Heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir tilkynnti í gær að gera mætti ráð fyrir því að hægt yrði að bólusetja um 180 þúsund Íslendinga fyrir lok júní.
Eflaust hafa margir velt því fyrir sér hvar þeir séu í röðinni. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor og fyrrverandi ráðherra, er þar á meðal en hann spáir að fólk á hans aldri verði bólusett í apríl eða maí.
Ekkert hefur þó verið sagt um röð eða fyrirkomulag og því þarf Gylfi að gefa sér ákveðna forsendur. Hann gerir því ráð fyrir að fólk verði bólusett eftir aldri og þeir yngstu verði þá síðastir. Hann skrifar á Facebook:
„Ef bólusett væri í öfugri aldursröð myndi bóluefnið sem þarf í þetta duga fyrir alla 35 ára og eldri… Þeir sem eru yngri en 35 í forgangshópum og þeir sem ekki verða bólusettir af einhverjum ástæðum rugla dæmið þó aðeins. En við Viðreisnarbörnin ættum að bretta upp ermarnar í apríl eða maí …“ Þar er Gylfi að vísa til þeirra sem fæddust meðan Viðreisnarstjórnin var við völd 1959 til 1971.