Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Erna Björk og Einar: „Við horfðum á hvort annað og það var eitthvað sem gerðist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erna Björk Svavarsdóttir er gift stýrimanni á frystitogara og hefur hún þekkt líf sjómannskonunnar frá því þau kynntust og hvernig það er að sakna. Erna Björk talar meðal annars um áhrif fjarveru fjölskylduföðurins á fjölskylduna, hvers þau og hann fara á mis og hvað það er gaman þegar hann kemur í land. Hún talar líka um lífsháskann sem eiginmaðurinn lenti í á sínum tíma ásamt skipsfélögum sínum.

Erna Björk Svavarsdóttir var rúmlega tvítug og einstæð móðir þegar hún sagði við vinkonu sína að það myndi henta sér vel að kynnast sjómanni utan af landi sem ætti helst engin börn eða í mesta lagi eitt. „Ég var orðin voða þreytt á þessum karlmönnum í Reykjavík. Svo kynntist ég sjómanni utan af landi sem átti eitt barn,“ segir Erna Björk sem er gift þriggja barna móðir og á hún eitt stjúpbarn og tvö barnabörn. Hún fór nefnilega í apríl árið 1996 niður í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi til með vinkonu sinni sem bjó úti á landi og var nýkomin í bæinn. Þá hitti hún ástina í lífi sínu, stýrimanninn Einar Ármannson sem er frá Neskaupstað og sem átti þá eitt barn. Þau sáu hvort annað á skemmtistað en hún tekur fram að hún hafi ekki verið í makaleit.

„Við horfðum á hvort annað og það var eitthvað sem gerðist. Ég leit undan og vinkona mín sagði að hann horfði enn á mig en ég sagði að það skipti engu máli; kvöldið snerist um hana. Við settumst niður og hann horfði ennþá. Hann kom síðan að borðinu og spurði hvað ég héti. Ég sagði: „Heyrðu, það eru engir karlmenn velkomnir við þetta borð.“ Hún hlær. „Þá sagði hann: „Einar heiti ég. Hvað heitir þú?“ Ég sagði honum það og hann spurði þá hvað við ætluðum að vera þarna lengi og ég sagði að við yrðum þarna í um 15 mínútur og ætluðum að drekka úr glösunum sem við vorum með. Hann sagði þá: „Sjáumst eftir 14 mínútur.“

Einar mætti aftur að borðinu um 14 mínútum síðar og síðan var ekki aftur snúið.

Einar bjó í Neskaupstað og fór hann austur en kom aftur suður helgina á eftir til að hitta Ernu Björk.

Hún fór svo fljótlega austur og hitti þar foreldra hans. Á leiðinni suður í maí spurði Einar Ernu Björk hvort þau ættu ekki að trúlofa sig og hún var til í það. Þau óku beint niður á Laugaveg þegar þau voru komin til borgarinnar og voru komin í skratgripaverslun nokkrum mínútum fyrir sex þar sem þau völdu trúlofunarhringa.

- Auglýsing -

Erna Björk og Einar trúlofuðu sig 11. maí. Þau giftu sig svo í janúar 1997 og eignuðust tvíburadætur sínar í nóvember sama ár.

Erna Björk Svavarsdóttir

 

- Auglýsing -

Ein með veik börn

Einar hefur verið sjómaður frá því á unglingsárunum en hann er stýrimaður að mennt og er nú annar stýrimaður á frystitogara.

Túrarnir geta verið frá 28 dögum upp í 40 daga. „Oftast hefur þetta verið um mánuður en svo hefur kerfið verið misjafnt. Fyrst fór hann í þrjá túra og var í fríi í einn. Svo breyttist það í tvo túra og frí í einn og núna er það einn og einn.

Sumum finnst sjómannskonulífið vera æðislegt og sjá fyrir sér sjómenn á brjálæðislegum launum. Málið er að sjómannskonur eru bæði húsmóðirin og húsbóndinn; maður er þetta tvennt 24/7. Alltaf. Þegar við Einar byrjuðum saman þá pöntuðum við símtal hjá Loftskeytastöðinni til að hann gæti hringt í mig og svo þurftum við að tala þannig saman að fólk skildi okkur ekki vegna þess að aðrar áhafnir heyrðu hvað við vorum að segja. Ef það var eitthvað leyndarmál í gangi sem enginn mátti vita um þá þurfti maður að tala undir rós eins og til dæmis þegar ég kom úr fyrsta sónarnum, sem Einar missti auðvitað af, þá var ég að reyna að segja honum svo enginn skildi okkur að ég væri ófrísk að tvíburum en ekki einu barni.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Það var oft erfitt að vera ein heima vikum saman með þrjú börn á meðan Einar var á sjónum og segir Erna Björk að það hafi verið sérstaklega erfitt þegar börnin voru veik og nefnir hún að dæturnar hafi verið „eyrnabörn“ og að hún hafi alltaf verið með annan fótinn hjá eyrnalækni. „Við fluttum suður vegna veikinda þeirra,“ segir hún en fjölskyldan bjó um tíma í Neskaupstað. „Mamma og pabbi komu sterkt til hjálpar eftir að við fluttum suður. Ég fékk bara sjö daga á ári sem „veikindadag barna“ og þegar Einar kom heim og börnin voru veik þá var ég svo glöð að geta mætt í vinnu og hann var heima hjá þeim. En það var ekki oft sem það gerðist. Það var svolítið erfitt að vera ein allan sólarhringinn með veik börn. Og maður svaf lítið þannig að það tók svolítið á. Það sem mér fannst erfiðast í þessu sjómannslífi var að sjá um allt ein eins og í veikindum þegar um var að ræða svona langvarandi veikindi.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Þessi söknuður

Erna Björk talar um söknuðinn.

„Það er rosalega erfitt að kveðja hann. Þetta er vont en það venst en það venst samt hægt. Það sama er að segja um hann þegar hann er að fara frá okkur.“

Hún talar um tilfinninguna þegar það styttist í að Einar fari á sjóinn og svo spenninginn sem hún finnur fyrir þegar það styttist í að hann komi í land. „Svo vandist það þegar hann var farinn á sjóinn en það var samt alltaf þessi söknuður. Einar hefur talað um að hann verði örari og viðþolslaus áður en hann fer á sjóinn; þegar hann er búinn að vera í góðu fríi með okkur fjölskyldunni er alltaf erfitt að fara frà okkur. Við erum búin að koma upp góðri rútinu hjá okkur sem hann tekur þátt í sem fjölskyldufaðir og er alltaf leiðinlegt að kveðja það. En við ræddum oft um þetta en svo er hann alltaf jafnspenntur þegar hann er að koma í land eins og ég er. Það er alltaf gaman.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Hvað með áhrif sjómennskunnar á sambandið?

„Ég held að það sé kannski gott að vissu leyti en ekki að vera fjarverandi svona lengi. Þetta er ekki fyrir allar konur og margar konur geta þetta ekki og hafa menn hætt á sjónum. Ég veit ekki hvað það er en ég var tilbúin í þetta verkefni og við elskum hvort annað. Ég held að það sé alltaf gott að sakna einhvers; alveg eins og þegar farið er í ferðalag þá er alltaf gott að koma heim. Það skiptir máli að halda samskiptunum við makann þegar hann er fjarverandi, upplýsa hann og treysta hvort öðru. Ég er vön að segja honum frá ef ég er að fara eitthvert eða að fara að gera eitthvað. Það er þessi skilningur okkar á milli og væntingar til hvors annars og traustið skiptir máli. Ég vil koma fram við hann eins og ég myndi vilja að hann kæmi fram við mig ef ég væri stödd einhvers staðar úti á hafi; að hann viti hvað ég sé að gera í landi hvort sem það tengist börnunum eða hvort ég var að hitta fólk eða fara í útilegur. Ég hef upplýst hann hvað við séum að gera og hverjir biðji að heilsa. Hann fær að upplifa ýmislegt í gegnum mig.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Missir af ýmsu

Einar hefur sem sjómaður misst af ýmsu sem tengist fjölskyldunni og nefnir Erna Björk að hann hafi til dæmis misst af því þegar dætur þeirra byrjuðu að skríða. „Þegar hann kom í land þegar krakkarnir voru yngri þá þurfti ég oft að upplýsa hann um það nýjasta svo sem nýjar reglur.“

Svo voru dagarnir oft þaulskipulagðir þegar Einar var í landi og stundum voru þeir ekki nema þrír til fjórir. „Þetta var stundum eins og jólin og krakkarnir voru alveg að gleypa hann þannig að maður rétt hitti hann á kvöldin af því að þau voru að kaffæra hann. Þau söknuðu náttúrlega pabba síns.

Svo vorum við að reyna að eiga kvöldstund til að vera út af fyrir okkur. Það var minna mál þegar krakkarnir voru litlir og farnir snemma upp í rúm að sofa og þá gátum við átt gæðastund fyrir okkur. En við fengum líka mikla hjálp hjá mömmu og pabba og fengu krakkarnir stundum að gista hjá þeim og þá fórum við stundum út að borða eða heimsóttum vini eða vorum bara heima og njóta saman. Og svo var prógramm í gangi þangað til hann fór aftur á sjóinn.“

Einar er oft á sjónum á tyllidögum og á afmælisdögum. „Þegar hann er í landi á þeim dögum þá er rosalega gaman. Hann hefur alltaf komið heim fyrir jólin. Þegar hann var á togara frá Neskaupstað þá komu þeir heim á hádegi á Þorláksmessu og voru farnir á miðnætti á annan í jólum. Þeir komu svo heim á hádegi á gamlársdag og voru farnir á miðnætti aðfaranótt 2. janúar. Við fluttum svo suður 1998 og þá fór hann að vinna hjá Granda og þá var komið í land í hádeginu á Þorláksmessu og þeir fóru ekki á sjóinn fyrr en 2. janúar. Þannig að við fengum að vera saman á milli jóla og nýárs. Það var rosaleg breyting. Það var æðislegt. Svo vitum við alltaf að þeir eru náttúrlega heima um sjómannadagshelgina og það er mjög gott að vita af því.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Erna Björk segir að Einar sakni þess að vera ekki með fjölskyldunni á ákveðnum stundum og þegar eitthvað er í gangi hvort sem það eru fjölskylduboð, afmæli eða ýmsir hittingar. „Þegar hann kemur í land þá höfum við haldið boð til dæmis ef einhver hefur átt afmæli þegar hann var á sjónum. Önnur dóttir okkar útskrifast í sumar úr skóla og hann verður ekki heima og eðlilega finnst honum það vera mjög leiðinlegt.“

Hún segir að sjómennskan sé jú ekki fjölskylduvæn. „Fyrirtækin eru ekkert dugleg að koma með túraplan; þeir hafa stundum komið með sex mánuði fram í tímann þannig að við eigum stundum erfitt með að skipuleggja okkur svo sem ef skipuleggja á fjölskylduferð að ári. Ef við gerum það þá veit hann bara að hann þarf þá að leggja inn fyrir aukatúr í fríi og það getur verið bras.“

Þetta er púsluspil.

„Þetta er rosalegt púsluspil og hefur alltaf verið og getur verið þreytandi. Ég er rosalega dugleg að „múltítaska“; að púsla saman hinu og þessu í fjölskyldunni.“

 

Mamma, mamma, mamma

Aftur að börnunum sem eru orðin fullorðin. Hvernig hafa þau upplifað þessa miklu fjarveru föður síns?

„Það var eðlilega alltaf svo gaman þegar pabbi kom heim. Svo var ég náttúrlega aðaluppalandinn og stundum „grýlan“ eins og maður segir af því að ég var með reglurnar. Þau söknuðu náttúrlega pabba síns og þegar hann kom heim þá fann maður alveg hvað þau sóttu í hann eins og ég talaði um. Ég var hins vegar alltaf eins og höfuð fjölskyldunnar og hef alltaf haldið utan um allt. Þau voru alltaf vön að leita til mín og ég sagði þeim oft að spyrja pabba sinn um ýmislegt af því að þau gleymdu því; það var alltaf „mamma, mamma, mamma“. Einar er meira pabbinn sem kom heim og þá var alltaf skemmtilegt. Svo þegar börnin urðu eldri leituðu þau til hans til dæmis í sambandi við námið. Þegar þau urðu eldri fóru þau líka að hringja stundum í hann ef eitthvað var. En það var einmitt þetta; þau söknuðu hans en fundu að ég var þeirra stoð og stytta og leituðu oftast til mín. Vaninn var að leita til mín en eins og ég sagði þurfti stundum að benda þeim á að biðja pabba sinn um ýmislegt eða biðja hann um að skutla þeim þegar hann var í landi. Þau föttuðu þetta eftir á. Þeim finnst hann vera skemmtilegi pabbinn sem kemur heim en þeim finnst eins og ábyrgðin sé meira hjá mér.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Í lífsháska

Erna Björk hefur oft verið hrædd um Einar og nefnir hún atburð árið 2011 þegar litlu munaði að togarinn sigldi á bjarg.

„Það var brjálað veður og var ég í námsferð með vinnunni minni þegar þetta gerðist. Það var hætta á að skipið myndi sigla á bjarg. Landhelgisgæslan var að reyna að hjálpa þeim og kasta vír til þeirra sem endaði á því að Snorri Sturluson náði að kasta vírnum og draga togarann. Það var ekki vitað hvort þeir myndu lifa af. Þetta var svakalegt og það kom í fréttum að það hafi munað litlu. Það var á seinustu metrunum sem Snorra Sturlusyni tókst að kasta vírnum til þeirra. Þetta var lífsháski. Maður er þakklátur fyrir að það gerðist ekkert.“

Hún segir að þegar veður er vont og Einar er á sjónum þá sofi hún illa. „Maður er alltaf hræddur. Núna getum við hins vegar sent skilaboð til hvors annars og þá líður manni betur.“

Erna Björk er spurð hvað hún hafi lært af því að vera sjómannskona.

„Ég hef lært heilan helling. Ég hef lært að sjá um ótrúlega marga hluti, verða mjög sjálfstæð og koma í veg fyrir misskilning í samskiptum okkar og að halda fjölskyldulífinu gangandi. Ég hef lært að vera með yfirsýn og skipuleggja; maður þarf að vera mjög skipulagður og ég er mjög skipulögð. Ég hef líka lært hvað er gott að vera ein, hvað það er gott að sakna og að vera hamingjusöm þegar maður er með alla hjá sér og að vera þakklát fyrir það.“

Hvað er hafið í augum Ernu Bjarkar?

„Ég er pínu hrædd við hafið en mér finnst það vera fallegt.“

Erna Björk Svavarsdóttir

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -