Miðvikudagur 25. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

„Þetta eru varnarbrögð þess sem telur sér ógnað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hefur gustað hressilega um Ragnar Þór Ingólfsson síðan hann tók við embætti formanns VR. Hann hefur verið kallaður öllum illum nöfnum, ásakaður um einræðistilburði og ofstæki. Nú síðast í leiðara nýráðins ritstjóra Fréttablaðsins. Í Mannlífi í dag svarar Ragnar meðal annars þessum ásökunum af fullum krafti.

 

Það hefur gustað hressilega um Ragnar Þór Ingólfsson síðan hann tók við embætti formanns VR fyrir tveimur árum. Hann hefur verið kallaður öllum illum nöfnum, ásakaður um einræðistilburði og ofstæki og að setja persónuleg markmið ofar hagsmunum félagsmanna. Síðasta dæmið um þetta er leiðari nýráðins ritstjóra Fréttablaðsins, Davíðs Stefánssonar, þann 1. júlí síðastliðinn þar sem ráðist er harkalega að Ragnari fyrir þá ákvörðun fulltrúaráðs VR að skipta út öllum fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) í kjölfar þeirrar ákvörðunar stjórnar lífeyrissjóðsins að hækka breytilega vexti. Ragnar svaraði þessum ásökunum í langri færslu á Facebook þar sem hann sagði meðal annars að með þessum leiðara hefði Davíð stimplað sig rækilega inn sem lobbíista sem allir sjá í gegnum.

Hvað á hann við með þeim orðum?

„Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hann ráðist að minni persónu til að gera baráttu VR fyrir því að losa um þessi ítök tortryggilega.“

„Davíð var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins eftir að Helgi Magnússon fjárfestir keypti helmingshlut í blaðinu,“ segir Ragnar og heldur áfram. „Helgi er fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einn af þeim sem stóð fyrir því að sjóðurinn lagði háar upphæðir í Silicor Materials í gegnum félagið Sunnuvelli sem áðurnefndur Davíð Stefánsson stýrði. Stefnan var að reisa kísilverksmiðju í Hvalfirði sem svo aldrei varð og milljarðar hafa tapast án þess að skóflu væri stungið í jörðu. Þetta er eitt óteljandi dæma um skaðvænleg áhrif ítaka atvinnurekanda í lífeyrissjóðunum og það eru þau ítök sem Davíð og fleiri lobbíistar atvinnurekanda eru ráðnir til að standa vörð um. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hann ráðist að minni persónu til að gera baráttu VR fyrir því að losa um þessi ítök tortryggilega. Það hefði komið meira á óvart ef hann hefði ekki gert það.“

Út í hött að tala um strengjabrúður

Davíð er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt þá ákvörðun fulltrúaráðs VR að skipta fulltrúum í stjórn LIVE út. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir ákvörðun VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna vera grafalvarlegt mál. Fjármálaeftirlitið hljóti að kanna lögmæti inngrips VR. Þá segir Helgi Vífill Júlíusson, blaðamaður Markaðarins, það hættulegt að Ragnar Þór og samstarfsmenn hans geti skipt út hálfri stjórn lífeyrissjóðs þegar þeim hentar. Hvernig þykir Ragnari að sitja undir þessum fullyrðingum?

- Auglýsing -

„Þessar fullyrðingar eru auðvitað af sama toga og leiðari Davíðs,“ segir Ragnar. „Ítökum atvinnurekanda í stjórn lífeyrissjóðsins er ógnað og þá stökkva lobbíistar þeirra til varnar. Þetta er ekki svaravert, það er ekkert í lögum sem bannar fulltrúaráðinu að afturkalla umboð fulltrúanna í stjórn lífeyrissjóðsins og lög og reglur VR styðja fullkomlega við okkur í þessu máli, að halda því fram að tuttugu af þeim tuttugu og fjórum fulltrúum sem mættu á fund fulltrúaráðsins þar sem þessi ákvörðun var tekin séu strengjabrúður mínar er auðvitað gjörsamlega út í hött. Það sér hvert mannsbarn. Þetta eru varnarbrögð þess sem telur sér ógnað.“

Það hlýtur samt að vera erfitt að sitja undir þessum árásum, hefur þetta ekki gengið nærri þér?

„Ég tek þetta ekki persónulega, fjarri því,“ segir Ragnar. „Ég vissi það þegar ég gaf kost á mér í þetta starf að því fylgdi mikið áreiti og alls konar persónulegar svívirðingar. Ég hefði ekki tekið þennan slag ef ég hefði ekki treyst mér til að taka áreitinu. En þetta reynir vissulega stundum á, ég neita því ekki. Aðallega það að áreitið tekur aldrei enda. Maður er í vinnunni allan sólarhringinn. Ég er kannski í helgarferð í sumarbústað með fjölskyldunni þegar eitthvert mál sem fjölmiðlar hafa áhuga á kemur upp og það endar með því að ég er í símanum að svara spurningum blaðamanna meirihluta ferðarinnar. Og ef ég er ekki í símanum er ég að hugsa um eitthvað sem þarf að takast á við og ekki almennilega til staðar fyrir börnin mín þótt ég sé á staðnum. Það þykir mér leiðinlegt.“

- Auglýsing -
Ragnar Þór Ingólfsson hefur, frá því að hann tók við sem formaður VR, verið kallaður öllum illum nöfnum, ásakaður um einræðistilburði og ofstæki og að setja persónuleg markmið ofar hagsmunum félagsmanna.

Ragnar er kvæntur Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur og fimm barna faðir. Hefur þetta áreiti ekkert bitnað á fjölskyldunni? Hafa börnin til dæmis orðið fyrir áreiti vegna framgöngu föður þeirra?

„Þetta bitnar auðvitað á fjölskyldunni á þann hátt sem ég lýsti hér að framan,“ segir Ragnar. „Ég er lítið til staðar. En þau hafa ekki orðið fyrir neinu aðkasti, síður en svo. Við finnum miklu meira fyrir því að fólk er ánægt með það sem við í VR erum að gera og þakklátt fyrir það að við tökum slaginn. Það er mikill meðbyr með starfi okkar og ég finn fyrir gríðarlega jákvæðum straumum frá félagsmönnum í VR og öðrum launþegum. Það gerir þetta allt saman þess virði að standa í því.“

Byrjaði að skoða lífeyrissjóðina 2007

Það var í búsáhaldabyltingunni eftir hrunið 2008 sem Ragnar varð áberandi í baráttunni. Spurður hvað hann hafi verið að gera fram að því, hvort hann hafi alltaf verið á kafi í verkalýðsbaráttunni á bak við tjöldin, hlær hann og segir: „Nei, alls ekki. Ég hafði nákvæmlega engan áhuga á pólitík og verkalýðsbaráttu þegar ég var yngri, fannst það ekki koma mér við. Það var ekki fyrr en 2007 þegar eiginmaður frænku minnar varð bráðkvaddur í veiðiferð sem við vorum saman í að ég fór að velta þessu fyrir mér í alvöru og rak í rogastans yfir því hvað lífeyrissjóðakerfið og samtryggingin, sem við höfum stært okkur af, er veikburða. Ég fór að átta mig á að lífeyrissjóðakerfið var ekki það bakland sem ég taldi það vera. Ég byrjaði að lesa mér til um kerfið, hvernig réttindin verða til, hvernig þau eru reiknuð og á endanum skildi ég nákvæmlega hvernig kerfið virkaði, hverjir stjórna því og bera ábyrgð á því.

Eftir það fór ég að taka virkan þátt í baráttunni. Ég skrifaði greinar og bloggaði, tók þátt í mótmælafundunum í kjölfar hrunsins. Bauð mig fram í stjórn VR 2009 og var einn af þeim sem kom inn í stjórnina eftir hallarbyltinguna svokölluðu, sat í stjórninni í átta ár og ákvað að þeim loknum að bjóða mig fram sem formaður. Ég hafði sjálfur staðið fyrir að koma því inn í lög félagsins að stjórnarfólk mætti ekki sitja lengur en í átta ár og það var því spurning um að hætta að vera virkur í stjórnun VR eða taka formannsslaginn.

Mér var í rauninni alveg sama þótt ég tapaði í kosningunni til formanns, ég hefði bara aldrei orðið sáttur við það að henda inn handklæðinu af sjálfsdáðum og vildi frekar láta kjósa mig út en það endaði sem sagt með því að ég náði kosningu og hef verið formaður VR síðan.“

Trommusett í stað rítalíns

Ragnar er alinn upp í Breiðholtinu, gekk í Hólabrekkuskóla og síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en hann segir nám ekki hafa átt við sig svo hann lauk ekki stúdentsprófi. Áhuginn á félagsstarfi var þó strax til staðar á skólaárunum og hann segist hafa verið mjög virkur í félögum skólanna en pólitík hafi hins vegar verið honum órafjarri.

„Ég held að einu afskipti mín af pólitík á skólaárunum hafi verið þegar einhverjir félagar mínir voru að safna liði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og buðu upp á ókeypis hamborgara og bjór ef maður skráði sig í flokkinn,“ segir hann og skellihlær. „Annars var fátt fjær mér en að hugsa um stjórnmál. Hvorki pabbi né mamma voru virk í pólitík eða verkalýðsbaráttu og maður var bara ekkert að hugsa um þessi mál. Ég varð hins vegar mjög snemma andsnúinn kerfinu og ákvað að hætta í skólanum fyrir stúdentspróf og fara að vinna.

Í stað þess að lesa skólabækurnar fór ég að lesa alls kyns skrif um allt mögulegt, en það var ekki fyrr en ég las doktorsritgerð Herdísar Drafnar Baldvinsdóttur, Valdanetið á Íslandi: Þversögn verkalýðshreyfingarinnar, sem hún skrifaði á ensku og varði við Lancaster University á Englandi 1998, sem eitthvað small í höfðinu á mér og mér fannst ég hafa eignast sálufélaga.

Þar sýnir hún fram á að starfsemi lífeyrissjóðanna hafi innlimað verkalýðshreyfinguna í þennan valdakjarna með útbreiddu samtengineti bæði persónulegu og fjárhagslegu – og í samtengdum stjórnunarstöðum. Kannski var þar lagður grunnurinn að því sem ég er að gera í dag án þess að ég áttaði mig á því þá, allavega var það stórkostleg upplifun að finna einhvern sem leit þetta kerfi sömu augum og ég.

Herdís var auðvitað úthrópuð og fékk yfir sig flaum svívirðinga frá atvinnurekendum og talsmönnum þeirra, var kölluð doktor í misskilningi og ég veit ekki hvað og hvað, en allt sem hún segir í þessari ritgerð er satt og það hefur ekkert breyst síðan. Þrátt fyrir hrunið og allt sem þetta kerfi hefur leitt yfir þjóðina hefur því ekki verið haggað og það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þeir sem hafa hag af því að viðhalda því bregðist hart við þegar reynt er að brjóta það á bak aftur. Það hjálpar mér að halda ró minni gagnvart þessum ásökunum lobbíistanna.“

„Ég var óskaplega aktíft barn. Mjög ör og óstýrilátur og hefði örugglega fengið alls kyns greiningar ef það hefði verið til siðs á þeim árum að senda börn í þær.“

Það voru ekki bara félagsstörfin sem áttu hug Ragnars á skólaárunum, hann fór að spila á trommur, sem hann gerir enn þá, og hellti sér út í tónlistina af sama krafti og hann tekst á við allt annað. Hann segir trommuleikinn hafa hjálpað sér gríðarlega á þessum árum.

„Ég var óskaplega aktíft barn,“ segir hann. „Mjög ör og óstýrilátur og hefði örugglega fengið alls kyns greiningar ef það hefði verið til siðs á þeim árum að senda börn í þær. Ég hef stundum sagt í gríni að í staðinn fyrir rítalín hafi ég fengið trommusett og það hafi haft sömu áhrif. Ég fékk útrás við trommurnar, var í hljómsveit og var bara nokkuð góður trommuleikari, þótt ég segi sjálfur frá. Ég spila oft enn og það er alltaf jafngaman og gefandi. Ég held líka að trommuleikurinn hafi að sumu leyti undirbúið mig fyrir formennskuna í VR. Trommuleikari verður að vera stöðugur og snöggur og pínulítið hvatvís og algjörlega með hugann við það sem hann er að gera.“

Hjólreiðar eru hugleiðsla

Eftir að hafa hætt í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fór Ragnar fljótlega að vinna hjá reiðhjólaversluninni Erninum, þar sem hann vann í tuttugu og fimm ár, og þar kynntist hann og heillaðist af hjólreiðum sem hann segir að virki eins og hugleiðsla fyrir sig og hjálpi sér að hreinsa hugann og losna við áreitið sem starfinu fylgir.

„Árin mín hjá Erninum voru mjög góð og ég lít enn á starfsfólkið þar sem mína aðra fjölskyldu,“ segir hann og það er hlýja í röddinni, greinilegt að hann meinar það sem hann segir. „Þegar ég var að vinna þar fór ég að hjóla og ég hjóla enn mjög mikið. Það er fátt sem hreinsar hugann betur og að mínu áliti eru hjólreiðar tegund af hugleiðslu. Ég hef reyndar líka farið í hugleiðsluhjólaferð,“ bætir hann við og brosir. „Konan mín hjólar líka mikið og flestar bestu samverustundir fjölskyldunnar snúast um útivist og ferðalög, að loka hversdagsamstrið úti og njóta sín í náttúrunni. Það eru bestu stundirnar.“

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að eftir að ég hætti sem formaður VR verður staða mín á atvinnumarkaði ekki beysin, þessi styr sem hefur staðið um mína persónu er ekki beint til þess fallinn að gera mann eftirsóttan af atvinnurekendum,“ segir Ragnar Þór.

Árið 2013 gaf Ragnar kost á sér í alþingiskosningum og var í fyrsta sæti á lista Dögunar í Suðvesturkjördæmi. Heillar pólitíkin hann enn þá og sér hann fyrir sér að setjast á þing þegar starfi hans sem formaður VR lýkur?

„Ertu alveg frá þér?“ spyr hann hneykslaður á þessari spurningu. „Heldurðu að starf í íslenskri pólitík heilli nokkra heilvita manneskju? Ég horfi á útsendingar frá Alþingi og vorkenni vesalings fólkinu sem vinnur þar að þurfa að vinna í þessu starfsumhverfi, það er alveg skelfilegt. Þannig að svarið við þessari spurningu er nei. Hins vegar hef ég áhuga á því að halda áfram að berjast fyrir réttindum vinnandi fólks í landinu eftir að starfi mínu hér er lokið, ég veit bara ekki alveg enn þá á hvaða vettvangi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að eftir að ég hætti sem formaður VR verður staða mín á atvinnumarkaði ekki beysin, þessi styr sem hefur staðið um mína persónu er ekki beint til þess fallinn að gera mann eftirsóttan af atvinnurekendum. Konan mín er sömuleiðis mjög meðvituð um þetta, við höfum rætt það, en það kemur bara í ljós þegar þar að kemur hvað ég fer að gera, ég hef ekki áhyggjur af því í dag.“

„Ertu alveg frá þér? Heldurðu að starf í íslenskri pólitík heilli nokkra heilvita manneskju?“

Baráttunni lýkur aldrei

Hefur Ragnar hugsað sér að sitja lengi í formannssæti VR eða er hann farinn að hugsa sér til hreyfings?

„Ég á ekki von á því að ég verði formaður lengi, nei,“ segir hann. „Þetta hefur verið stórkostlegt, sérstaklega að vinna með öllu þessu góða fólki sem er með mér í stjórninni svo ég tali nú ekki um starfsfólkið okkar sem er algjörlega frábært. En þetta er ekki starf sem fólk á að vera lengi í. Það er auðvelt að brenna út og missa sjónar á því sem skiptir máli. Maður hefur séð fjölmarga sem maður batt vonir við sem vonarstjörnur íslenskrar verkalýðsbaráttu verða samdauna spillingunni og missa sjónar á markmiðunum. Það er svo auðvelt að berast með straumnum og leiðast út í eitthvað sem samræmist ekki þeim markmiðum sem fólk hafði í upphafi. Þess vegna reyndi ég að koma því í gegn að setja það í lög VR að fólk gæti ekki setið í stjórn félagsins lengur en í átta ár og það sama gildir auðvitað um formennskuna. Þannig að ég verð ekki hér lengur en átta ár hvernig sem allt veltist. Hef reyndar ekki trú á því að ég verði mjög lengi í viðbót, kannski bara þessi tvö ár. Hins vegar brennur enn í mér neistinn til að berjast fyrir bættum hag launafólks og á meðan hann lifir held ég áfram, hvort sem það verður í þessu starfi eða einhverju öðru.“

„Ég á ekki von á því að ég verði formaður lengi, nei.“

Eru einhver sérstök baráttumál sem þú vilt koma í höfn áður en þú hættir?

„Koma í höfn?“ spyr Ragnar og það hnussar svolítið í honum. „Baráttan fyrir réttindum launafólks tekur aldrei enda. Þótt eitthvað ávinnist verður maður stöðugt að vera vakandi og halda áfram að berjast fyrir því að það verði ekki tekið af okkur aftur. Við erum svo oft búin að horfa upp á það að þau réttindi sem hafa áunnist með baráttu verkalýðshreyfingarinnar hafa verið hunsuð og gerð að engu. Lífeyrissjóðamálin eru til dæmis besta dæmið um það. Þau ítök sem atvinnurekendur hafa náð innan sjóðanna eru engan veginn ásættanleg og það hlýtur að vera markmið okkar að losa sjóðina undan því oki. Og miðað við þessi viðbrögð lobbíistanna sem við vorum að tala um í upphafi þá erum við greinilega á réttri leið í þeirri baráttu, það gefur manni von.

„Maður hefur séð fjölmarga sem maður batt vonir við sem vonarstjörnur íslenskrar verkalýðsbaráttu verða samdauna spillingunni og missa sjónar á markmiðunum.“

Það er líka margt fleira sem ég vil sjá breytast á meðan ég er hér. Skerðingar á lífeyri aldraðra og öryrkja vegna samspils lífeyrissjóðanna og Tryggingastofnunar eru til dæmis hneyksli og það verður að koma því í gegn að þær verði lagðar af.

Húsnæðismálin eru öll í ólestri, það er gjörsamlega ömurlegt að fólk sem er á leigumarkaði þurfi annaðhvort að borga meirihlutann af tekjum sínum í húsaleigu eða leigja eitt herbergi með sameiginlegri snyrtingu og hafa enga möguleika á að bjóða börnum sínum mannsæmandi umhverfi.

Og svo er það spillingin innan lífeyrissjóðakerfisins. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur fasteignalána á Íslandi. Þeir eru stærstu eigendur smásöluverslunar og þjónustu fyrirtækja hér á landi. Það þýðir að sjóðirnir hafa beinan og óbeinan hag af háu leiguverði, háu húsnæðisverði, háum vöxtum sem og verðtryggingu. Sjóðirnir hafa líka hag af lágum launum og hárri álagningu.

Við erum því orðin þrælar eigin kerfis sem þvertekur fyrir að koma að samfélagslegri uppbyggingu innviða samfélagsins öðruvísi en að græða sem mest á því. Það er vitaskuld gjörsamlega óásættanlegt og þeirri baráttu þarf að halda áfram af fullum krafti, hvort sem það verður á meðan ég sit í formannssætinu eða ekki. Við þurfum að halda áfram að berjast hvernig sem allt veltist.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -