 16 mánaða gamlan son sem mun alast upp án föður síns. Þá er Þóranna Helga Gunnarsdóttir unnusta hans gengin nærri 30 vikur með annað barn þeirra.
Samkvæmt DV er maðurinn sem grunaður er um morðið Angjelin Sterkaj en á samfélagsmiðlum kallar hann sig Angjelin Mark Sterkaj. Hann hefur búið á Íslandi í 7 ár. Samkvæmt DV ríkti óvild var á milli hans og Armando.
Angjelin var handtekinn þremur dögum eftir morðið á Armando. Hann neitaði sök þráfaldlega framan af rannsókninni og játaði ekki fyrr en gögn lögreglu gegn honum höfðu hlaðist svo mikið upp að hann var kominn upp að vegg.