Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

„Þetta eru ömurlegar aðstæður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum búin að leggja stærstum hluta okkar flota,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, í samtali við Mannlíf. Hann segir að fáeinar ferðir hafi verið farnar í upphafi vikunnar en að þetta hafi fjarað út. Þeir síðustu sem áttu bókað hafi ekki mætt. „Það er ekkert eftir af fólki.“

Starfsemi Kynnisferða, eða Reykjavík Excursions – Kynnisferðir ehf., er margþætt. Fyrirtækið býður upp á úrval ferða og afþreyingu fyrir einstaklinga og hópa. Fyrirtækið rekur ferðaskrifstofu, bílaleigu langferðabíla og strætisvagna, auk þvottastöðvar og bifreiðaverkstæðis. Björn segir að starfsemin liggi að stærstum hluta niðri en akstur um 50 strætisvagna hafi þó haldið sér, þótt farþegafjöldinn hafi minnkað verulega.
Fyrirtækið er með um 400 manns í vinnu. Hann segir að um 100 manns starfi við akstur strætisvagnanna. Þeir haldi sínu starfshlutfalli en að hinir 300 starfsmennirnir fari í 25 prósent starf á móti hlutabótum atvinnuleysistryggingasjóðs.

„Fyrirtækin þurfa að vera tilbúin þegar þetta fer af stað aftur þannig að þau geti kynnt sig og boðið góða þjónustu.“

„Þetta eru ömurlegar aðstæður og alveg fordæmalausar,“ segir Björn um stöðu mála. Hann segir að óvissan sé verst. Þótt baráttan við veiruna gangi sæmilega hér heima þá snúist þetta hjá ferðaþjónustufyrirtækjum ekki síst um það hvernig stóru þjóðunum í kring um okkur vegni, til dæmis hvenær flug hefst aftur til Bandaríkjanna og hvenær samkomubanni í Þýskalandi verður aflétt. „Ferðaviljinn þarf að koma aftur. Á því gæti orðið einhver bið. Vonandi kemur eitthvað í júní og júlí.“

Hann segir miklu máli skipta að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands á komandi mánuðum – og nýta sér íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Hann segist vissulega ekki búast við því að Íslendingar flykkist í skipulagðar dagsferðir að Gullfossi og Geysi en segir aðra kosti í stöðunni. „Við höfum til dæmis verið að bjóða ferðir í Landmannalaugar, Þórsmörk og Skóga á sumrin.“ Slíkar ferðir geti hentað fólki sem gengur Laugaveginn eða vill fara í gönguferðir í Landmannalaugum.

Geta lifað í þónokkra mánuði

Nánari umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

Spurður hvernig fyrirtækið sé í stakk búið til að takast á við þessa stöðu svarar Björn því til að það standi ágætlega. Launakostnaður hafi verið skorinn mjög niður, með áðurnefndum aðgerðum, og það sé langstærsti kostnaðarliðurinn. Fyrirtækið sé einnig að nýta sér frystingu á lánum með sex mánaða greiðslufresti. „Við getum lifað í þónokkra mánuði.“

- Auglýsing -

Björn segir að miklu máli skipti að stjórnvöld verði fljótari að bregðast við nú en þegar bankahrunið skall á. Mikilvægt sé að vinna hratt. Hann bendir á að fyrirtækin þurfi að standa sæmilega þegar ferðamennirnir fari að koma á nýjan leik. „Fyrirtækin þurfa að vera tilbúin þegar þetta fer af stað aftur þannig að þau geti kynnt sig og boðið góða þjónustu,“ útskýrir hann. Það gangi ekki að þurrka upp allt laust fé.

Býst við gjaldþrotum

Hann á von á því að einhver ferðaþjónustufyrirtæki munu fara í þrot. Mörg hafi verið orðin illa stæð eftir fall WOW air síðastliðið vor. „Ég hef heyrt að einhver fyrirtækin eigi orðið erfitt með að borga laun. Mörg fyrirtæki eru farin að fjármagna sinn rekstur á bókunum fram í tímann. Þegar þessar ferðir næstu mánuði eru afbókaðar þarf að endurgreiða fólki þær greiðslur,“ segir hann. Björn segir að innheimta sé auk þess orðin mjög þung. Út um allan heim séu fyrirtæki í sömu stöðu. „Það borgar enginn reikninga. Þetta gengur eðlilega illa og vindur upp á sig.“

- Auglýsing -

Aðspurður segir Björn að fyrirtækið hafi fyrr í mánuðinum sagt upp því fólki sem hafði nýlega hafið störf hjá fyrirtækinu og var með minna en mánaðaruppsagnarfrest. „Allir aðrir sem eru með mánaðaruppsagnarfrest eða meira hafa farið í þessa 25 prósent leið með okkur.“

Lestu ítarlega umfjöllun um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -