Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Þetta eru lögin sem komast áfram í Söngvakeppninni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrri undankeppnin í Söngvakeppninni fer fram á laugardagskvöldið og keppa sex lög um að komast í úrslitin þann 3. mars næstkomandi.

Við fengum Eurovision-sérfræðingana með meiru, Flosa Jón Ófeigsson og Kristínu Kristjánsdóttur til að spá í spilin og reyna að sjá fyrir hvaða þrjú lög komast áfram í úrslitin.

Lagið ekki nógu sterkt en treysta á gott „show“

Ég mun skína – Þórunn Antonía

Flosi: „Ég elska gamla stöffið sem Þórunn Antonía hefur búið til. Ég er mikill aðdáandi en ég verð að segja að ég varð fyrir pínu vonbrigðum með lagið af því að hún er svo flott. Hún verður frábær á sviði og mun negla þetta þegar kemur að beinu útsendingunni. Mér finnst lagið bara ekki nógu sterkt ef ég á að vera hreinskilinn. Það þarf að vera rosa „show“ ef hún ætlar að grípa fólkið. Þetta atriði minnir mig á Svölu í fyrra, nema ekki eins gott lag.“

Kristín: „Ég veit ekki alveg með þetta. Hún er náttúrulega rosalega hæfileikarík söngkona en þetta er ekki hennar besta. Eiginlega langt því frá. Það er spurning hvort hún skíni það skært að hún komist áfram. Ég ætla ekki að afskrifa hana. Ég vona að hún keyri þetta aðeins upp og geri ekki sömu mistökin og Svala gerði í fyrra, að vera ekki með nógu gott „show“.“

- Auglýsing -

„Ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við“

Ég og þú – Sólborg Guðbrandsdóttir og Tómas Helgi Wehmeier

Flosi: „Ég veit ekki hvort fólk eigi eftir að ná laginu. Ég hef pínu áhyggjur af því. Ég hef líka pínu áhyggjur af því að lagið sé raddað allan tímann. Það má ekki vera neitt stress á þeim. Þau eru bæði úr The Voice þannig að þau eru komin með smá reynslu í bankann. Þetta eru svo miklar týpur og flottar. Ef röddin virkar þá er aldrei að vita hvað gerist á laugardaginn. Þetta er eitt af lögunum sem vinnur á.“

- Auglýsing -

Kristín: „Þetta á ekki eftir að fljúga. Ég trúi ekki að tvær svona hrikalega töff manneskjur geti verið með svona arfaslakt lag. Það er ekkert að ske og ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við. Ég er eiginlega alveg viss um að þau komast ekki áfram.“

Úrelt lag en flottur söngvari

Heim – Ari Ólafsson

Flosi: „Lagahöfundurinn Þórunn Clausen er náttúrulega reynslubolti í Söngvakeppninni. Ég veit að atriðið verður pottþétt og það verður öllu tjaldað til. Það eru alltaf flott atriði frá Þórunni. Ari sjálfur er okkar vonarstjarna, bara 19 ára gamall. Ég hef engar áhyggjur af flutninginum sjálfum. Spurningin er hvort þetta sé of einfalt eða ekki. Það verður að koma í ljós á kvöldinu sjálfu. Þessi hái tónn sem allir eru að tala um kemur seint í laginu. Ef að fólk fílar ekki lagið nær það ekki þessum svaka tóni sem hann á eftir að rústa. En hann er gullfallegur strákur og myndavélin mun örugglega elska hann.“

Kristín: „Mér finnst Ari rosa flottur. En mér finnst þetta lag sjúklega leiðinlegt. Mér finnst það rosalega úrelt. Það hefði kannski virkað fyrir fimmtán árum. Hann er rosa flottur söngvari og tilvonandi stjarna. Ég hef á tilfinningunni að lagið eigi ekki eftir að gera mikið. Það gæti hins vegar verið svarti hesturinn í keppninni. Ég sé það samt ekki alveg því lagið er svo auðgleymanlegt.“

Ást við fyrstu sýn

Kúst og fæjó – Heimilistónar

Flosi: „Þetta er náttúrulega bara ást við fyrstu sýn. Þetta er landslið leikkvenna á Íslandi og ég hef engar áhyggjur af flutningnum. Þetta er eina lagið sem verður pottþétt á íslensku þannig að þeir sem búast ekki við að við syngjum á ensku í keppninni þurfa að setja X við Heimilistóna. Þetta er svolítið gamaldags lag og mömmufílíngur í því. Það er eitthvað sem grípur mig við þetta. Þetta atriði er eins og Daði Freyr í fyrra. Fólk hélt að hann væri grínatriði, alveg eins og það heldur með Heimliistóna en þeim er alvara með þetta. Þetta er sko ekkert grín og ég held að þetta fljúgi áfram.“

Kristín: „Kúst og fæjó er að fara áfram. Þetta er eina lagið í allri keppninni sem ég man alltaf. Ég er alltaf að syngja það. Þær hala inn eitthvað af stigum og ég spái þeim alla leið í einvígið. Þessi retro stíll á laginu og þreytta sixtís húsmóðirin – etta virkar allt saman. Þetta er allt öðruvísi, eins og Daði í fyrra. Ég segi að þær verði Daðinn í ár.“

Fer örugglega áfram

Aldrei gefast upp – Fókus hópurinn

Flosi: „Ég held að þetta sé eitt af lögunum sem fer áfram. Þetta eru fimm “solid” söngvarar. Þau eru öll með reynslu í bankanum úr The Voice. Þau tóna rosalega vel saman. Raddirnar þeirra blandast svo vel saman. Þau eru hress og skemmtileg. Þau eru miklar keppnismanneskjur en taka sig ekki of alvarlega. Ég er smá sökker fyrir góðum röddum og harmoníum og ég hef engar áhyggjur af því að þetta klikki. Þetta er það lag í fyrri undankeppninni em ætti örugglega að fara áfram.“

Kristín: „Það er sennilega að fara áfram. Ég er nokkuð viss um það. Þau eru öll frekar sterk og harmonæsa svo vel. Þetta lag hefur „major hook”. Ég spái þeim áfram.“

Svarti hesturinn í keppninni

Litir – Guðmundur Þórarinsson

Flosi: „Ég held að hann gæti orðið svarti hesturinn í keppninni. Lagið er frekar ferskt. Svo verð ég að segja, sem samkynhneigður karlmaður, að það er ekki leiðinlegt að sjá hann uppi á sviðinu. Þetta er ekki uppáhaldslagið mitt persónulega. Ég er Euro-skvísa þannig að ég elska glimmer og ostapopplög. En það er eitthvað við þetta. Þetta gæti orðið lagið sem bankar á dyrnar.“

Kristín: „Hann er alveg ágætur og kom svolítið á óvart. Ég vil sjá hann í beinni útsendingu. Guðmundur er óskrifað blað. Ég vil sjá hvernig hann tæklar þetta. Þetta lag er rosalega lágstemmt. Ef hann neglir þetta þá ætla ég ekki að afskrifa hann en ef þetta verður bara hann með gítarinn þá gæti þetta vel týnst.“

Þá er komið að stóru spurningunni – telja Flosi og Kristín að sigurlagið, lagið sem fer fyrir Íslands hönd í Eurovision í Lissabon í maí, leynist í fyrri undankeppninni?

Flosi: „Fyrir mér eru tvö atriði á laugardaginn sem eiga möguleika á að fara í einvígið, það eru Heimilistónar og Fókus hópurinn. En þetta fer eftir því hvernig seinni undankeppnin verður.“

Kristín: „Ég hef aldrei rétt fyrir mér en ég held að sigurlagið leynist í hinum riðlinum. Hins vegar held ég að Kúst og fæjó eigi efitr að fara langt.“

Smellið hér til að kynnast keppendum í fyrri undankeppninni betur.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -