Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

„Þetta er svakalegt högg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkur félög í Dominosdeild karla lögðu mikið undir í vetur. Reksturinn hleypur á tugum milljóna en úrslitakeppnin sem núna hefur verið blásin af var helsta tekjulindin. Formenn þriggja stórra félaga eiga von á breyttum reglum um fjölda útlendinga.

Það var stjórnendum körfuknattleiksdeilda þeirra liða sem voru á leið í úrslitakeppnina gífurlegt áfall þegar í ljós kom í vikunni að körfuknattleiksvertíðinni væri formlega lokið. Nokkur félög í Dominosdeild karla höfðu kostað miklu til en úrslitakeppnin, sem fram undan var í apríl, er helsta tekjulind tímabilsins. Formenn körfuknattleiksdeilda þriggja af stærstu félögunum telja nær útilokað að deildin verði spiluð með sama sniði á næsta tímabili. Þeir segja allir líklegt að fjöldi útlendinga verði takmarkaður með einhverjum hætti.

Samkvæmt heimildum Mannlífs kostaði keppnistímabilið sumar af þeim körfuknattleiksdeildum sem mest lögðu undir allt að 40 til 50 milljónir króna. Dæmi eru um að félögin hafi ekki getað greitt leikmönnum laun á réttum tíma en dýrustu leikmennirnir fá á bilinu 450 til 600 þúsund krónur á mánuði, eftir því sem Mannlíf kemst næst. Örfá dæmi eru um hærri upphæðir.

Til viðbótar við þá staðreynd að engin úrslitakeppni er fram undan hefur kórónuveiran gert það að verkum að tvö lið í deildinni, Keflavík og Njarðvík, hafa farið á mis við háar fjárhæðir. Það gerðist þegar Nettó-mótinu var aflýst en það er árviss viðburður. Heimildir Mannlífs herma að hvor deild um sig hafi farið á mis við sjö til átta milljónir króna.

„Þetta eru miklir peningar“

- Auglýsing -

„Þetta er svakalegt högg,“ segir Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar um niðurstöðu KKÍ. Hann tekur þó fram að ákvörðunin hafi verið óumflýjanleg.

Úrslitakeppnin sé afar mikilvæg tekjulind. „Þetta eru miklir peningar; ekki bara vegna miðasölu heldur líka sjoppan, hamborgarasala, auk þess sem við höfum verið með viðburði á Dúllubar fyrir og eftir þessa leiki. Þetta er ansi mikið,“ segir hann. Hilmar áætlar að á tveimur til þremur leikjum í úrslitakeppni komi jafnmikið í kassann og á öllum ellefu heimaleikjum tímabilsins í deildarkeppninni.

Samkvæmt heimildum Mannlífs getur innkoman af vel sóttum heimaleik í úrslitakeppni hlaupið á þremur til fimm milljónum, þegar allt er talið. Einn leikur getur því staðið undir rekstri deildarinnar í heild í mánuð, hjá þeim félögum þar sem mest er lagt undir. „Ef við gæfum okkur að við færum alla leið værum við að spila sex til níu heimaleiki.“

- Auglýsing -

Veikari til leiks á næsta tímabili

Hilmar segir að Stjarnan hafi búið sig undir þessa ákvörðun KKÍ og verið búin að senda þá útlendinga sem voru á mála hjá félaginu heim. Hann segir að þessi niðurstaða hafi í för með sér að félögin komi veikari til leiks á nýju tímabili í haust. „En við erum ekkert í skelfilegum málum til að loka þessu tímabili,“ segir hann þó kokhraustur. Hilmar á von á því að tími fjögurra til fimm útlendinga í liði sé liðinn. Hann bendir á að yfir 40 útlendingar hafi verið á mála hjá félögunum 12 í deildinni. Það sé ekki gott til framtíðar fyrir íslenskan körfubolta. „Við munum sjá allt annað landslag á næstunni.“

„Auðvitað er maður hundfúll,“ viðurkennir Hilmar en Stjarnan vann flesta leiki allra liða í deildarkeppninni í vetur. Hann segir að Stjarnan muni þó vera með sterkt lið á næsta keppnistímabili. „Það eru allir með óbragð í munninum og það er óklárað verkefni fram undan,“ segir hann en KR hefur orðið Íslandsmeistari hjá körlunum sex ár í röð.

Ingvi Þór Hákonarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, telur að fimm milljónir vanti til að gera upp tímabilið.

Segir vanta fimm milljónir

Ingvi Þór Hákonarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, ber sig vel þrátt fyrir þessa súru niðurstöðu. Hann tekur undir með Hilmari að þetta hafi verið eina færa niðurstaðan. Hann bendir á að leikmennirnir hafi verið með samning út deildarkeppnina en síðan sé greitt fyrir hvern dag í úrslitakeppni. Þeir sitji því ekki uppi með launakostnað fyrir komandi vikur.

„Maður er enn að melta þetta,“ segir Ingvi Þór um stöðu mála. „Við vorum í fyrsta skipti í mörg ár með lið sem hefði getað barist um titilinn hjá körlunum. Það var allt lagt í þetta núna. Þetta er mjög súrt og maður er enn að átta sig á að það sé búið að flauta þetta af.“ Hann hefur svipaða sögu að segja þegar kemur að mikilvægi úrslitakeppninnar fyrir tekjur félagsins. Spurður hvað mikið vanti upp á svo hægt sé að gera upp keppnistímabilið svarar hann því til að ef til vill séu það um fimm milljónir króna. Það eigi þó eftir að koma betur í ljós. „Við höfum fundað nær daglega og ætlum að reyna að fara í einhverjar fjáraflanir,“ segir hann en Keflavík hefur einnig haldið úti öflugu kvennaliði. Þar er launakostnaður minni, eins og hjá öðrum félögum.

Ingvi Þór er líka á því að fyrirkomulagið þegar kemur að útlendingum í Dominosdeildunum muni sennilega taka breytingum. Hann vonast til að félögin komi sér saman um lendingu hvað það varðar. „Maður verður að reyna að vera bjartsýnn.“

Vill samkomulag um færri útlendinga

„Það er ekkert annað hægt að gera en að sætta sig við þessa niðurstöðu,“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, í samtali við Mannlíf. KKÍ blés í vikunni af allar keppnir en KR átti lið í fremstu röð í bæði kvenna- og karlaflokki. KR-ingar hafa orðið Íslandsmeistarar í karlaflokki sex ár í röð. Þeir höfðu lagt mikið í sölurnar fyrir þetta tímabil einnig. Margir reynslumiklir atvinnumenn spiluðu í vetur hjá KR, sumir þeirra eru á síðustu metrum ferils síns. Félagið stefndi á sjöunda titilinn í röð.

Böðvar hefur áhyggjur af framtíð landsliðsins ef Íslendingar halda áfram að sitja á bekknum.

„Þetta er mikið högg. Nú er engin úrslitakeppni og engar tekjur,“ segir Böðvar um stöðuna. Hann segir að félögin þurfi að koma sér saman um stefnu þegar kemur að fjölda útlendinga. KR hafi notið þess að vera aðeins með tvo vegna góðs uppeldisstarfs. „Það er ekki íslenskum körfubolta til framdráttar að hafa fjóra til fimm útlendinga í liðunum og láta Íslendingana sitja á bekknum. Hvernig verður þá landsliðið eftir tíu ár?“ Hann bætir við að þessi mál þurfi að ræða hvað kvennadeildina varðar líka. „Því miður er það þannig að aðsóknin á kvennaleikina er ekki eins mikil og á karlaleikina.“

Hann segir að margir KR-ingar séu í öðrum liðum og spyr sig nú, þegar deildin standi á krossgötum, hvort tími sé kominn til að taka upp símann. „Það er spurning hvort maður þurfi að taka KR-símtalið og kalla menn heim.“

Hann spyr sig hvort félögin geti sótt einhvern stuðning til ríkis eða sveitarfélaganna, vegna þessarar stöðu. „Kannski þarf að koma einhver stuðningur inn í félögin til að geta haldið áfram,“ segir hann. „Við erum að skoða tölur og reikna út hvað við töpum miklu á þessu, miðað við þrjú síðustu ár,“ segir Böðvar.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -